Jamie Redknapp

Jamie kom aftur inn í liðið í september leiktíðina 1996-1997. Hann var tekinn út úr liðinu eftir 1-1 jafntefli við Wimbledon 23. nóv. Evans réttlætti ákvörðun sína að taka Redknapp, Matteo og Collymore út úr liðinu með því að segja að þetta myndi auka hreyfanleika liðsins. Það var eins og við manninn mælt. Boltinn gekk hraðar fyrir sig og betur en ella og liðið vann 4 leiki af næstu 5. Liðið var með fimm stiga forystu á toppnum í lok ársins og horfurnar góðar. Liverpool byrjaði hins vegar árið 1997 herfilega og tapaði þrem fyrstu leikjunum. Redknapp var settur aftur í liðið 18. janúar og hélt því sæti til loka leiktíðar. Hann var kominn aftur í landsliðshópinn og Glenn Hoddle hugðist prófa hann í nýrri stöðu með landsliðinu, sem sweeper. Hið sögufræga Le Tournoi mót var framundan um sumarið og Jamie lék undibjó sig fyrir átökin í vináttulandsleik gegn Suður-Afríku 24. maí. Hann ökklabrotnaði. Þrenn alvarleg meiðsli í átta landsleikjum, óheppni eða hvað?

Hálfu ári síðar lék hann loks aftur með Liverpool. Ince og Leonhardsen voru félagar Redders á miðjusvæðinu með McManaman fyrir framan. Versta niðurlæging Liverpool á tímabilinu í aðsigi. 3:0 tap gegn Strasbourg. Hoddle vildi hann með sér á HM í Frakklandi. Ferill hans var aftur í uppsveiflu. Hann missti þó af síðustu leikjum tímabilsins þegar hann meiddist gegn Coventry, verri voru þó fréttirnar að HM-draumur hans var úti.

Gerard Houllier var nú við hlið Roy Evans er nýtt tímabil gekk í garð. Evans var brátt látinn víkja og Houllier þurfti að bjarga skútunni fyrir horn. Ferill Redknapp undir stjórn Houllier hefði ekki getað hafist betur. Houllier var hrifinn: "Redknapp tengir miðju og sókn á frábæran hátt og og skotkraftur hans er gríðarlegur og sendingarnar hans hreint frábærar. En hann er fær um að skora um 15 mörk á tímabili." Ungur strákur að nafni Steven Gerrard lék nokkra leikki við hlið Redknapp og þeir virtust ná vel saman. Liverpool átti í vandræðum en Redknapp átti sitt besta tímabil í langan tíma, lék 39 leiki og skoraði 10 mörk.

Sumarið 1999 var Paul Ince fyrirliða Liverpool tilkynnt, af Gerard Houllier, að nærveru hans væri ekki lengur óskað. Paul hvarf á braut en Jamie var gerður að fyrirliða í hans stað. Jamie sagði þá: "Það var mér gríðarlegur heiður þegar framkvæmdastjórinn bað mig að taka við fyrirliðastöðunni. Reyndar er það hápunktur ferils míns. Stoltið eykst enn frekar þegar maður hugsar um hverjir hafa leitt liðið í gegnum tíðina."

10. október 1999 var loks komið að fyrsta landsliðsmarki hans. Þrumuskot af 25 metra færi gegn Belgíu var svo sannarlega biðarinnar virði. 20. nóvember í leik gegn Sunderland meiddist Redknapp á ný og að þessu sinni var hann fjarverandi vegna meiðsla í 4 mánuði.

Hápunktur Redknapp á tímabilinu 1999-2000 var óneitanlega þegar hann kom inná gegn Newcastle 25. mars 2000. Hann hafði leikið viku áður gegn Derby sinn fyrsta leik síðan 20. nóvember. Hann var einnig á bekknum fyrir leikinn gegn Newcastle enda átti hann ekki skilið að æða beint inn í liðið þar sem Gerrard verðskuldaði sitt sæti í liðinu. Innáskipting Houllier bar árangur þegar varamaðurinn Murphy sendi hornspyrnu sína beint á kollinn á Redknapp og í mark á 88. mínútu. Fögnuður hans leyndi sér ekki enda hafði verið erfitt fyrir hann að fylgjast með liðinu af hliðarlínunni svo lengi. Tveim dögum síðar lék hann gegn Sheffield Wednesday með varaliðinu og meiddist aftur. Hann hefði kannski sleppt því að leika í leiknum hefði hann athugað að nafn andstæðinga hans þennan daginn byrjaði á S. S-bölvunin var hingað til aðallega búin að gera vart við sig í landsleikjum Redknapp en virtist nú einnig hafa lagst á hann í leikjum Liverpool. Sheffield Wednesday bættist því í hóp Skotlands,  Suður-Afríku, Sviss og Sunderland.

Um sumarið þurfti enn að ráða bót á meiðslum og hann lék ekkert á Þrennuleiktíðinni 2000-2001 utan nokkra leiki undir vorið með varaliðinu. En Jamie leiddi liðið á bak við tjöldin með ráðum og dáð. Það var sannarlega metið við hann eins og vel kom í ljós eftir að Liverpool lagði Arsenal 2:1 í Cardiff og tryggði sér enska bikarinn. Eftir leik drógu þeir Robbie Fowler og Sami Hyypia hann á verðlaunapall til að taka við bikarnum: "Robbie og Sami komu til mín og sögðu að ég yrði að taka við bikarnum því ég væri fyrirliði liðsins. Ég var satt að segja hálfvandræðalegur og það er erfitt að lýsa því hvernig mér leið. En líklega hefði þetta litið enn skringilegar út ef ég hefði skorast undan. Þeir tveir, svo og allir hinir í liðinu, ráku á eftir mér. Þetta endaði því þannig að ég tók við bikarnum í skyrtu og með bindi. Það var furðulegt að vera svona klæddur við þessar aðstæður. En þetta var yndislegt af þeim. Líklega er þetta það fallegasta sem nokkurn tíma hefur verið gert fyrir mig."

TIL BAKA