Liverpool - Alaves, maí 2001

Leið nú að verðlaunaafhendingu og klöppuðu allir stuðningsmenn Liverpool hressilega fyrir leikmönnum Alaves er þeir tóku við silfurmedalíum sínum. Þeir áttu klappið svo sannarlega skilið. Við vorum staddir hinumegin á vellinum og horfðum í bakið á leikmönnunum en risaskjárinn gerði sitt gagn og maður gat séð athöfnina í nærmynd. Í þann mund sem Fowler og Hyypia festu hendur á bikarnum og sprengingar áttu sér stað sitthvoru megin við leikmennina og miðar fóru á loft í öllum regnbogans litum - var ógleymanlegasta stund tímabilsins, á því lék enginn vafi. Leikmennirnir röðuðu sér upp fyrir framan norðurstúkuna þar sem "The Kop" stóð endursköpuð og nú var komið að helgistund: "You'll Never Walk Alone" var sett á fóninn og leikmenn sem og áhorfendur sungu allir í kór. Sjaldan hefur þessi söngur hljómað jafnfallega. Eftir að þessu var lokið festi Houllier hönd á bikarnum og akkúrat á þeirri stundu skellti George Sephton plötusnúðurinn á Anfield, "Hou let the Dogs out" í hátalarakerfið og það glumdi í leikvangnum þegar "Hou-Houllier" ómaði úr öllum áttum. Ef Houllier hefur ekki fengið gæsahúð á þeirri stundu þá er hann ekki mennskur. Ef það var ekki nóg þá fylgdi Go West í kjölfarið og allir sungu "Gerard - Gerard Houllier" við lagið eins og venja er og Houllier vildi greinilega ekki sleppa bikarnum.

Við slitum okkur loks frá leikvangnum og héldum á rútustæðið. Bretarnir voru á leið heim enda þurftu þeir að vakna til vinnu snemma í fyrramálið. Miðbærinn yrði því ekkert yfirfullur og við töldum ekki taka því að væflast þar og borga svo stórfé fyrir leigubíl síðar um nóttina til Bochum. Ég hringdi á Ölver - allt að tryllast þar og maður hálfpartinn óskaði þess að vera kominn í stemmninguna þar. Okkur var tjáð að íslenski fáninn hafði verið fyrir miðri mynd þegar marki Fowler var fagnað. Við fögnuðum því og minibarinn um borð var opnaður með viðhöfn. Ákveðið var að bíða í um klukkutíma þar til bílastæðið tæmdist af þeim mikla rútufjölda sem þar var. Við fórum í smágöngutúr og þar brá svo við að ég sjá útundan mér hinn goðsagnakennda Púllara Dr. Fun sem er ætíð áberandi á Anfield, mjög skrautlegur í rauðum jakkafötum, með pípuhatt og forláta leikrúðu sem heitir Charlie. Við rukum til og heilsuðum upp á kappann en það kom fljótlega í ljós að þetta hafði verið langur dagur hjá honum enda stóð hann varla í lappirnar. Það var ekki tilefni til mikilla viðræðna við hann þannig að við fórum aftur upp í rútu og brátt var haldið á leið til Bochum.

Við tékkuðum okkur inn og fórum síðan niður í bæ á bar sem ber heitið "Una Mas". Eurosport var í gangi og allir að rifja upp gang þessa magnaða leiks. Ég horfði ekki á enda taugarnar búnar og alveg búinn að fá nóg af þessum blessaða leik. Þarna sátum við í góðu yfirlæti í nokkra klukkutíma. Það var ekki fyrr en svo daginn eftir að sú kaldhæðni örlaganna laust niður í huga minn að við skyldum fagna sigrinum á Alaves á spænskum bar. Framundan var heill dagur í Bochum, 400.000 íbúa háskólabæ 25 kílómetrum fyrir utan Dortmund. Hvað átti maður nú að gera? Það fyrsta sem ég gerði var þó að leita að bráðaframköllun sem myndi skila glæsilegum myndum frá gærdeginum á einum klukkutíma. Ég rétti afgreiðslukonunni tvær filmur hróðugur og mælti á enska tungu og eins og venjulega var manni svarað á bullvaðandi þýsku. Maður jánkaði öllu saman en innan tíðar snéri hún tilbaka með aðra filmuna og hristi hausinn. Ég hafði í fljótfærni minni á flugvellinum heima keypt einhvern pakka með þremur filmum til þess að vera vel birgur og nú kom í ljós að allar myndirnar sem ég hafði tekið á Westfalenleikvangnum voru slidesmyndir!! Eftir að félagar mínir höfðu hlegið að mér vel og lengi þá skakklappaðist maður út úr búðinni. Við fórum á hótelið okkar og spurðum hvað væri hægt að gera í þessum blessaða bæ. Okkur var bent á keiluhöll væri í næsta nágrenni og þangað æddum við. Bróðurpartinum af deginum var því eytt í þýskt bowling, fótboltatölvuspil og búðarrölt þar sem maður reyndi að finna eitthvað sniðugt leikfang fyrir dótturina. Um kvöldið fórum við út að borða nokkrir saman og ég gerði tilraun til að ná í vin minn sem ég hafði svo árangurslaust reynt að hitta í Dortmund og sat að sjálfsögðu í mestu makindum í Liverpoolborg. Hann var furðu lostinn er ég greindi honum frá því að ég væri í Bochum í Þýskalandi. "Af hverju í ósköpunum eruð þið ennþá í Þýskalandi?, þrumaði hann Pete Sampara í gegnum gemsann og ég reyndi að útskýra fyrir honum þessa flóknu ferðaáætlun okkar og þá óbundnu gleði sem fólst í því að vera ennþá í Þýskalandi. Anneke sem þjónaði okkur til borðs var dugleg að koma með bjórana og skírði ég hana "Heineken" í stað "Anneke" í tilefni af því hversu vel hún reyndist okkur. Lagt var heim á leið skömmu eftir hádegi á föstudeginum og enn seinkaði okkur og nú vegna þess að rútan sem átti að ferja okkur lenti í umferðarslysi. Tíminn leið en önnur rúta flutti okkur til Frankfurt og komum við á réttum tíma. Allt blessaðist því að lokum og önnur ferð vonandi framundan í lok maí 2002 þegar úrslitaleikur Meistaradeildarinnar er á dagskrá.

Arngrímur Baldursson

 

TIL BAKA