Matt McQueen

Matt McQueen hafði fengist við nánast allt sem nöfnum tjáir að nefna hjá Liverpool og var einn af Skotunum sem léku með Liverpool í upphafi sögu félagsins. Matt hafði leikið allar stöður í liðinu. Já, það er ótrúlegt en satt en hann lék líka alls 49 leiki í stöðu markvarðar! Í metaannálum er hann talinn eini leikmaðurinn í heiminum sem hefur leikið allar stöður á vellinum með liði í atvinnumannadeildum. Hann var formaður Liverpool árin 1917 og 1918 og hafði einnig verið ritari félagsins og ekki ólíklegt að hann hefði einnig þvegið skyrturnar og slegið grasið. Matt hafði líka verið fyrirliði liðsins um hríð en nú var stóra stundin runnin upp. Hann var ráðinn framkvæmdastjóri félagsins.

Ashworth hafði sagt af sér sem framkvæmdastjóri Liverpool í febrúarmánuði þrátt fyrir að liðið ætti alla möguleika á öðrum titli í röð. McQueen náði fyrsta takmarki sínu á vordögum 1923 er Liverpool lyfti meistaratitlinum. Liverpool vann einungis einn af síðustu sjö leikjum sínum en vann samt deildarkeppnina með sex stiga forskoti. Liverpool hlaut 60 stig í deildinni sem var metjöfnun og Elisha setti met þegar hann fékk aðeins á sig 23 mörk. Liverpool hafði varið enska meistaratitilinn og unnið hann í fjórða skipti. Liverpool var því komið í hóp sigursælustu liða Englands. Aðeins Aston Villa með sex meistaratitla og Sunderland með fimm höfðu unnið enska meistaratitilinn oftar en Liverpool þegar hér var komið við sögu.

Eftir tvo Englandsmeistaratitla í röð árin 1922 og 1923 var búist við að Liverpool héldi áfram að láta til sín taka í titlasöfnun á næstu leiktíðum. Það varð þó ekki og heil tuttugu og fjögur ár og ein heimsstyrjöld liðu áður en næsti stórtitill rataði til Anfield Road. Það var ekki einu sinni svo að liðið næði að blanda sér í baráttuna um enska meistaratitilinn svo nokkru næmi og gengi liðsins í F.A. bikarnum var ekki gott.

Fyrsta heila tímabil Matt McQueen með liðið, 1923/24, olli vonbrigðum og liðið endaði í tólfta sæti. Leikmönnum liðsins tókst aðeins að skora 49 mörk og í fimmtán leikjum tókst ekki að skora. Huddersfield Town tók við af Liverpool sem Englandsmeistarar og hélt titlinum næstu þrjú árin. Sumir töldu að forráðamenn Liverpool hefðu ekki gætt nógu vel að því að styrkja liðið á meðan vel gekk á meistaraárunum 1922 og 1923. Liðið var að kalla óbreytt þessar tvær leiktíðir. Aldurinn færðist yfir leikmennina og önnur lið náðu Liverpool að styrk. Markakóngur Liverpool 1925 og 1926, Dick Forshaw, yfirgaf Liverpool óvænt og fór yfir Stanley Park til Everton. Burðarásarnir í vörn Liverpool; Ephraim Longworth og Don McKinlay hættu í lok þriðja áratugarins.

Leiktíðina 1926/27 hafnaði Liverpool í níunda sæti en á þeirri næstu skall hurð nærri hælum og liðið endaði í sextánda sæti einu stigi fyrir ofan fall. Það sem verra var Everton varð meistari. Matt McQueen lét af stöfum í febrúar þessa leiktíð vegna heilsuleysis sem mátti rekja til þess að hann missti annan fótinn í bílslysi er hann var á leið til Sheffield að fylgjast með leikmanni. Hann sat oft eftir þetta fyrir utan hús sitt á Kemlyn Road og heilsaði aðdáendum liðsins á leið sinni á völlinn. Matt hélt áfram að vera viðriðinn félagið til dauðadags í september 1944.

TIL BAKA