Steve McManaman

Steve fæddist í Liverpool 11. febrúar 1972. Hann ólst upp sem Everton aðdáandi og vildi leika með þeim. En það voru njósnarar Liverpool sem tóku fyrst eftir honum og hann lék með unglingaliðum Liverpool og síðar varaliðinu sem var þá undir stjórn Phil Thompson. Þótt grannur og veiklulegur væri var hann snemma talinn eiga framtíð fyrir sér og vakti athygli. Ian Rush nefndi Steve sem efnilegasta leikmann Liverpool og sagði að hann ætti eftir að komast í allra fremstu röð.

Þann 5. desember 1989 lék Steve sinn fyrsta landsleik með u-21 árs liði Englendinga. Leikið var gegn Wales á Prenton Park heimavelli Tranmere handan Merseyárinnar. Markalaust var en Steve þótti leika vel. Tíu dögum síðar komst hann á varamannabekk aðalliðs Liverpool í leik gegn Sheffield United á Anfield Road. Liverpool vann 2:0 með mörkum frá John Barnes og Ian Rush. Steve fékk að spreyta sig í síðari hálfleik þegar hann kom inná fyrir Peter Beardsley. Hann kom næst við sögu hjá aðalliðinu ári síðar þegar hann kom inná í 3:0 bikarsigri gegn Blackburn í byrjun árs 1991. Hann kom svo inná sem varamaður í 2:0 sigri á Tottenham í lokaleik tímabilsins á Anfield Road.

Graeme Souness sem tekinn var við sem stjóri hafði mikla trú á drengnum og hann æfði með aðalliðinu á undirbúningstímabilinu fyrir næstu leiktíð. Hann skoraði í einum æfingaleiknum og meiðsli Ian Rush færðu honum sæti í byrjunarliðinu í fyrsta skipti í upphafsleik tímabilsins gegn Oldham á Anfield Road. Sigur vannst 2:1 og Steve átti stórleik. Í næsta leik á útivelli gegn Manchester City skoraði hann með glæsilegum skalla í leik sem tapaðist 2:1.

Í leikskrá Liverpool stuttu seinna lýsti Phil Thompson ánægju sinni með Steve. "Það hefur verið ánægjulegt að sjá framfarir hans. Hann kom til okkar 14 ára. Steve var í þá daga smávaxinn og var sparkað til og frá af sterkari strákum. Steve er rétt að hefja ferilinn. Hann er nú að leika meðal þeirra bestu og það er undir honum sjálfum komið hvað úr verður. Hann hefur allt til að bera til að komast í röð þeirra bestu."

Steve var fastur maður í byrjunarliðinu þessa leiktíð. Sérstaklega átti hann minnisverða leiki í F.A. bikarnum. Hann skoraði í 0:4 sigri á Crewe í 3. umferð. Í næstu umferð á tvítugsafmælinu sínu skoraði hann í aukaleik gegn Bristol Rovers í 2:1 sigri. Liverpool var undir þegar Steve jafnaði með glæsiskoti utan teigs fyrir framan The Kop. Í 5. umferð skoraði Steve sigurmarkið 3:2 í framlengdum aukaleik gegn Ipswich á heimavelli. Michael Thomas tryggði 1:0 sigur á Aston Villa á Anfield í 8 liða úrslitum. Í undanúrslitum lék Liverpool gegn Portsmouth á Highbury. Liverpool lenti undir í framlengingu þegar Darren Anderton skoraði. Steve varð að fara meiddur útaf þegar búið var að nota báða varamennina. Liverpool lék einum færri síðustu mínúturnar en tókst að jafna þegar Ronnie Whelan skoraði á síðustu mínútunni. Ekki var furða að Graeme þyrfti í hjartaaðgerð eftir leikinn! Steve missti af aukaleiknum vegna meiðsla en Liverpool vann 3:0 í vítaspyrnukeppni.

