Nágrannarígur

 

Apríl 1977 - Aðdáendur Everton höfðu einnig gott minni þó að oft gæfist ekki tækifæri til að svara fyrir á knattspyrnuvellinum sjálfum en þá voru bara önnur tækifæri nýtt til hins ítrasta. Liðin mættust í undanúrslitum FA-bikarsins og vildu aðdáendur Everton meina að Liverpool hefði komist í úrslitin vegna slælegrar frammistöðu alþjóðadómarans Clive Thomas og var hann ekki í hávegum hafður hjá þeim bláu. Liðin gerðu fyrst jafntefli 2:2 og í þeim leik dæmdi Clive mark af Everton sem þeir Bláu og stuðningsmenn þeirra töldu gott og gilt. Liverpool vann seinni leikinn 3:0 og fór á Wembley. Nokkrum árum síðar var dómaranum boðið til hátíðarkvöldverðar af stjórnarmönnum Everton og sátu þar margir af hörðustu aðdáendum Everton til borðs. Clive Thomas tekur upp þráðinn: "Ég átti að ávarpa samkomuna eins og siður var en þegar ég var kynntur varð dauðaþögn í salnum. Enginn einasta sála klappaði. Ég talaði í rúman hálftíma án þess að einasti maður gerði athugasemd. Að lokum settist ég niður og sem fyrr klappaði enginn. Formaður Everton bauð stuðningsmönnum félagsins að varpa fram spurningum og sá fyrsti sem fékk orðið reis á fætur og sagði: "Herra Thomas, hvaðan ertu?" Ég svaraði um hæl að heimabær minn héti Treorchy. "Já einmitt það…það sem ég vil vita er hvers vegna Hitler sprengdi ekki Treorchy fyrst ?" Þá risu loks allir úr sætum og klöppuðu og stöppuðu og formaðurinn bankaði í mig og hvíslaði að mér: "Já þetta er góð spurning."

Leikir liðanna voru oftar en ekki sögulegir og ástæða til að kvíða þeim eins og dæmin sanna:

Apríl 1997 - Liðin skildu jöfn 1-1 en hápunktur leiksins var þegar slagsmál brutust út á milli David Unsworth og Robbie Fowler og báðir leikmenn fengu reisupassann.

Október 1997 - Neil Ruddock reynir að koma í veg fyrir fyrirgjöf Everton-manna og tekst ekki betur til en svo að beina knettinum í eigið mark framhjá David James. 2-0 tap staðreynd.

Febrúar 1998 - Fimm mínútum fyrir leikslok lenda Fowler og Thomas Myhre markvörður Everton í samstuði. Slitin liðbönd var niðurstaðan eftir rannsókn og 10 mánuðir framundan fyrir Fowler utan vallar. Enska landsliðið var á leið til heimsmeistarakeppninnar í Frakklandi án Robbie Fowler og Liverpool án markamaskínunnar fram að næstu jólum

Apríl 1999 - Liverpool sigraði Everton 3-2 eftir fimm ára ströggl gegn erkifjendunum. Ánægjuleg staðreynd en vandræðin virtust fylgja þeim samt sem áður og þá sérstaklega Robbie Fowler. Gamli Evertonaðdáandinn Fowler skoraði tvö markanna og var að sjálfsögðu himinlifandi og lagði áherslu á fögnuð sinn með því að leggjast á fjóra fætur og þykjast sniffa hliðarlínuna eins og kókaín til þess að svara fyrir þær ásakanir sem hann hafði þurft að þola árum saman frá aðdáendum Everton. Fowler var dæmdur í sex leikja leikbann og tímabili hans hjá Liverpool var lokið.

Sept 1999 - Sander Westerveld og Francis Jeffers lenda í slagsmálum og eru reknir útaf stundarfjórðungi fyrir leikslok. Steve Staunton bakvörðurinn "snjalli" fer í mark Liverpool og ver eins og berserkur. Liverpool tapaði leiknum 1-0 og til þess að bæta gráu ofan á svart þá var Steven Gerrard rekinn af velli á lokamínútu leiksins.

Apríl 2000 - Sander Westerveld neglir boltanum í bakhlutann á Don Hutchison, fyrrverandi leikmanni Liverpool, á lokamínútu leiksins og þaðan fer boltinn í markið. Besti vinur allra Púllara dómarinn Graham Poll bendir á klukku sína og segist hafa flautað leikinn af áður en boltinn fór í netið. Auk þess var Hutchison alls ekki tíu metra frá brotastaðnum og því hefði markið aldrei verið gilt. Það var samt ekki laust við að mörgum Púllaranum væri illa brugðið þegar boltinn hafnaði í netinu og leitaði sjálfsagt upp í hugann … jæja enn einu sinni skellur ógæfan á gegn Everton en Poll dómara var ekki haggað að þessu sinni. En þetta átti eftir að vera umræðuefni manna á millum í marga daga á eftir.

