HM og Liverpool

Fleiri met

Sumarið 1986 voru sólbakaðar grundir Mexíkó vettvangur úrslitakeppni HM í annað sinn. Keppnin þar 1970 þótti góð og menn biðu spenntir. Englendingar, Skotar og Norður Írar voru mættir. Liverpool vann tvöfalt um vorið en þrátt fyrir það voru aðeins tveir leikmenn Liverpool í Mexíkó. Steve Nicol var með skoska liðinu en hver skyldi hinn vera? Jú, Danir voru mættir með gullaldarlið sitt og þar leyndist Jan Mölby. Þrátt fyrir mikla hæfileika og gott gengi með Liverpool í gegnum árin var hann aldrei fastur maður í landsliði Dana.
Tveir leikmenn Liverpool voru mjög umtalaðir fyrir keppnina og þá fyrir þá staðreynd að vera ekki með. Kenny Dalglish hafði leitt Liverpool til tvöfalds sigurs sem spilandi stjóri á nýliðinni sparktíð. Næsta víst er að hann hefði tekið þátt í sinni fimmtu úrslitakeppni nema fyrir það að hann meiddist í bikarúrslitaleiknum þegar Liverpool tryggði tvennuna með ógleymanlegum 3:1 sigri á Everton. Að sjálfsögðu lék hann leikinn til loka en hann þurfti í aðgerð litlu síðar. Kenny hafði um vorið leikið sinn 100 landsleik í 3:0 sigri gegn Rúmenum. Hann lauk landsliðsferlinum 1987 með 102 landsleikjum og 30 mörkum sem enn stendur hvoru tveggja sem met hjá Skotum. Reyndar deilir Denis Law markametinu með honum.

Það var svo sem lítið hægt að gera við meiðslum meistarans en sú ákvörðun Alex Ferguson að velja Alan Hansen ekki í skoska liðið þótti umdeild svo ekki sé meira sagt. Alan var á þessum tíma fyrirliði Liverpool og átti að baki frábært tímabil. Alex tók við skoska liðinu og stýrði því í Mexíkó eftir að Jock Stein þjálfari liðsins lést úr hjartaáfalli í lok leiks Skota og Wales í  undankeppninni. Jafntefli í Wales 1:1 í þeim leik kom Skotum áfram á kostnað Ian Rush og félaga.

Skotar voru í riðli með Dönum og Úrúgvæ. Fyrsti leikurinn tapaðist 1:0 gegn Dönum. Næst tapaði liðið 2:1 fyrir Vestur Þjóðverjum og liðið varð að leggja Úrúgvæ til að komast áfram. Það tókst ekki þó að einn leikmaður Úrúgvæ væri rekinn út af á fyrstu mínútu leiksins. Markalaust varð og Skotar héldu heim. Steve Nicol var í byrjunarliðinu í öllum þremur leikjum Skota og stóð sig vel. Danir burstuðu Úrúgvæ 6:1 í eftirminnilegum leik og luku riðlakeppninni með 2:0 sigri á Þjóðverjum. Jan Mölby var í þeim leik í eina skiptið í keppninni í byrjunarliðinu og þótti besti maður vallarins. Í 16 liða úrslitum steinláu Danir 5:1 fyrir Spánverjum. Englendingar byrjuðu illa og eftir 1:0 tap fyrir Portúgal og markalaust jafntefli gegn Marokkó leit allt út fyrir heimferð. Ekkert mark skorað, Bryan Robson farinn úr axlarlið og allt í upplausn. En þrenna frá Gary Lineker í 3:0 sigri gegn Pólverjum og hagstæð úrslit komu þeim áfram. Í 16 liða úrslitum unnu þeir Paragvæ 3:0. Lineker skoraði tvisvar og Peter Beardsley þá leikmaður Newcastle skoraði þriðja markið. Í 8 liða úrslitum voru Argentínumenn mótherjar. Snilld handa og fóta Diego Maradona slógu
Englendinga út af laginu og úr keppninni. Snilldartilþrif John Barnes, leikmanns Watford, sem gekk einu ári síðar til liðs við Liverpool, urðu næstum því til þess að Englendingar jöfnuðu leikinn. Hann lagði upp mark fyrir Gary Lineker sem tryggði sér markakóngstitilinn með sínu sjötta marki. Aftur æddi hann upp vinstri kantinn og aftur var boltanum miðað á Lineker en glæsilegur varnarleikur bjargaði marki á ögurstundu. Argentínumenn fóru alla leið. Tvö snilldarmörk frá Diego tryggðu 2:0 sigur á Belgum í undanúrslitum og í úrslitum biðu Vestur Þjóðverjar sem þangað höfðu jaxlast af gömlum vana eftir 2:0 sigur á Frökkum. Úrslitaleikurinn var skemmtilegur. Diego dró sína menn til sigurs 3:2 og var óumdeildanlega besti maður keppninnar. Því var ekki neitað þrátt fyrir blaktilþrifin gegn Englendingum. Hvernig er annað hægt en að vinna þegar "hendi Guðs" var annars vegar?

