John Barnes

"Watford var yndislegur klúbbur en það var kominn tími til að skipta yfir í stærra félag. Liverpool spurðist fyrir um mig í febrúar 1987 en ég vissi að ég myndi vera um kyrrt hjá Watford til loka tímabilsins þegar samningur minn var úti. Ég vildi eiga fleiri kosti í stöðunni. Ef ég myndi skuldbinda mig Liverpool í febrúar þá gætu Real Madrid eða Juventus komið inn í dæmið síðar og það myndi vera mjög erfið staða. Ég tók vissa áhættu með því að svara engu strax því að ég gat meiðst eða áhugi Liverpool dvínað. 3. mars neitaði ég að skrifa undir nýjan samning og Watford setti mig strax á sölulista. Graham Taylor hafði samband við öll 1. deildarfélögin og hringdi sjálfur í Tottenham, Liverpool og Manchester United. Allur þessi hamagangur hafði áhrif á frammistöðu mína á vellinum og frá mars til loka tímabilsins gat ég ekki neitt. Háaloftabolti Graham Taylor kom liðum ekki lengur í opna skjöldu. Leikinn leikmaður eins og ég hafði hvort sem er aldrei hrifist af þessum knattspyrnustíl. Ég vildi fara til AC Milan eða Juventus enda blómstra leikmenn með góða boltatækni á Ítalíu. Ítalskir áhorfendur myndu meta hæfileika mína meira en Englendingarnir. Þegar nær dróg að lokum tímabilsins leit sennilegast út fyrir að ákvörðunarstaður minn yrði Manchester United eða Liverpool. En United gekk ekkert sérstaklega vel undir stjórn Ferguson og Liverpool freistaði mín mun meira. Að leika gegn stórliðum eins og Liverpool lyfti ætíð leik mínum og samherja minna á hærra plan vegna þess að við vorum alltaf í hlutverki Davíðs gegn Golíat. Ég lék alltaf vel gegn Liverpool og skoraði nokkur mörk. Kenny minnist leiks þegar ég lék á Alan Hansen og skoraði. Eftir þann leik sagði Kenny við Alan: "Við munum kaupa þennan John Barnes."  Ég lék oft í stöðu framherja gegn Liverpool. Ian Rush var að fara til Juventus og ég var fullkomlega viss um að Kenny væri að kaupa mig til að leika við hlið John Aldridge frammi. Ég spurði Kenny skömmu eftir komu mína hvar ég myndi leika. "Vinstri kant," svaraði hann samstundis, enda vissi hann að Peter Beardsley myndi ganga til liðs við félagið síðar. Ég sem hélt að dagar mínir á vinstri kantinum væru taldir."

En Barnes var nálægt því að klúðra tækifæri sínu á að leika fyrir Liverpool. Watford samþykkti tilboð Liverpool upp á 900.000 pund en John tók sína ákvörðun ekki strax og það reyndist næstum því hugsanlega stærstu mistök ferils hans. "Mér var tjáð að ég hefði nokkra daga í viðbót til að gera upp hug minn en sú var ekki raunin og þegar Liverpool heyrði ekki frá mér þá drógu þeir tilboð sitt tilbaka. Ég var mjög vonsvikinn á því augnabliki en það var að hluta til sjálfum mér að kenna." Barnes tók þá örlagaríku ákvörðun að hringja í Peter Robinson ritara Liverpool og fyrr en varði var hann á leið til Anfield til að skrifa undir tveggja ára samning. Barnes reyndi að útskýra málið fyrir fjölmiðlum á sínum tíma: "Liverpool var eina liðið í Englandi sem ég vildi ganga til liðs við. Önnur félög voru nefnd til sögunnar og ég skil mætavel hvernig Liverpool og aðdáendum þeirra varð við en það er búið að leysa úr öllu. Það er ekki hægt að segja að undir nokkrum kringumstæðum að ég hafi notfært mér Liverpool. Það er meðal stærstu og bestu félaga í Evrópu og ég vona að aðdáendur félagsins styðji við bakið á mér nú þegar ég hef skrifað undir." Barnes minnist þess að Kenny reyndi að láta hljóma eins og allt hefði gengið snurðulaust í samskiptum liðanna: "Hann vissi vel um gildi góðs liðsanda og hvernig viðmót aðdáenda gat spillt honum. Kenny hélt öllu saman, stjórninni, aðdáendunum og leikmönnunum. Jafnvel þó að Dalglish hafði djúpstæð áhrif á mig, þá skrifaði ég undir fyrir Liverpool, ekki Kenny Dalglish. Everton var nýbúið að vinna deildarkeppnina en Liverpool var stærsta félagið í Englandi. Goðsagnarkennd persóna Dalglish skipti mig ekki eins miklu máli og aðra leikmenn sem skrifuðu undir hjá Liverpool. Ég ólst upp hjá Graham Taylor þannig að það var ekki sjálfsagt að frábær framkvæmdastjóri hafi verið góður leikmaður. Kenny var frábær framkvæmdastjóri en það var einungis tilviljun að hann var frábær leikmaður. Ég var heiðarlegur á blaðamannafundinum og viðurkenndi að þegar var ljóst að ég myndi ekki fara til meginlandsins þá var einungis einn klúbbur sem kom til greina hjá mér i Englandi og það var Liverpool."