Liverpool hélt upp á aldarafmælið með leik gegn Sunderland í úrslitunum. Allt kapp var lagt á að Steve yrði leikfær og það tókst. Á 47. mínútu sendi Steve fyrir frá hægri kanti á Michael Thomas sem klippti boltann glæsilega í markið. Ian Rush skoraði á 67. mínútu og sigurinn var tryggður. Ian skoraði þar með fimmta bikarúrslitamark sitt sem er met. Steve var valinn maður leiksins. Hann gat vel við unað eftir tímabilið með 51 leik og 10 mörk. Steve var fastamaður á næstu leiktíð. Hann lék 41 leik og skoraði 7 sinnum. Sparktíðin 1993/94 var ekki farsæl fyrir Liverpool. Steve hélt þó sínu striki og lék nema þegar meiðsli hömluðu. Hann skoraði þó aðeins tvisvar og það í sama leiknum og það fór að bera á gagnrýni á markaskorun hans. Graeme sagði af sér snemma árs og Roy Evans tók við.

Næsta tímabil olli þáttaskilum á ferlinum.  Áður hafði Steve leikið á öðrum hvorum kantinum eða í sókninni. En Roy gaf honum lausan tauminn. Hann mátti í raun vera út um allan völl og leikur Liverpool var að miklu byggður upp í kringum hraða hans og hugmyndaauðgi. Liverpool vann Crystal Palace 1:6 á útivelli í fyrsta leik. Steve var óstöðvandi og skoraði tvö mörk. Fyrstu mörk hans í 363 daga. Leikaðferð Roy gekk vel og mótherjar Liverpool vissu ekkert hvar Steve var á köflum og hann gerði mikinn usla. Liðið lék skemmtilega sóknarknattspyrnu og komst í úrslit Deildarbikarins á Wembley. Þann 2. apríl vann Liverpool Deildarbikarinn í fimmta skipti með 2:1 sigri á Bolton. Steve skoraði bæði mörkin á 37. og 68. mínútu. Steve fékk mikið hól frá heiðursgestinum, gamla kantsnillingnum, Sir Stanley Matthews eftir leikinn.

Steve lýsti úrslitaleiknum síðar í leikskrá Liverpool sem eftirminnilegasta leik sínum með félaginu. "Deildarbikarúrslitaleikurinn 1995 var stórmerkur leikur bæði fyrir mig og félagið. Liverpool vann Deildarbikarinn og ég skoraði bæði mörkin. Bolton barðist vel en þegar upp var staðið vorum við sigurvegarar og unnum okkar fyrsta bikar undir stjórn Roy Evans. Við vorum fyrirfram taldir eiga sigurinn vísan því Bolton var deild neðar en við. Við bjuggumst þó alltaf við erfiðum leik því það er aldrei neitt gefið í úrslitaleikjum. Bolton myndi örugglega reyna að ná óvæntum úrslitum. Leikurinn var jafn til að byrja með en við vorum þolinmóðir og höfðum trú á að við myndum ná marki. Ég man að við náðum forystu rétt fyrir hálfleik og það gaf okkur öryggi og sjálfstraust. Ég fékk boltann frá John Barnes og lék á tvo varnarmenn inn í teiginn þaðan sem ég skaut á markið. Ég hef oft náð betra skoti en boltinn fór í markið og það var frábær tilfinning að sjá boltann í netinu. Við vissum að Bolton myndi reyna allt til að jafna og vorum því vel á verði. Jafnframt reyndum við hraðar sóknir til að útkljá leikinn. Við héldum að það hefði tekist þegar ég skoraði aftur um miðjan síðari hálfleik. Ég fékk boltann úti á vinstri kanti og lék inn að markinu framhjá varnarmönnum sem komu á móti mér og renndi boltanum í fjærhornið. Úrslitin hefðu þá átt að vera ráðin. En Bolton svaraði í næstu sókn eftir að ég skoraði þegar Alan Thompson skoraði með glæsilegu skoti. Allt í einu var ekkert öruggt. Það var léttir þegar dómarinn flautaði til leiksloka. Liðið lék þó vel og við verðskulduðum sigurinn fyllilega. Við áttum bestu færin í leiknum og vorum sterkari aðilinn. Það er alltaf frábært að leika á Wembley en það er hrikalegt að tapa þar. Þarna var ég í sigurliði öðru sinni á Wembley. Áður lék ég þar þegar Liverpool vann F.A. bikarinn 1992. Margir spáðu okkur slæmu gengi fyrir tímabilið svo það var gott að vinna bikarinn og afsanna hrakspárnar."

Macca var svo sannarlega maður augnabliksins í þessum tveimur úrslitaleikjum á Wembley.

TIL BAKA