Úrslitakeppnin 1990 var haldin á Ítalíu í annað sinn. Hún var áður háð þar 1934. Englendingar, að sjálfsögðu Skotar og Írar, sem voru í úrslitum í fyrsta skipti, komust í sólina á Ítalíu. Skotar voru í sinni fimmtu úrslitakeppni í röð. Frábær árangur hjá ekki stærri þjóð. Liverpool vann sinn 18. Englandsmeistaratitil um vorið og hvorki fleiri né færri en sjö leikmenn Liverpool voru kallaðir til. Peter Beardsley, John Barnes og Steve McMahon voru með Englendingum. Gary Gillespie var með Skotum. Í írska liðinu voru þeir Steve Staunton, Ray Houghton og Ronnie Whelan. Aldrei hafa fleiri leikmenn Liverpool tekið þátt í úrslitakeppni HM. Reyndar mætti telja John Aldridge þann áttunda því hann lék með Liverpool fram á haustið 1989 áður en hann fór til Real Sociedad á Spáni.

Englendingar og Írar lentu saman í riðli eins og í úrslitakeppni EM tveimur árum áður í Þýskalandi. Þá unnu Írar með skallamarki frá Ray Houghton. Englendingar virtust ætla að hefna fyrir það þegar Gary Lineker kom þeim yfir en Kevin Sheedy fyrrum Liverpool leikmaður jafnaði í miklum baráttuleik. Allir leikmenn Liverpool tóku þátt í leiknum utan Ronnie Whelan sem átti við meiðsl að stríða. John Barnes lék í næsta leik sem var markalaus leikur við Hollendinga. Næst léku Englendingar við Egypta. Mark Wright skoraði eina markið og kom enskum áfram. Wright lék þá með Oxford og vakti frammistaða hans í keppninni mikla athygli og tryggði honum sölu til Liverpool nokkru síðar. McMahon og Barnes byrjuðu leikinn og Beardsley kom inná. Írar gerðu markalaust jafntefli við Egypta og því næst 1:1 jafntefli við Hollendinga sem kom báðum áfram. Niall Quinn skoraði seint í leiknum. Houghton og Staunton léku báða leikina og í leiknum við Hollendinga kom Whelan inná í sínum eina leik í keppninni. Meiðsli komu í veg fyrir að hann léki meira en raun varð á.

Enn sátu Skotar í súpunni eftir tap gegn veikum andstæðingum í fyrsta leiknum. Eftir 1:0 tap gegn Kosta Ríka unnu þeir Svía 2:1 og jafntefli varð að nást gegn Brasilíu til að komast áfram. Brassar sóttu án afláts en Skotar vörðust með kjafti og klóm. Gary Gillespie kom inná sem varamaður í fyrri hálfleik og lék sinn eina leik í keppninni. Þetta var hans tólfti og síðasti landsleikur. Andreas Muller skoraði eina markið níu mínútum fyrir leikslok og Skotar héldu enn einu sinni heim með fyrra fallinu.