Sena úr leik liðanna sem sýnir og sannar að slagsmál Sander Westerveld og Francis Jeffers var sandkassaleikur miðað við það sem hefur gengið á áður

Október 2000 - Andrúmsloftið fyrir nágrannalaginn að þessu sinni var enn rafmagnaðra vegna nýlegra kaupa Liverpool á Nick Barmby frá Everton. "The Kop" sem er gefið út þar í borg hitaði upp fyrir leikinn með því að birta mynd af Paul Gascoigne skælbrosandi í Liverpooltreyju sem hefur verið tekin á góðri stundu fyrir nokkrum árum síðan. Kevin Ratcliffe gaf tóninn fyrir hönd Evertonaðdáenda. "Áhangendur Everton hafa kallað Barmby peningagráðugan svikara og öðrum illum nöfnum og ég geri ekki ráð fyrir að Nick verði hrifinn af glósunum sem hann mun fá, en ég held að hann eigi allt skilið sem hann fær." Barmby tók hins vegar öllu með jafnaðargeði: "Ég veit að spennan er mikil en ég forðast aldrei neitt í mínu lífi."

Leikur liðanna á Goodison var 163. nágrannaslagurinn. Tölfræðin í heild var Liverpool í vil en þeir höfðu fagnað sigri 57 sinnum, 51 sinni orðið jafntefli en Everton sigrað 54 sinnum. Tölfræði síðustu ára var hins vegar Liverpool langt í frá í vil. Liverpool hafði einungis borið sigurorð af Everton einu sinni á síðastliðnum 6 árum. 3-2 sigur Liverpool á Everton var einmitt ákaft fagnað af rúmlega 100 Íslendingum sem voru staddir á vegum Liverpoolklúbbsins í apríl 1999 á Anfield til þess að berja þennan sögulega sigur augum. Liverpoolklúbburinn var nú mættur aftur til leiks hálfu ári síðar.

Rauðir nudduðu þeim bláu upp úr því að hafa glatað Barmby og sungu hástöfum: "He's red, he's white, we bought him from the shite… He's red, he's white he's fucking dynamite." Evertonaðdáendur tóku hraustlega á móti Barmby er hann mætti til leiks og kölluðu á hann allir í kór "Júdas, Júdas…." En örvænting þeirra var öllum ljós þegar Nicky litli kom Liverpool yfir strax á 12. mínútu beint fyrir framan nefið á þeim. Evertonaðdándur reyttu hár sitt og sótbölvuðu en stuðningsmenn Liverpool skemmtu sér konunglega og hófu aftur söng á lögum Barmby til heiðurs til þess að strá salti í sárin. Barmby stillti sig um þó að æða beint að Evertonaðdáendum og fagna fyrir framan þá því að hann vissi jú ef það myndi gerast myndi bókstaflega allt springa endalega og skarinn æða inn á völlinn svo mikill hiti var í mönnum. Robbie Fowler sem er alltaf sívinsæll hjá aðdáendum Everton létu hann fá sinn skammt eins og venjulega og fékk hann að heyra lýðinn syngja við raust: "Go back to Toxteth!" en í því hverfi í Liverpool er Fowler fæddur og uppalinn. "Smackhead" eða kókaínfíkill fékk að fylgja í kjölfarið en þegar Nick Barmby skoraði leiddist Fowler ekki greinilega og dillaði afturendanum í áttina að Evertonaðdáendunum án þess að dómarinn sæi til. Þegar Everton jafnaði leikinn var fögnuður þeirra gríðarlegur og vakti helst athygli unglingspilturinn sem gerði sér lítið fyrir og óð inná völlinn og hljóp hann þveran og endilangan í áttina að stúkunni þar sem aðdáendur Everton sátu. Þeir hvöttu hann óspart til dáða en tveir fílelfdir lögreglumenn komu í veg fyrir að hann gæti náð til félaga sinna. Það sem fyndnast var að honum gat ekki verið meira sama og skemmti sér enn konunglega þó að hann væri kominn í fang lögreglunnar. Gleði hans var svo ósvikin að annar lögreglumannanna gat ekki stillt sig um að skellihlæja að hamagangnum í piltinum. Allir Liverpoolbúar voru ákveðnir í að sjá þennan leik og sannaðist það heldur betur í hálfleik þegar tilkynnt var í hátalarakerfinu: "Herra Jamieson, til hamingju, konan þín var rétt í þessu að eignast stúlku." Ferð þessa stolta nýbakaðs föður var sem betur fer ekki til einskis þegar Heskey og Berger sáu til þess að erkifjendunum var endanlega komið fyrir kattarnef og fullkomnuðu þennan eftirminnilega derby-dag á Anfield.

Apríl 2001 - Það eru komnar þrjár mínútur framyfir venjulegan leiktíma í stöðunni 2-2 þegar Gary McAllister tekur aukaspyrnu af um 40 metra færi og skýtur lúmsku skoti í nærhornið. Ekki verður ofsögum sagt að þetta mark skipti algjörum sköpum í möguleikum Liverpool á að komast í Meistaradeildina.

Það má alltaf gera ráð fyrir skrautlegum uppákomum og miklu fjöri þegar nágrannaliðin Liverpool og Everton mætast.

 

TIL BAKA