Ron Yeats

Vorið eftir komst Liverpool í sinn fyrsta úrslitaleik í Evrópukeppni. Liverpool lék við Borussia Dortmund um Evrópubikar bikarhafa. Liverpool var nýbúið að tryggja sér enska meistaratitilinn en náði sér ekki alveg á strik í rigningunni í Glasgow. Sigfried Held, síðar landsliðsþjálfari Íslands, kom Dortmund yfir á 51. mínútu. En markakóngurinn Roger Hunt jafnaði á 68. mínútu. Ekki var skorað meira í venjulegum leiktíma og leikurinn því framlengdur. Á 107. mínútu framlengingar náði Dortmund að tryggja sér sigur með miklu heppnismarki. Langskot af um 40 metra færi frá Reinhard Libuda stefndi í mark Liverpool. Ron elti boltann í þeirri von að bjarga marki. En sá eltingaleikur endaði illa. Boltinn hafnaði á síðustu stundu í stöng og hrökk þaðan í Ron og í markið. Ron var kominn nærri markinu á fullri ferð og árekstur við boltann var ekki umflúinn. Liverpool náði ekki að jafna og Dortmund vann fyrsta Evróputitil þýsks félagsliðs.
Ron var óskoraður leiðtogi þessa magnaða liðs Liverpool sem gerði garðinn frægan á sjöunda áratugnum undir stjórn Bill Shankly. Bill sagði þetta lið hafa verið það besta í Englandi frá stríðslokum. Sami kjarninn lék keppnistímabil eftir keppnistímabil. Sérstaklega átti þetta við um leiktíðina 1965/66 þegar meistaralið Liverpool notaði aðeins fjórtán leikmenn í 42 leikjum í deildinni. Bill svaraði einu sinni blaðamanni: "Hvernig verður liðið skipað? Það verður það sama og á síðustu leiktíð." Vörnin var að stofni sú sama á þessum árum. Tommy Lawrence lék í marki. Chris Lawler var hægri bakvörður, Gerry Byrne sá vinstri og þeir Tommy Smith og Ron voru miðverðir. Þetta var ekki árennileg vörn víst var um það. Ron komst á þessum árum í skoska landsliðið en landsleikirnir urðu aðeins tveir. Sá fyrri 1964 og hinn síðari ári síðar. Þótti mörgum að hann hefði átt að leika miklu fleiri landsleiki. Innan vallar leiddi Ron liðið en utan vallar var það Bill Shankly sem lagði línurnar. Ron sagði síðar um landa sinn og lærimeistara: "Hann veitti mér gríðarlegt sjálfstraust. Honum tókst að láta alla leikmennina finnast þeir vera frábærir. Það skipti miklu því ef þér fannst þú vera frábær leikmaður þá leikurðu vel. Þegar við töpuðum bilaði sjálftraustið ekkert. Bill sagði ástæðuna vera einhvers konar mistök hjá einhverjum öðrum en okkur. Til dæmis var sigurmark andstæðinga okkar rangstaða, það var brotið á leikmanni okkar eða eitthvað álíka. Annað lykilatriði var að leikmenn komust aldrei upp með að slaka á. Bill þoldi ekki sofandahátt hjá einum eða neinum. Það voru í raun engar stórstjörnur í liðinu. Allir voru þar á jafnréttisgrundvelli."

Leiktíðin 1969/70 var síðasta leiktíðin sem Ron var fastur maður í liði Liverpool. Bakmeiðsli fóru að gera honum erfitt fyrir og Bill fann arftaka hans. Larry Lloyd var áþekkur Ron að stærð og líkamsburðum. En Ron kom nokkuð við sögu leiktíðina 1970/71. Hann lék þá mest sem vinstri bakvörður. Hann lék sextán leiki og skoraði eitt mark. Markið skoraði hann með bylmingsskalla fyrir framan The Kop í 2:0 sigri á Burnley í október 1970. Síðasta leik sinn lék hann 26. apríl 1971 þegar Liverpool garði 2:2 jafntefli við Manchester City á útivelli. Litlu munaði reyndar að Ron kæmist í lið Liverpool sem lék til úrslita við Arsenal um F.A. bikarinn. Arftaki hans Larry Lloyd átti við meiðsli að stríða en varð úrskurðaður leikfær tveimur dögum fyrir úrslitaleikinn. Arsenal vann leikinn 2:1 gegn ungu og óreyndu liði Liverpool. En þetta lið átti eftir að láta að sér kveða á næstu árum. Ron og félagar hans viku nú fyrir yngri mönnum. Ferli Ron hjá Liverpool, sem taldi 451 leik og 15 mörk, lauk í desember 1971 þegar hann gekk til liðs við nágrannafélagið Tranmere Rovers. Þar gerðist Ron leikmaður og síðar framkvæmdastjóri. Hann bætti rúmlega 100 leikjum í safnið áður en hann lagði skóna endanlega á hilluna 1974, þá 37 ára gamall. Ron stýrði Tranmere til 1975. Síðar kom hann við sögu sem leikmaður og stjóri hjá utandeildarliðunum Slybridge Celtic og Barrow. Árið 1986 var Ron boðið starf yfirnjósnara hjá sínu gamla félagi og við þá iðju starfar hann enn þann dag í dag.

Margir telja að Liverpool hafi leikið í alrauðum búningi alla tíð. Svo er þó ekki. Áratugum saman lék liðið í rauðum peysum og hvítum buxum. Liverpool hóf leiktíðina 1964/65 í þessum búningum og lék í þeim gegn K.R. í fyrstu Evrópuleikjum félagsins. En þá um haustið fékk Bill Shankly þá mögnuðu hugdettu að breyta félagsbúningnum í alrauðan. Ron Yeats kom mikið við sögu í endanlegri ákvörðun um búningavalið. Einn góðan haustdag 1964 fékk harðjaxlinn Ron óvænt hlutverk. Hann var gerður að fyrirsætu! Bill boðaði Ron til sín á Anfield Road. Þar fékk hann honum rauðar buxur við rauðu peysuna. Bill bað Ron að klæða sig í nýja búninginn og koma hlaupandi út úr leikmannaútganginum út á völlinn. Bill, Bob Paisley og aðstoðarmenn þeirra tóku sér stöðu úti á vellinum og biðu átekta. Ron skokkaði út á völlinn. Á samri stundu og Ron birtist var Bill fullviss um að hugmyndin væri ekki góð heldur snilld. "Jesús Kristur. Þú lítur út fyrir að vera enn stærri en þú ert. Liðið mun líta miklu vígalegra út í alrauðum búningum." Það þurfti ekki að velta þessu frekar fyrir sér. Nýji búningurinn var vígður í næsta leik. Ron á því mikinn þátt í að Liverpool leikur í hinum velþekkta og glæsilega alrauða búningi í dag.

TIL BAKA