Ray Clemence

Clemence hóf ferilinn 1966, 18 ára að aldri með Scunthorpe United eins og Kevin Keegan forðum. Liverpool frétti af efnilegum markverði og í júní 1967 keypti Liverpool Ray fyrir 18.000 sterlingspund. Bill Shankly sagði við Ray þegar hann kom til Liverpool að Tommy Lawrence væri farinn að gefa eftir í markinu og hann myndi taka við af honum fljótlega. En það varð bið á því. Tommy var frábær markvörður og stóð í marki Liverpool á velgengnisárum liðsins á sjöunda áratugnum. Ray lék sinn fyrsta leik 25. september 1968 þegar Liverpool vann Swansea 2:0 í deildarbikarnum á Anfield Road. Það var ekki fyrr en 1970 sem Ray fékk loks tækifæri til frambúðar. Í febrúar það ár tapaði Liverpool 1:0 fyrir neðrideildarliði Watford í F.A. bikarnum. Eftir leikinn ákvað Bill Shankly að gera róttækar breytingar á liðinu. Nokkrir af fastamönnum liðinna ára voru settir út og einn þeirra var Tommy Lawrence. Á fyrsta heila tímabili sínu 1970-71 lék Ray 41 leik í deildinni og Liverpool fékk aðeins á sig 24 mörk sem var metjöfnun. Ray fékk 22 mörk á sig og Tommy tvö í sínum eina leik þegar Ray var meiddur. Að auki komst Liverpool í úrslit F.A. bikarsins þar sem liðið tapaði 2-1 fyrir Arsenal sem tryggði sér tvöfaldan sigur í deild og bikar. Leiktíðina 1972-73 var Bill búinn að byggja upp nýtt lið sem vann Englandsmeistaratitilinn og sigraði í Evrópukeppni Félagsliða. Liverpool vann Borussia Mönchengladbach 3:2 samanlagt í tveimur leikjum. Í fyrri leiknum vann Liverpool 3:0 á Anfield. Þegar staðan var 3:0 varði Ray meistaralega vítaspyrnu frá Jupp Heynckes. Sú markvarsla var ein sú mikilvægasta á ferlinum því seinni leikurinn tapaðist 2:0. Liverpool vann F.A bikarinn vorið 1974 með 3:0 sigri á Newcastle en um sumarið sagði Bill Shankly óvænt af sér. Bob Paisley tók við og sigurgangan hélt áfram.

Það leikur enginn vafi á í huga Clemence hver var eftirminnilegasti leikur hans. Úrslitaleikur Evrópukeppni Meistaraliða gegn Borussia Mönchengladbach í Róm 1977 var rétti vetvangurinn fyrir hann að sýna allar sínar bestu hliðar. Ray var bjargvættur Liverpool í stöðunni 1:1 þegar Uli Stielike braust í gegn. Ray varði meistaralega og var markvarslan vendipunkturinn í leiknum. Liverpool vann 3:1 og Ray fagnaði svo einnig Evrópumeistaratitli vorið eftir þegar Liverpool vann FC Bruges 1:0 á Wembley. Leiktíðina 1978-79 sló Liverpool flest þau met sem hægt var að slá og Ray átti sinn þátt í því. Ray fékk aðeins á sig 16 mörk í 42 leikjum í deildinni sem er met sem varla verður nokkurn tíma slegið. Hann hélt hreinu í 28 af þessum leikjum. Á Anfield Road fékk hann aðeins á sig fjögur mörk í 21 leik. Ray varð enskur meistari í fimmta sinn vorið 1980. Á sparktíðinni 1980-81 vann Ray síðasta titilinn sem hann átti eftir að vinna á Englandi þegar Liverpool vann West Ham United 2:1 í aukaúrslitaleik deildarbikarins. Síðasti leikur Ray Clemence í Liverpooltreyju var í úrslitum Evrópukeppni Meistaraliða þegar Real Madrid var lagt 1:0 í París.

TIL BAKA