Phil Thompson

Fæddur: 21. janúar, 1954
Fyrsti leikur: 3. apríl 1972 – hætti 1983
Leikir/mörk: 466/12
Heildarfjöldi leikja/marka: 503/12
Fyrirliði Liverpool 1977-1981
42 landsleikir fyrir Englendinga – fyrirliði 6 sinnum.

Titlar:
7 Englandsmeistaratitlar: 73-76-77-79-80-82-83
3 Evrópumeistaratitlar 77-78-81
3 deildarbikarar 81-82-83
1 FA bikar 74
1 Evrópukeppni félagsliða 76

Phil Thompson ólst upp í Kirkby, einu úthverfa Liverpool, þaðan aðeins þeir hörðustu komast til metorða. Hann var Liverpoolaðdáandi frá blautu barnsbeini. "Þegar ég var strákur dreymdi mig að einn dag mundi ég verða einn af hetjunum sem klæddust rauða búningnum", sagði Phil eitt sinn. Ellefu ára fór hann á sinn fyrsta leik á Anfield Road. Það var hinn sögufrægi leikur í maí 1965 þegar Liverpool lagði Inter Milan 3:1 í undanúrslitum Evrópukeppni meistaraliða. Á næstu árum var Phil fastagestur á The Kop. Phil vakti athygli njósnara Liverpool og árið 1969 komst hann að hjá félaginu. Phil þótti ekki knattspyrnulega byggður. Hann var hávaxinn en sérlega grannur. En hann hafði ótvíræða hæfileika. Bill Shankly leist strax vel á piltinn þótt hann gerði nett grín að honum. Hann sagði að Phil hefði varpað hlutkesti við spóa um val á fótleggjum. Bill sagði að spóinn hefði unnið hlutkestið og fengið að velja fætur fyrst. 
Phil var fastamaður í unglingaliðinu og síðar varaliðinu. Þann 3. apríl 1972 kom hann inná sem varamaður fyrir John Toshack í 3:0 sigri yfir Manchester United á Old Trafford. Þetta var eini leikur hans á þessari leiktið en á þeirri næstu 1972-73 kom Phil töluvert við sögu. Hann lék fjórtán leiki í deildinni og ávann sér medalíu sem Englandsmeistari. Ekki sem verst af nítján ára gömlum strák. Til að byrja með lék Phil á miðjunni en þegar Larry Lloyd meiddist í febrúar 1974 var hann færður í stöðu miðvarðar með Emlyn Hughes. Phil lék þar þangað til hann yfirgaf félagið tíu árum síðar. Vorið 1974 varð Phil tvítugur að aldri bikarmeistari með Liverpool þegar liðið lagði Newcastle United 3:0. Thompson var svo lítt þekktur þá að þegar leikmenn Liverpool voru búnir að skipta á peysum við leikmenn Newcastle, eins og venja er, og kappinn ætlaði að fara með félögum sínum að fá gullpeninga sína afhenta reyndi einn öryggisvörðurinn að koma í veg fyrir að "Newcastle leikmaðurinn" færi upp á pall með hinum Liverpoolstjörnunum. Þá deildi Phil enn herbergi með bróður sínum þannig að ekki hefur framinn stigið honum til höfuðs. Titlarnir hrönnuðust upp og vorið 1976 bættist Englandsmeistaratitill og sigur í Evrópukeppni félagsliða í safnið. Að auki lék Phil sinn fyrsta landsleik fyrir England gegn Wales þetta tímabil.

 Phil og Emlyn þóttu skapa nýjan stíl sem miðverðir. Þeir voru sérstaklega þekktir fyrir að byggja upp sóknir úr vörninni með sendingum fram á miðjumennina í stað þess að senda langar sendingar fram á sóknarmennina. Á leiktíðinni 1976-77 varð Phil fyrir sínu fyrsta áfalli. Hann meiddist í mars og missti af sigrinum í Evrópukeppni meistaraliða gegn Borussia Mönchengladbach um vorið. Það voru honum mikil vonbrigði. Hann gat þó huggað sig við þriðja Englandsmeistaratitilinn. Phil komst í liðið aftur þegar leið á næstu sparktíð og var í sigurliði Liverpool í Evrópukeppni meistaraliða gegn Brugge vorið 1978. Á haustdögum 1978 meiddist Emlyn Hughes og lék lítið eftir það. Phil var þá skipaður fyrirliði og var óumdeilanlega leiðtogi liðsins innan vallar sem utan. Að auki var hann mjög vinsæll meðal áhangenda liðsins því hann gaf sig allan í hvern leik. Alan Hansen var nú orðinn samverkamaður hans í hjarta varnar Liverpool. Eins og Emlyn áður pössuðu Phil og Alan mjög vel saman og þótt hvorugur væri sterklega vaxinn komust fáir sóknarmenn framhjá þeim.

Mettímabilið 1978-79 fékk Liverpool vörnin aðeins á sig 16 mörk. Það met verður líklega aldrei slegið. Phil tók við Englandsbikarnum 1979 og 1980. Árið 1981 tók hann svo fyrstur fyrirliða Liverpool við Deildarbikarnum eftir 2:1 sigur á West Ham United í aukaleik. Um vorið upplifði hann hátindinn á ferlinum þegar hann tók við Evrópubikarnum eftir 1:0 sigur gegn Real Madrid í París.

Ray Clemence yfirgaf Liverpool um vorið og Bruce Grobbelaar kom í markið. Það tók nokkurn tíma fyrir vörn Liverpool að venjast óhefðbundnum vinnubrögðum Bruce í markinu. Í rúman áratug vissu varnarmenn Liverpool nákvæmlega hvar Ray var og hann hvar þeir voru. En nú var öldin önnur. Til að byrja með var ekki nokkur möguleiki að átta sig á hvar Bruce var og hvað hann ætlaði að gera. Liverpool fékk óvenju mörg mörk á sig haustið 1981. Phil missti sjálfstraustið og eftir 1:3 tap gegn Manchester City á Anfield Road á annan í jólum þótti Bob Paisley nóg komið. Liverpool var um miðja deild og eitthvað varð að gera. Bob ákvað að taka fyrirliðastöðuna af Phil og gerði Graeme Souness að fyrirliða. Phil tók þetta mjög nærri sér. Hann var áfram í liðinu en rétt eftir áramótin meiddist hann. Phil komst þó aftur í liðið í mars og lék í 3:1 sigri gegn Tottenham í úrslitum Deildarbikarins. Hann hélt stöðu sinni til vors og fagnaði Englandsmeistaratitli. Að auki komst hann í enska landsliðið og lék í HM á Spáni um sumarið. Hann þótti einn besti maður liðsins í keppninni.

TIL BAKA