Billy Liddell

Billy var hæverskur, kurteis, trúaður, bindindismaður og annálaður heiðursmaður. Innan vallar var Billy nautsterkur, eldfljótur og gífurlega skotfastur. Hann var annálaður fyrir drenglyndi innan vallar sem utan. Billy var sannkölluð hetja og átrúnaðargoð í Liverpool sem og um gjörvallt Bretland. Í raun var hann lifandi goðsögn sveipaður dýrðarljóma sem ekki hefur fylgt neinum öðrum leikmönnum Liverpool fyrr eða síðar. Hann lék allan sinn feril með Liverpool sama á hverju gekk. Það hefði einhver eflaust söðlað um þegar Liverpool féll í 2. deild en Billy datt það ekki í hug. Fyrir það eitt ávann hann sér ævarandi lotningu áhangenda Liverpool. Hann var árum saman yfirburðamaður í liði Liverpool. Það er erfitt nú til dags að gera sér grein fyrir hversu góður Billy var en svo góður var hann að Liverpool var á tímabili nefnt "Liddellpool". Titlar og metorð hans hefðu orðið mun fyrirferðarmeiri ef hann hefði leikið með Liverpool þegar liðið var betra. Billy vann líka mikið og gott starf utan vallar. Hann aðstoðaði við unglingaþjálfun og vann að mannúðarmálum í borginni. Árið 1958 var hann kjörinn til friðdómara í Liverpoolborg sem þótti mikill heiður. Eftir að Billy kom fyrst til Liverpool bjó hann alla sína ævi í Liverpoolborg enda undi hann þar hag sínum best. "Liverpool er heimili mitt. Mér líður eins og ég hafi hvergi annars staðar átt heima og ég er feginn að ég kom hingað."

Albert Stubbins var keyptur fyrir metfé til Liverpool árið 1946 og varð lykilmaður liðsins ásamt "Skotanum fljúgandi" Billy Liddell: "Ég og Billy vorum góðir vinir. Við bjuggum í sömu götu í húsum sem Liverpool lét byggja sérstaklega fyrir leikmennina sína. Ég, Billy, Phil Taylor, Eddie Spicer, Cyril Done, Bob Paisley og Cyril Sidlow bjuggum allir í sömu götunni! Við hittumst síðan allir á sömu strætóstoppistöðinni á hverjum morgni til að fara á æfingu. Billy passaði alltaf vel upp á sig og hvorki reykti né drakk."

Stubbins skoraði 24 mörk þegar Liverpool varð meistari tímabilið 1946/47 og fjöldi marka fylgdi í kjölfarið næstu tímabil. Billy var duglegur að leggja upp marktækifæri fyrir Stubbins: "Hann var frábær leikmaður og ég naut þeirrar gæfu að leika með honum þegar hann var upp á sitt besta. Hann dældi sendingunum fyrir af vinstri kantinum og lagði upp fjölda marka fyrir mig. Hann var mjög fljótur, skotfastur, jafnvígur á vinstri og hægri og gaf sig allan í leikinn. Hann braut lítið af sér og ég sá hann aldrei lenda í útistöðum við leikmenn. Hann var sannkallaður heiðursmaður. Ég get ekki séð að hann hafði neinn veikleika sem leikmaður. Billy er meðal bestu leikmanna sem ég hef séð og er á sama stalli í mínum huga og Stanley Mathews og Tom Finney."

Dave Hickson gerði allt vitlaust í Liverpoolborg er hann fór frá Everton til Liverpool en Hickson minnist þess að Liddell róaði taugar hans þegar mest gekk á. Hickson kom til Liverpool í nóvember 1959 rétt áður en Shankly tók við og Liddell lagði skóna á hilluna. Hann varð samt þeirrar gæfu aðnjótandi að leika 11 leiki við hlið Liddell í liði Liverpool: "Ég man eftir fyrsta degi mínum hjá félaginu. Billy var sá fyrsti sem heilsaði mér og bauð mig velkominn. Ég kunni vel að meta það. Billy var einfaldlega sá besti í bransanum. Hann var átrúnaðargoðið mitt og ég get ekki lýst því hversu mikils ég mat hann."

Roger Hunt sem tók við af krúnu Liddell sem markamakóngur er fullur aðdáunar: "Billy var alltaf óhræddur við að negla á markið. Sigurvilji hans var gríðarlegur og mörg marka hans komu á mikilvægum augnablikum."

Joe Mercer sem var frægur varnarmaður hjá Arsenal og Everton minnist hans sem erfiðs andstæðingsins: "Billy vissi ekki hvað ótti var. Hann óð upp kantinn, fór inn fyrir þig og lét vaða. Ég var ekki vinsæll hjá áhorfendum á The Kop þegar ég reyndi að stöðva hann, en hvað átti ég að gera, færa mig bara frá?"

Alan A'Court lék með Liddell í níu tímabil: "Það var frábært að hafa Billy sem fyrirmynd. Það voru forréttindi að leika með honum og enn skemmtilegra að feta í fótspor hans á kantinum." Það vildi nefnilega svo til að þegar tími var til kominn fyrir O'Court að brjótast inn í liðið var Liddell færður í framlínuna þannig að O'Court gafst tækifæri á að koma sér vel fyrir á vinstri kantinum: "Ef þetta fyrirkomulag hefði ekki gengið upp hefði hann verið færður aftur á kantinn og ég myndi hafa misst stöðu mína í liðinu en sem betur fer þá skoraði hann rúmlega 30 mörk á fyrsta tímabili sínu frammi og annað eins fylgdi næstu tímabil. Billy var mjög hæverskur og var ekki sérlega mannblendinn. En ef maður komst inn fyrir skelina hjá honum þá komst maður að því að hann var mjög fyndinn og var til í að sprella svolítið. Mér líkaði sérstaklega vel við hann og hann varð mér eins konar föðurmynd. Hann hjálpaði mér mikið á ferli mínum. Billy var nautsterkur en í stað þess að láta risavaxinn miðvörðinn finna fyrir sér, þá laumaði hann bara boltanum á milli lappanna á honum og skoraði síðan. Það var auðvelt að skilja af hverju fólk kallaði liðið Liddellpool."

TIL BAKA