Í 16 liða úrslitum hélt ævintýri Íra áfram. Þeir unnu Rúmena 5:4 í vítaspyrnukeppni eftir markalausan framlengdan leik. Pat Bonner varði og David O´Leary af öllum mönnum skoraði úr úrslitavítinu. Írar utan vallar sem innan trylltust og Guinnessinn flæddi. Í 8 liða úrslitum lentu Írar gegn heimamönnum á Olympíuleikvanginum í Róm. Írar stóðu sig eins og hetjur en 1:0 tap varð niðurstaðan. Salvatori Schillaci skoraði eina markið. Hann varð markakóngur keppninnar með sex mörk. Ray Houghton og Steve Staunton léku sem fyrr og þóttu standa sig vel í keppninni. Markaþurrð varð Írum að falli en þeim tókst aðeins að skora tvö mörk í allri keppninni.
Belgar voru mótherjar Englendinga í 16 liða úrslitum. McMahon og Barnes byrjuðu leikinn. David Platt kom inn á fyrir McMahon og skoraði sigurmarkið þegar ein mínúta var eftir af framlengingu. Markið var frábært og skaut David upp á stjörnuhimininn. Barnes hafði áður skorað gott mark en markið var dæmt af sem var kolrangur dómur. Í 8 liða úrslitum var Kamerún mótherji Englands. Þá hafði lið frá Afríku aldrei komist lengra í úrslitakeppni HM. David Platt kom enskum yfir en Kamerún svaraði með tveimur mörkum. Tvær vítaspyrnur Gary Lineker tryggðu sigur. Sú fyrri kom átta mínútum fyrir leikslok en hin í framlengingu. Barnes byrjaði þrátt fyrir meiðsli sem voru honum til trafala og það varð úr að Peter kom inná fyrir hann í hálfleik. Þetta þótti einn besti leikur keppninnar.

Í undanúrslitum léku Englendingar í þriðja sinn í úrslitakeppni HM gegn Vestur Þjóðverjum. Andreas Brehme kom Þjóðverjum yfir snemma í síðari hálfleik. Undir lokin sóttu Englendingar án afláts og Gary Lineker jafnaði tíu mínútum fyrir leikslok. Þetta var tíunda markið sem Gary skoraði í úrslitakeppni HM. Englendingar voru nær sigri í framlengingu en vítaspyrnukeppni þurfti. Þar höfðu Þjóðverjar betur 4:3. Stuart Pearce nelgdi í markvörðinn og Chris Waddle negldi til himna. Peter Beardsley lék allan leikinn og skoraði með öryggi í vítaspyrnukeppninni. Englendingar töpuðu 2:1 fyrir heimamönnum í leik um þriðja sætið. Peter Shilton setti heimsmet í kveðjuleik sínum er hann lék sinn 125 landsleik.

Vestur Þjóðverjar og Argentínumenn léku til úrslita eins og fjórum árum áður. Leikurinn var harður og ekki fyrir augað en Þjóðverjar komu fram hefndum með því að sigra 1:0. Andreas Brehme skoraði sigurmarkið úr víti sex mínútum fyrir leikslok. Þá voru tveir Argentínumenn foknir útaf með rauð spjöld. Þjóðverjar sýndu styrk sinn eins og svo oft áður en keppnin í heild þótti dauf og einkennast um of af varnarleik. Í meistaraliði Þjóðverja var leikmaður að nafni Karl-Heinz Riedle. Hann lék ekki í úrslitaleiknum en tók þátt í fjórum leikjum af sjö í keppninni. Hann telst samt, ásamt Roger Hunt, annar leikmaðurinn sem leikið hefur með Liverpool til að verða heimsmeistari.

TIL BAKA