Roy Evans

"Ég hræðist ekki þetta starf en ég geri mér fulla grein fyrir hversu gífurlega erfitt það verður. Ég hef trausta og reynda menn mér til aðstoðar. En fyrst og síðast hef ég örlög mín í eigin höndum og ég þarf að ná árangri í samræmi við væntingarnar". Þetta skrifaði Roy Evans í leikskrá Liverpool "Anfield Review" 26. febrúar 1994 fyrir fyrsta heimaleikinn sem hann stýrði Liverpool. Það verður aldrei sagt um Evans að hann hafi ekki gert sitt besta. En þegar upp var staðið var árangurinn ekki í samræmi við þær gífurlegu væntingar sem við áhangendur Liverpool gerum. Við erum vanir því besta og við viljum aðeins það besta.

Framkvæmdastjórar og leikmenn Liverpool hafa ávallt glæsta fortíð félagsins til viðmiðunar. Roy gerði sér fulla grein fyrir viðfangsefninu. Hann tókst á við það af dug og heiðarleika en það var því miður ekki nóg. Þegar Roy tók við fæddist draumur margra Púllara sem þeir gáfu ekki frá sér fyrr en hann var úti. Draumurinn var sá að Roy lærisveinn allra meistara Anfield, þeirra Bill Shankly, Bob Paisley, Joe Fagan og Kenny Dalglish myndi landa Englandsmeistaratitlinum. Það var eitthvað sérstakt við tilhugsunina.

Frá því að Roy tók við af Graeme Souness 31. janúar 1994 voru áhangendur Liverpool fullir bjartsýni. Brottrekstur Souness olli nokkru umróti á klúbbnum og Evans reyndi að ná stöðugleika hjá félaginu það sem eftir var þeirrar leiktíðar. Allt stefndi þó í rétta átt þar eð liðið lék betur og leikmenn virtust ánægðari og öruggari. Tímabilið 1994-95 var gott og deildarbikarinn vannst þegar Bolton var lagt af velli 2:1. Liðið lék skínandi vel á köflum en enn og aftur þegar síst skyldi datt liðið niður á plan meðalmennskunar. Einmitt þessi óstöðugleiki var sá draugur sem Roy tókst ekki að kveða niður hvernig sem reynt var. Fjórða sætið í deildinni var þó ekki sem verst miðað við að Roy var með liðið á sínu fyrsta heila tímabili. Ef til vill var leiktíðin 1995-96 sú besta undir stjórn Evans. Liverpool átti frábæra leiki og þegar best lét virtist liðið vera efni í meistara. Svarti nóvember setti strik í reikninginn og þriðja sætið varð niðurstaðan. En Liverpool komst í úrslit FA Cup en tapaði í lélegum leik gegn Man Utd. Næsta leiktíð skilaði undanúrslitasæti í Evrópukeppni Bikarhafa. Liverpool átti mjög góða möguleika á Englandsmeistaratitlinum en eins og áður hrundi allt á endasprettinum og fjórða sætið voru gífurleg vonbrigði. Á leiktíðinni 1997-98 voru sem fyrr góðir kaflar en alltaf vantaði herslumuninn. Þriðja sætið var staðreynd auk sætis í undanúrslitum deildarbikarsins.

Sumarið 1998 var álitið að breytinga væri þörf. Frakkinn Gerard Houllier var fenginn til starfa við hlið Evans. Gerard gerði það að skilyrði að Roy myndi vera sér við hlið. Byrjunin lofaði góðu en svo fór að síga á ógæfuhliðina. Þann 12. nóvember kom svo að því að ákvörðun Roy Evans var kynnt. Roy Evans og Doug Livermore ákváðu að yfirgefa félagið og gefa Gerard Houllier frítt spil. Roy fór þess á leit við stjórn félagsins að fara þessa leið og um leið binda enda á 35 ára feril sinn hjá félaginu. Roy afþakkaði boð David Moores stjórnarformanns Liverpool um annað starf hjá félaginu. Brotthvarfið fór fram með reisn og virðingu.

Roy og Gerard skildu í vinsemd. Gerard fékk forræðið og nú er komið að honum. Báðir voru búnir að átta sig á þeirri staðreynd að samstarfið gekk ekki sem skyldi. Ekki þeirra vegna, heldur vegna aðstæðna. Ef til vill gat þetta samstarf aldrei gengið upp. Ef og kannski hafa aldrei skilað árangri í knattspyrnu. Eftir stendur Liverpool Football Club og áhangendur bíða þess árangurs sem krafist er. Allar þær ákvarðanir sem teknar voru miða að einu: að bæta úr og snúa við blaðinu.

Gefum Roy orðið: "Þetta er sorgardagur fyrir mig. Ég tel þó að að þessi ákvörðun sé sú rétta fyrir félagið. Félagið er það sem skiptir öllu. Ég get ekki lýst fyrir ykkur hvað þetta félag er mér mikils virði. Ég elska þetta félag og það hefur verið mér allt. Þetta er erfitt starf en samt stórfenglegt og ég sé ekki eftir því að hafa tekist á við það. Við reyndum okkar besta en það var ekki nógu gott. Ég hef sinnt þessu starfi af heiðarleika og heilindum. Fólk segir árangurinn slakan. Ég mótmæli því. Tvisvar sinnum í þriðja sæti og tvisvar í fjórða teldist góður árangur hjá flestum félögum. Hjá Liverpool er það ekki nóg. Félagið þarf að komast á meðal þeirra bestu. Því miður tókst okkur ekki ætlunarverk okkar. Við hefðum svo einlæglega viljað ná takmarki okkar fyrir hið frábæra fólk sem starfar fyrir og styður félagið".

TIL BAKA