"Þegar ég mætti á fyrstu æfingu mína þá bjóst ég við að komast að hinum mikla leyndardómi Liverpool. Ég beið eftir því að dreypa af silfurkaleiknum sem myndi vígja mig inn í bræðralag Anfield. Við hituðum upp, skokkuðum í kringum æfingavöllinn nokkra hringi til þess að liðka vöðvana, teygðum á og síðan var skipt í tvö 5 manna eða 8 manna lið. Við lékum í tuttugu mínútur, síðan voru sprettæfingar og nokkrar léttar æfingar. "Þetta var áhugavert, hvað gerum við á morgun?", spurði ég nýju samherja mína. "Það sama", svöruðu þeir og fóru heim. Ég kom aftur næsta dag og við tók sama rútínan og hún breyttist ekki einn einasta dag. Allar hernaðaráætlanir voru skipulagðar í stuttu kappleikjunum okkar. Liverpool predikaði það að allt sem Liverpool myndi þurfa að glíma við í venjulegum leik myndi koma uppá í þessum leikjum. Önnur félög kvörtuðu ekki þó leikmenn þeirra legðu sig ekki alla fram í æfingaleikjum. Ef einhver færi framhjá þeim á æfingu þá var það ekki heimsendir. Það gerðist aldrei á Melwood. Allir leikmennirnir létu eins og hver leikur væri úrslitaleikur bikarsins, bara á aðeins smærri velli. Það gekk allt út á að gefa boltann með einni snertingu og koma sér í betri stöðu. Æfingaáætlun Liverpool einkenndi leikstíl Liverpool, einfaldur en hann virkaði heldur betur! Ef einhver leyndardómur beið þess að verða afhjúpaður sem helsta ástæðan á bak við velgengni Liverpool á knattspyrnuvellinum þá var þessi grimmd á æfingum sem gaf okkur aukakraft í leikjum."

Það tók Barnes aðeins 9 mínútur að leggja upp mark fyrir John Aldridge í fyrsta leik sínum gegn Arsenal á Highbury 15. ágúst 1987. Coventry var kafsiglt 4-1 en 1-1 jafntefli gegn West Ham fylgdi í kjölfarið. Hin raunverulega prófraun Barnes fór fram á Anfield 12. september fyrir framan 42.266 áhorfendur. Oxford var í heimsókn í fyrsta heimaleik Liverpool á tímabilinu.  John fór á kostum og var óstöðvandi á kantinum. Hann lagði upp mark fyrir John Aldridge áður en hann skoraði sjálfur seinna mark Liverpool með glæsiskoti. Það örlaði ekki á efasemdum um John Barnes eftir þennan leik. Liverpool lék aftur á Anfield þremur dögum síðar er Charlton var lagt af velli 3-2. Barnes lýsir næstum fjórum leikjum sem hálfgerðu ævintýri: "Við skoruðum 4 mörk í 4 leikjum í röð gegn Newcastle United, Derby County, Portsmouth og Queens Park Rangers. Þetta var sannkölluð gullöld og gjörsamlega allt sem ég reyndi gekk upp. Leikur okkar gegn QPR var ótrúlegur og er minnistæðasti leikur minn í treyju Liverpool. Rangers var á toppi deildarinnar og leikurinn var sýndur beint í sjónvarpinu."  John skoraði á 77. mínútu og 84. mínútu fyrir framan The Kop með glæsilegu einstaklingsframtaki. Fyrra mark hans kom eftir skemmtilegt þríhyrningsspil við John Aldridge og síðara markið eftir að hann stal boltanum af leikmanni QPR á miðjunni, lék framhjá þremur varnarmönnum og setti hann af öryggi í netið. "Við höfðum leikið vel fram að þessum leik en þessi sýning gegn QPR sannfærði þjóðina um að Liverpool væri lið ársins. Nákvæmni sendinga okkar og sjálfstraust hvers leikmanns þýddi að við misstum boltann sjaldan frá okkur. Í hvert skipti sem við fengum boltann þá gátum við reiknað með því að við myndum leggja upp færi fyir John Aldridge eða hvern þann sem var inn í vítateignum. Andstæðingar okkar hljóta að hafa verið skíthræddir."

John Barnes vakti mesta athygli fjölmiðla og aðdáendahópur hans fór ört stækkandi: George Best var galdramaður með knöttinn og var hrifinn af tilburðum Barnes: "Bobby Robson landsliðsþjálfari Englendinga lýsti honum sem hinum svarta Best og ég held að hann hafi rétt fyrir sér. Barnes hefur alla burði til að verða sá besti. Hann er mest spennandi kantmaður sem hefur leikið í breskri knattspyrnu síðan ég var og hét. Koma hans til Liverpool er það besta sem hefði getað komið fyrir leikmann með svo stórkostlega hæfileika. Anfield-akademían mun taka þessa náttúrulega hæfileika hans og skapa leikmann í heimsklassa."

TIL BAKA