Liverpool - Blackburn í nóvember 1998

Meirihluti hópsins hélt sig á börunum á hótelinu. Flugfreyjurnar 66 frá Dublin komnar til síns heima, staðreynd sem olli ómældum vonbrigðum. Íri á staðnum með Liverpoolmerkið tattúverað á brjóstkassann, sýndi það hreykinn og spurði svo hvort við vildum sjá Evertontattúið hans og áður en nokkur gat svarað snéri hann sér við og múnaði okkur! Héðinn settist við hliðina á þrem hálftannlausum köllum sem héldu með Tranmere, Everton og Liverpool. Héðinn var fljótt tekinn að ókyrrast en þegar hann stóð upp, þá vildi ekki betur til en svo að hann rak sig í borð kallanna, sem voru komnir til ára sinna, þannig að bjórinn þeirra helltist yfir þá, greyið ellilífeyrisþegana. Héðinn rauk til og reyndi að þerra kallanna og fór svo á barinn og keypti nýjan umgang.

Það vildi þá ekki betur til en svo að nokkrum augnablikum síðar kom einn ellilífeyrisþegana með fangið troðfullt af bjór nýbúinn að kaupa nýjan umgang fyrir sig og félaga sína í staðinn fyrir bjórinn sem Héðinn hafði hellt niður. Kallinn stóð yfir borðinu sem var varla nokkuð pláss á fyrir bjórinn: "How are we gonna’ drink all this beer", sagði kallinn og dæsti. Kenndum í brjósti um kallanna og fórum að spjalla við þá. Liverpoolaðdáandinn reif upp miða frá úrslitaleik Liverpool og Arsenal í FA Cup 1950 og minntist góðra stunda í The Kop, er allir sungu "You’ll Never Walk Alone" með tárin streymandi niður kinnarnar.

Allir hittast fyrir framan hótelið um eittleytið á sunnudag tilbúnir með farangurinn, enda planið að stökkva beint upp í vél eftir leik. Menn fengu afhenta passa á barinn á Anfield. Ótrúlega bíræfnir strákar í kringum völlinn, heimta eitt pund eða miða á völlinn. Einn okkar lætur tilleiðast og réttir einum pund, sá rýkur í burtu og kemur að vörmu spori með þrjá félaga sína með sér sem vilja einnig fá sömu greiðslu. Einn strákanna býðst til þess að syngja og dansa fyrir pund. Löggan eða "the pigs" eins og strákarnir kalla þá, vel á verði. Stefnan tekin á barinn í Centenary-stúkunni á Anfield. Hittum þar Les Lawson ritara Merseyside Branch sem við höfðum spilað við daginn áður og urðum ásáttir um að gera þennan kappleik milli liðanna að föstum viðburði í hvert skipti sem Liverpoolklúbburinn kæmi til Liverpool. Happdrætti í gangi og voru verðlaunin ekki af verri endanum, bolti áritaður af öllum leikmönnum Liverpool. Það vildi svo skemmtilega til að einn úr okkar hópi hreppti hnossið en hann reyndist hafa keypt meirihlutann af miðunum. Leikurinn beint á Sky kick-off kl. 4, sjónvarpið í gangi á barnum, verið að sýna frá Man Utd -Leeds sem hófst um tvöleytið, Leeds kemst í sína fyrstu sókn og Hasselbaink skorar, mikil fagnaðarlæti brutust út, rétt fyrir hálfleik jafnar Solskjaer, slökkt á tækinu!

15 mínútur í upphaf leiks og því tími til kominn að koma sér fyrir í stúkunni. Ég hafði minnst á úrslit kappleiksins okkar við heimamenn við þá sem spurðu en reyndi annars ekkert að láta fara mikið fyrir þeim. Það var svo tilkynnt hátt og snjallt á hátalakerfinu á Anfield rétt fyrir upphaf leiks að íslenski stuðningsmannaklúbburinn væri á meðal áhorfenda og við náttúrulega risum úr sætum og veifuðum til áhorfenda. En vallarþulurinn var ekki búinn að ljúka sér af: "þess má geta að íslenski klúbburinn spilaði við stuðningsmannaklúbb Liverpool á Merseyside og tapaði 6-0!!", rúmlega 44.000 manns fréttu úrslit leiksins á einu bretti! Við hættum að veifa og sigum hægt og rólega niður í sætin okkar og létum lítið fyrir okkur fara.
Byrjunarliðin lesin upp og síðan "You’ll Never Walk Alone" sungið um allan völl eins og lög gera ráð fyrir. Liðin hlaupa út á völlinn og allt brjálast. Blackburn byrjaði af krafti en tvö mörk á þrem mínútum í fyrri hálfleik gerðu út um leikinn. Glæsimark Ince og mark Owen sem fagnað var gríðarlega. Bæði mörkin "okkar megin" í stúkunni þannig að menn voru sáttir. Alan Shearer í stúdíói Sky rétt fyrir ofan okkur, áhorfendur á vellinum urðu einnig varir við hann og kyrjuðu allir í einum kór: "Shearer asshole, Shearer Shearer asshole" og veifuðu í átt að stúdíóinu. Einnig fengu aðdáendur Blackburn að heyra það: "Going down, going down!"

Stjórn klúbbsins ásamt yngstu aðdáendum Liverpool í ferðinni hélt til móts við Owen eftir leik til þess að afhenda honum verðlaun fyrir að vera valinn leikmaður tímabilsins 1997-1998 af stuðningsmönnum Liverpool á Íslandi.
Afgangurinn af hópnum upp í rútu út á flögvöll enda tiltölulega stutt í brottför. Owen lét bíða eftir sér á meðan hann tók sturtu og svoleiðis en við hinir litum taugaóstyrkir á klukkuna og vonuðumst til þess að finna leigubíl í hvelli eftir viðhöfnina til þess að fara með okkur út á völl. Loks kom "Boy wonder" og heilsaði upp á okkur. Kappanum var litið á myndina er Pilkington hafði teiknað af honum og sagðist vera mun myndarlegri á myndinni en í raunveruleikanum. Brian Hall, umsjónarmaður almannatengsla og fyrrverandi leikmaður Liverpool 1968-76 tók myndir á okkar vélar af þessum glaðbeitta hóp. Brian bjástraði heillengi við vélina hans Héðins "ellilífeyrisþegabana" þar til Owen benti honum á að það væri vissara að taka lokið af lensunni áður en hann ætlaði að smella af. Greinarhöfundur missti þá út úr sér við Brian að hann vonaðist til þess að Brian hefði verið betri knattspyrnumaður en ljósmyndari sem Brian svaraði um hæl: "Count your medals!" og glotti og vísaði þar til UEFA Cup-, 1. deildar- og FA Cup titils er kappinn vann á ferli sínum. Owen hafði gaman af þessu öllu saman og var hinn þægilegasti í viðmóti og skrifaði á alla pappíra og myndir er við réttum að honum. Við spurðum Brian hvort við mættum ekki bara gista heima hjá honum ef við misstum af vélinni. "Jú, jú ekkert mál, bara 50 pund nóttin". Við svo búið hentumst við út í leigubíl og komum á sama tíma og rúta hinna kom á staðinn. Ferðin tókst vel í alla staði og menn þegar farnir að grennslast fyrir um hvenær næsta ferð okkar á Anfield yrði.

Arngrímur Baldursson

TIL BAKA