Bob Paisley

Bob Paisley fæddist 23. janúar 1919 í námuþorpinu Hetton le Hole í norðaustur-Englandi og telst því vera sannkallaður Geordie eins og Alan Shearer, Paul Gascoigne og fleiri sem koma frá þeim slóðum. Bob þótti liðtækur í knattspyrnu og meðal annars höfðu Úlfarnir áhuga á honum. Hann lék með sigursælum skólaliðum og hafði hug á að ná langt. En eins og svo margir aðrir ungir piltar í bænum hóf hann starfsferill sinn í kolanámu, þá aðeins fjórtán ára að aldri en nokkrum mánuðum seinna var námunni lokað og Bob fór á samning sem múrari. Knattspyrnuhæfni piltsins hafði borist út og besta áhugamannafélag í Englandi á þessum tíma Bishop Auckland réð hann til sín. Bob lék með liðinu í tvö tímabil og vann nokkra titla. Bob stóð sig það vel að í maí 1939 keypti George Kay framkvæmdastjóri Liverpool hann til félagsins. Leikmenn Liverpool hófu undirbúning fyrir komandi leiktíð eins og vant var en það átti eftir að verða bið á að Bob léki sinn fyrsta leik fyrir Liverpool. Sú bið var ekki vegna þess að hann væri ekki nógu góður, í september 1939 braust síðari heimsstyrjöldin út. Bob var kvaddur í herinn og barðist meðal annars í eyðimerkurstríðinu gegn Þjóðverjum og gat sér gott orð. Það var vegna þessarar orrustu sem Bob hlaut viðurnefni sitt "Rotta" hjá Liverpool samanber eyðimerkurrotta "desert rat". Bob segir að að vera hans í hernum hafi þroskað sig mikið og gefið honum gott vegarnesti: "Ég missti sex ár af knattspyrnuferli mínum á meðan stríðinu stóð. En á þeim tíma var ekki um annað að ræða. Ég eins og margir aðrir atvinnuknattspyrnumenn urðu að reyna að taka þráðinn upp að nýju eftir stríðið. Við vorum þeir heppnu. Margir áttu ekki völ á því 1945." Leiktíðin 1946-47 var sú fyrsta sem fram fór eftir stríð. Paisley var 27 ára gamall. Hann tryggði sér fljótlega fast sæti á miðjunni og þótti vinnusamur, traustur og fastur fyrir. Liverpool stóð uppi á endanum sem Englandsmeistari. Ekki slæm byrjun á ferlinum.

Keppnistímabilið 1949-50 gerðist eftirminnilegt atvik sem Bob átti oft eftir að hugsa til. Liverpool gekk vel í bikarkeppninni og komst í undanúrslit þar sem þeir drógust gegn erkifjendunum í Everton. Liverpool hafði aldrei leikið á Wembley en Bob átti stóran þátt í að tryggja Liverpool sæti á Wembley í fyrsta skipti. Liverpool vann Everton 2-0 í undanúrslitum og skoraði Bob fyrra markið með því að vippa boltanum yfir markvörð Everton úr þröngri stöðu. Mótherjar Liverpool í úrslitaleiknum voru Arsenal. Einn af bestu leikmönnum Liverpool á þessum tíma var maður að nafni Laurie Hughes. Hann var búinn að vera meiddur en var tilbúinn í slaginn þegar að úrslitaleiknum kom. Einhver varð að víkja og valið stóð á milli Bob og Bill Jones, afa Rob Jones. George Kay valdi Bill og Bob missti af leiknum. Varamenn tíðkuðust ekki í þá daga. Liverpool náði sér ekki á strik í leiknum og margir kenndu fjarveru Bob þar um. Að missa af úrslitaleiknum var mesta áfall á leikferli Paisley. Síðar sagði hann að sú reynsla hafi komið honum vel þegar hann varð sjálfur framkvæmdastjóri: "Ef ég þurfti að setja leikmann út úr liðinu vissi sá leikmaður að ég vissi hvernig honum leið. Ég hafði lent í því sama sjálfur." Bob lék sinn síðasta leik með Liverpool undir lok tímabilsins 1953-54. Því miður féll Liverpool í aðra deild þetta tímabil svo ferill Paisley sem leikmanns endaði því hálf dapurlega. Bob lék alls 278 deildar- og bikarleiki fyrir Liverpool og skoraði 13 mörk.

TIL BAKA