Brian Hall

Brian Hall fæddist í Glasgow þann 22. janúar 1946. Brian var heldur smávaxinn en lipur og mjög duglegur leikmaður. Bill Shankly kunni vel að meta slíka eiginleika. Hall varð mikilvægur hluti af ungu liði Liverpool sem Bill Shankly hóf að byggja upp um 1970. Brian kom fyrst við sögu í aðalliðinu þann 7. apríl 1969 þegar hann kom inná sem varamaður fyrir goðsögnina Roger Hunt í markalausum leik gegn Stoke á útivelli. Haustið 1970 fékk hann loks stóra tækifærið. Ian Callaghan meiddist og Brian tók stöðu hans á hægri kantinum. Hann stóð sig það vel að þegar Ian hafði náð sér af meiðslunum hélt hann þeirri stöðu og Ian var færður inn á miðjuna þar sem hann lék til loka ferils síns hjá Liverpool.

Brian komst heldur betur í sviðsljósið þegar Liverpool lék gegn Everton á Old Trafford í undanúrslitum F.A. bikarsins 1971 að viðstöddum 62.144 áhorfendum. Everton komst yfir snemma leiks með marki frá Alan Ball. Alun Evans jafnaði á 59. mínútu. Á 73. mínútu sendi Evans fyrir markið og Brian Hall, sem opnaði markareikning sinn hjá Liverpool, skoraði sigurmarkið við trylltan fögnuð Rauðliða innan vallar sem utan. Brian sagði síðar: "Ég get aldrei gleymt þessu marki. Ekki vegna þess að ég sé að leggja það sérstaklega á minnið heldur vegna þess að fólk er alltaf að rifja það upp!" Brian tryggði Liverpool sæti á Wembley gegn Arsenal en því miður tapaði Liverpool úrslitaleiknum. Steve Heighway kom Liverpool yfir í framlengingu úrslitaleiksins en Eddie Kelly og Charlie George svöruðu og Arsenal vann Tvennuna.

 Brian varð enskur meistari og kom við sögu þegar Liverpool mætti Borussia Mönchengladbach í úrslitaleik Evrópukeppni félagsliða 1973. Fyrri leikurinn fór fram á Anfield Road. Rétt fyrir leik fór að rigna og úrkoman jókst jafnt og þétt og eftir hálftíma leik var Anfield eins og sundlaug og dómarinn flautaði af. Vatnið sjatnaði og aftur mættu liðin til leiks kvöldið eftir. En á þeim sólarhring sem leið milli leikja hugsaði Bill Shankly ráð sitt. Hann hafði séð veikleika hjá Þjóðverjunum. Varnarmenn þeirra voru ekki mjög háir í loftinu og Bill ákvað að breyta byrjunarliðinu. Hann tók Brian út úr byrjunarliðinu og setti hinn hávaxna John Toshack inn. Þetta voru Brian vonbrigði en reyndist snilldarbragð. Þjóðverjanir réðu ekkert við John. Liverpool vann 3:0 með tveimur mörkum frá Kevin Keegan og einu frá Larry Lloyd. Brian kom inná sem varamaður fyrir Steve Heighway í leiknum. Borussia vann seinni leikinn 2:0 en Liverpool vann samanlagt 3:2 og fyrsti Evróputitill félagsins var í höfn. Vorið 1974 komst Liverpool í undanúrslit F.A. bikarsins. Liverpool og Leicester skildu jöfn 0:0 á Old Trafford og þurftu að mætast aftur og nú skyldi leikið á Villa Park. Eins og í undanúrslitunum 1971 setti Brian mark sitt á leikinn. Á fyrstu mínútu síðari hálfleiks kom Brian Liverpool yfir. Glover jafnaði fyrir Leicester tveimur mínútum síðar. En Liverpool fór alla leið eftir að þeir Kevin Keegan og John Toshack tryggðu 3:1 sigur. Sjö leikmenn af þeim sem léku úrslitaleikinn gegn Arsenal 1971 léku úrslitaleikinn gegn Newcastle. Liverpool vann F.A. bikarinn á glæsilegan hátt 3:0. Kevin Keegan skoraði tvívegis og Steve Heighway eitt mark.

Besta leiktíð Brian hjá Liverpool var þó 1974/75 þegar hann lék flesta leiki liðsins. Brian missti stöðu sína til Jimmy Case sem þá var að skapa sér nafn með Liverpool og yfirgaf Liverpool leiktíðina 1975/76. Hann fór til Plymouth og þaðan til Burnley. Hann iðraðist þess mikið síðar að hafa yfirgefið félagið: "Ég gerði stór mistök". Alls lék hann 220 leiki og skoraði 21 mark fyrir Liverpool. Söknuðurinn var mikill en árið 1991 kom aftur kall frá Anfield Road og nú er hann kominn heim á ný.

TIL BAKA