Steve McManaman

Næsta sparktíð var viðburðarík. Steve fór á kostum og átti líklega sitt besta tímabil. Liverpool lék aldrei betur undir stjórn Roy Evans og á köflum var unun að horfa á liðið en gengi liðsins var ekki nógu stöðugt til að innbyrða titillinn. Steve lék alla leikina og skoraði tíu mörk. Liverpool fór á Wembley í úrslitum F.A. bikarsins gegn Manchester United. Þar var búist við miklu af Steve en hann náði sér ekki á strik frekar en aðrir leikmenn Liverpool.

Sumarið 1996 var úrslitakeppni Evrópukeppni landsliða leikin á Englandi. Terry Venables þjálfari enskra ákvað að láta Steve hafa frjálst hlutverk eins og hann hafði hjá Liverpool. Það gekk vel og Steve var einn besti leikmaður landsliðsins sem komst í undanúrslit. Þetta voru bestu landsleikir sem Steve hefur leikið. Hann hefur sjaldan leikið vel í landsleikjum þrátt fyrir gott leikform með Liverpool og hefur honum að því leyti verið líkt við fyrrum félaga sinn John Barnes. Sparktíðin 1996/97 gekk vel lengst af og Liverpool átti alla möguleika á titlinum en undir lok tímabilsins fór allt úrskeiðis. Í lok nóvember gerðist sá sögulegi atburður að Steve var ekki í liðinu. Meiðsli voru farin að gera vart við sig og ekki síður þreyta. Þetta var fyrsti leikurinn sem hann missti af í tvö ár. Hann missti þó aðeins af einum leik til viðbótar en samt var hann ekki eins góður og næstu tvær leiktíðir á undan. Hraðinn var ekki eins mikill og eins áttu mótherjarnir það til að setja sérstaka menn honum til höfuðs til að taka hann úr umferð.

Í upphafi leiktíðarinnar 1997-98 yfirgaf John Barnes Liverpool og fór til Kenny Dalglish í Newcastle. Steve var þá orðinn leikreyndasti maður Liverpool. Roy gerði hann að varafyrirliða og leysti Paul Ince af sem fyrirliða þegar Paul var ekki með. Um haustið gengu miklar sögusagnir um að Steve væri að fara. Samkvæmt blaðafregnum hafði Liverpool tekið 12 milljón punda tilboði Barcelona í Steve en ekkert varð úr þegar Macca fór út til viðræðna. Steve sagðist ekki á förum og lagði sig allan fram. Á þessum óvissuvikum skoraði hann tvö sín fallegustu mörk bæði eftir ótrúlega einleikspretti frá miðju gegn Celtic og Aston Villa. Sögusagnirnar urðu ekki kveðnar niður og gengu allt tímabilið. Macca missti aðeins úr tvo leiki og skoraði tólf sinnum. 

Níunda og síðasta sparktíð Steve með aðalliði Liverpool olli vonbrigðum. Hann kom inná sem varamaður í einum leik á HM í Frakklandi. Það mátti fljótlega sjá eftir að tímabilið hófst að Steve var ekki heill heilsu. Leikþreyta og meiðsli sem ekki höfðu fengið tíma til að jafna sig urðu loks til þess að í byrjun nóvember var honum skipað að taka sér hvíld fram að jólum. Á sama tíma sagði Roy af sér störfum og um leið var ljóst að Steve myndi aldrei aftur leika það hlutverk hjá Liverpool sem Roy mótaði fyrir hann. Steve kom aftur til leiks í jólaleikjunum en meiddist aftur gegn Newcastle milli jóla og nýárs.

Í lok janúar kom svo yfirlýsingin sem allir vissu að kæmi fyrr eða síðar. Steve tilkynnti að hann yrði leikmaður Evrópumeistara Real Madrid á næstu leiktíð. Í raun var öllum létt. Nú var margra mánaða vangaveltum lokið og allir aðilar vissu hvar þeir stóðu. "Ég vonaði að blaðamannafundurinn yrði stuttur svo ég gæti haldið áfram að einbeita mér að því að leika með Liverpool. Það er það mikilvægasta að sinni. Ég vildi að ég hefði orðið Deildarmeistari með Liverpool en það varð því miður ekki. Ég hef átt frábærar stundir á Anfield. Ég tel að framtíð Liverpool sé björt og ég hef fulla trú á að Gerard, Patrice og Phil eigi eftir að ná árangri."

Nokkrum dögum eftir að Steve tilkynnt ákvörðun sína lék Liverpool á útivelli gegn Coventry. Steve kom inná sem varamaður og skoraði eina markið í 2:1 tapleik. Nokkrir áhangendur Liverpool sendu honum kaldar kveðjur þegar hann kom inná. Áhangendur Liverpool eru kröfuharðir. Rifjað var upp að Kevin Keegan fékk að heyra það frá áhangendum Liverpool eftir að hann tilkynnti að hann mundi fara frá Liverpool til Hamburger S.V. á sínum tíma. Hann tilkynnti ákvörðun sína fyrir síðasta tímabil sitt á Anfield. Eins og Kevin var Steve fljótlega fyrirgefið. Í næsta heimaleik gegn Middlesbrough fékk Steve góðar viðtökur og hann sagði að sér væri létt.

Síðasta markið sem Steve skoraði var sigurmarkið í 3:2 sigri á Tottenham á Anfield Road eftir að gestirnir höfðu komist í 0:2. Steve bar fyrirliðabandið í kveðjuleik sínum á Anfield Road gegn Wimbledon á síðasta leikdegi tímabilsins. Hann kvaddi með góðum leik og lagði upp annað mark leiksins í 3:0 sigri. Hann æddi upp hægri kantinn og gaf hárnákvæma sendingu fyrir á Karl Heinz Riedle sem skoraði fyrir framan The Kop. Steve fór af leikvelli fimmtán mínútum fyrir leikslok. Allir á Anfield Road stóðu upp og hylltu Steve. "Good luck Macca" stóð á spjaldi meðal áhorfenda. Í leikslok kvaddi Steve Anfield Road með því að ganga út á völlinn og láta vin sinn Robbie Fowler hafa peysuna sína númer 7.

Steve McManaman bar lengi vel vonir áhangenda Liverpool og verður ávallt valinn í úrvalslið Liverpool síðasta áratugar tuttugustu aldarinnar.

TIL BAKA