Tommy Smith

Tommy Smith fæddist þann 5. apríl 1945, aðeins nokkur hundruð metra frá Anfield og hóf knattspyrnuferil sinn hjá Liverpool rétt eftir að bylting Shankly skall á félaginu. Á unglingsaldri missti Tommy föður sinn og mamma Tommy fór með hann á Anfield Road á fund Bill Shankly og bað Bill um að sjá um hann Tommy sinn. Hann kynntist fljótlega kallinum og hans sérstöku aðferðum við að efla baráttuhug manna. "Ég var aðeins fimmtán ára og við vorum búnir að skipta í lið á æfingu á Melwood. Ég klobbaði Gerry Byrne og skoraði og var ansi stoltur. Aðeins nokkrum mínútum síðar fórum ég og Gerry í skallaeinvígi og Gerry skallaði mig í andlitið og ég fékk skurð fyrir ofan augnbrúnina. Þegar ég lá á vellinum og blóðið lak úr andlitinu á mér, kom Bill Shankly labbandi, horfði á mig og sagði; "regla númer eitt, þú klobbar Gerry Byrne aldrei, sonur og haldir svo að þú komist upp með það". Tommy Smith lærði sína lexíu og varð einn alharðasti leikmaður í sögu Liverpool (263 andstæðingar með brákuð bein, tölur frá Tommy Smith, hann taldi þá!!). "Þetta var mín sterkasta hlið. Sumir leikmenn voru með góða knattmeðferð, aðrir góðir skallamenn en ég var hörkutæklari." En Tommy var ekki bara harður nagli sem sparkaði allt niður sem hreyfðist. Hann hafði góða knatttækni og var mjög sparkviss og var um tíma vítaskytta liðsins og skoraði alls 48 mörk fyrir Liverpool.

Smith hafði verið markaskorari í yngri flokkunum og hlaust m.a. sá heiður að leika við hlið goðsagnarinnar Billy Liddell, sem var kominn á efri ár, í varaliðinu þegar hann var að hefja feril sinn. "Shanks gaf mér heilræði sem ég hafði ætíð hugfast á ferli mínum. Hann sagði mér að taka ekki við kjaftæði frá einum né neinum". Þegar mér fannst ég nógu góður til þess að komast í aðalliðið lét ég reyna á heilræði Shankly og marseraði inn á skrifstofuna hans og spurði hvenær eiginlega ég fengi stóra tækifærið. Hann sagði að minn tími myndi koma og ég þyrfti að vera þolinmóður en hann sagði mér þetta á þann hátt að þegar ég yfirgaf skrifstofuna hans leið mér eins og ég væri hæfileikaríkasti leikmaður í boltanum".

8. maí 1963 lék Tommy sinn fyrsta leik með aðalliðinu þegar Birmingham lá 5:1 á Anfield Road. Tommy lék til að byrja með á miðjunni en lék lengst af í hjarta varnarinnar og á seinni hluta ferils síns var hann færður í hægri bakvörðinn þar til hann missti sæti sitt í hendur Phil Neal sem var færður úr vinstri bakverðinum í stöðu Smith. Tommy var ekki mjög fljótur en hafði góðan skilning á leiknum.

Orðspor Smithy sem harðjaxls fór víða: "Ég var að komast aftur á ról eftir meiðsli og lék með varaliðinu gegn Preston. Maður og kona komu að máli við mig eftir leik og þökkuðu mér fyrir að hafa ekki sparkað í son sinn sem hafði verið vinstri kantmaður í leiknum. Ég hafði ekki haft neinar áætlanir um að láta strákinn finna fyrir því í leiknum en þetta dæmi sýnir hvernig orðspor hafði áhrif á andstæðing minn sem og foreldra hans". Tommy lét andstæðingana sína jafnan finna fyrir því sérstaklega í upphafi leiks og enginn hlakkaði til þess að leika gegn honum sem var óneitanlega mikill plús fyrir Liverpoolliðið sem og hann sjálfan. Tommy var ekki nefndur Anfieldjárnkarlinn fyrir ekki neitt. Hann sleppti aldrei góðu tækifæri til þess að láta minna á sig: "Ég minnist leiks gegn Newcastle á St James Park og Malcolm Macdonald skoraði þrennu gegn okkur. Undir lok leiksins stökk Macdonald upp í háan bolta gegn Ray Clemence og Clem hafði betur og Macdonald lenti illa. Það varð að útvega sjúkrabörur handa honum og er hann lá á börunum labbaði ég að honum og sagði við hann: "Þú átt aldrei eftir að skora eitt einasta andskotans mark gegn Liverpool meðan ég er inná. Ég meinti það og það sem meira er þetta rættist." Nokkrum mánuðum síðar hótaði Macdonald að rústa vörn Liverpool í bikarúrslitaleik liðanna en hann hefði átt að vita betur, Macdonald og Newcastle áttu ekki séns og 3-0 tap staðreynd og Smith var glaðbeittur á svip.

TIL BAKA