Jamie Redknapp

Í byrjun leiktíðarinnar 2001-2002 leit út fyrir betri tíð. Jamie var á bekknum þegar Liverpool vann Góðgerðarskjöldinn og Stórbikar Evrópu og bætti þar með við verðlaunasafnið. Hann var búinn að leika átta leiki og skora tvö mörk þegar ný meiðsli lét á sér kræla. Hann lék ekki oftar með aðalliðinu.

Sem dæmi um heilindi hans þá átti Jamie rétt á ágóðaleik með Liverpool þegar hann hafði verið í tíu ár hjá félaginu. En hann afþakkaði það vegna þess að honum fannst hann ekki hafa lagt nóg af mörkum á undanförnum árum. Það eru ekki margir sem hafa tekið þessa afstöðu í gegnum tíðina þótt og það þó þeir eigi digra sjóði fyrir. Jamie mun ekki komast í röð bestu miðjumanna Liverpool í sögu félagsins. En á ellefu árum sínum hjá félaginu ávann hann sér þó eitt sem ekki verður af honum tekið. Hann ávann sér virðingu allra sem tengjast Liverpool.

Phil Thompson: "Ég var hérna þegar hann kom til félagsins og ég gaf honum fyrst tækifæri með varaliðinu. Allt frá þeim tíma hef ég fylgst náið með ferli hans. Ég verða að segja að Jamie hefur verið einn besti leikmaður félagsins og ekki bara það. Hann er líka einn indælasti leikmaður sem ég hef kynnst hjá Liverpool. Það er ef til vill auðvelt að segja þetta þegar einhver er að yfirgefa félagið en ég meina þetta virkilega. Þegar Gerard og ég tókum við stjórn liðsins leituðum við fyrir okkur hjá leikmönnum um hverjir vildu skuldbinda sig félaginu. Jamie var fyrstur allra til að gera slíkt. Hann skrifaði fyrstur undir nýjan samning og ruddi þannig leiðina fyrir Robbie Fowler og aðra til að gera slíkt hið sama. Jamie hefur mikinn metnað fyrir hönd félagsins og það er sorglegt hversu mjög meiðsli hafa sett strik í reikninginn hjá honum. Það mátti sjá tárvot augu þegar hann kvaddi okkur. Ég óska honum innilega alls hins besta."

Gerard Houllier: "Jamie hefur reynst frábærlega hér og hann var einn mikilvægasti hlekkurinn í framþróun liðsins nú á síðustu árum. Hollusta hans við Liverpool segir sína sögu. Það er fátítt nú til dags að leikmenn dvelji í ellefu ár hjá sama félaginu. Hann er búinn að vera frábær leikmaður og fyrirliði. Jamie hefur farið fyrir hópnum með góðu fordæmi. Ég hef aldrei séð leikmann leggja eins hart að sér að ná sér eftir áföll. Hann var ætíð til staðar til að hvetja leikmennina. Meira að segja þegar hann gat ekki leikið sjálfur. Besta minning mín tengd Jamie var þegar honum var boðið að taka þátt í verðlaunaafhendingunni eftir úrslitaleik F.A. bikarsins á liðnu vori. Jamie sagði mér að hann sæi mest eftir því að hafa ekki getað æft og spilað meira undir stjórn okkar sem nú stjórna liðinu. Hann taldi að hann hefði tekið meiri framförum undir leiðsögn okkar. Jamie hefði bætt liðið ef hann hefði getað tekið meiri þátt. Ég skil að hann vilji leita á önnur mið og óska honum alls góðs. Hann verður alltaf velkominn á Melwood. Ég veit að hjarta hans verður alltaf hjá okkur."

 Í blaðinu The Kop sem kemur út í Liverpool birtust þessi eftirmæli um dvöl Jamie Redknapp hjá Liverpool. Blaðamaðurinn Chris McLoughlin hittir naglann á höfuðið í flestu. "Þegar Jamie Redknapp yfirgefur Liverpool eftir ellefu ára dvöl hjá félaginu er fleiri spurningum ósvarað en svarað um feril hans. Á ferli sínum hjá Liverpool átti þessi vingjarnlegi leikmaður sína efasemdamenn. Sumir fóru offari en aðrir höfðu sitthvað til síns máls. Jamie býr yfir miklum hæfileikum en samt vantaði hann alltaf eitthvað upp á til að geta talist leikmaður í hæsta gæðaflokki. Það vantaði eitthvað pínulítið upp á til að hann næði að uppfylla væntingarnar sem til hans voru gerðar. Kraftinn sem einkenndi Graeme Souness, Steve McMahon og fleiri slíka miðjumenn vantaði hjá Jamie. Hann var sendingamaður góður. En hversu oft skiptu sendingar hans sköpum hvað varðaði hættu við mörk andstæðinganna og mörk? Ekki nógu oft.

Sú ákvörðun Roy Evans að láta þá Jamie og John Barnes leika saman á miðjunni í valdatíð sinni hjá Liverpool hafi, þegar upp var staðið, háð liðinu. Báðir þessir leikmenn þurftu leikmann eins og Steven Gerrard við hlið sér til að fá meiri kraft í spilið og vinna boltann þegar hann tapaðist. Það var ekki tilviljun að Liverpool náði löngum taplausum kafla leiktíðina 1995/96 þegar Michael Thomas lék með John þegar Jamie var frá. Það vantaði alltaf svolitla ákveðni og kraft í samstarf þeirra John og Jamie á miðjunni. Boltinn var of oft sendur til hliðar og á örugg svæði. Ef Gerard Houllier hefði getað notað Jamie, heilan heilsu, með Stevie G eða Didi Hamann nú á seinni árum hefði raunin ef til vill orðið önnur. Þá hefði Jamie kannski náð að standa undir væntingum. Því miður fæst aldrei svar við þeirri spurningu."


"Það var ótrúlega erfið ákvörðun að yfirgefa Liverpool. Ég vildi í raun aldrei fara en á þessum tímapunkti var ég ekki eins mikið inni í myndinni og ég hefði viljað. Ég frétti af áhuga Tottenham og fannst að ef til vill væri rétt að fara þangað. Ég held að enginn hjá Liverpool hafi viljað standa í vegi fyrir því að ég fengi fleiri tækifæri til að spila. Þetta var rétt ákvörðun.

Þó svo að ég hafi yfirgefið Liverpool mun Liverpool aldrei yfirgefa mig. Ég elska þetta félag af heilum hug og ég óska þeim sannarlega alls góðs á ókomnum árum. Ég mun alltaf horfa fyrst eftir úrslitunum hjá Liverpool".

TIL BAKA