David Ashworth

Þegar deildarkeppnin hófst að nýju leiktíðina 1919-20 var Liverpool enn án framkvæmdastjóra. George Patterson hafði þó séð um málefni liðsins frá því Tom Watson féll frá og stýrði liðinu í 4. sæti. David Ashworth var smávaxinn maður auðþekktur með fíngerðu yfirvaraskeggi. Hann hóf afskipti sín af knattspyrnu í hlutverki dómara. Ashworth ákvað að breyta til og gerðist fyrsti framkvæmdastjóri Oldham sem var stofnað árið 1906. Ashworth tók við Stockport County árið 1914 og í desember 1920 tók hann við Liverpool. Liðið hafnaði aftur í 4. sæti undir hans stjórnog endaði átta stigum eftir meisturum Burnley. Næsta tímabil var liðið hins vegar sigursælt. Dick Forshaw og þá sérstaklega Harry "Smiler" Chambers, sem svo var kallaður vegna þess að hann var ætíð skælbrosandi, höfðu næga ástæðu til að brosa gleitt því að þeir röðuðu inn mörkunum. En liðið byggðist helst á sterkri vörn með Elisha Scott í markinu og hina firnasterku bakverði Longworth og McKinlay.

Liverpool byrjaði tímabilið 1921-22 illa með 3-0 tapi gegn Sunderland en tapaði svo einungis einum leik fram í miðjan mars en þá virtist titillinn ætla að ganga úr greipum þeirra. Eins og á meistaraárinu 1901 þurfti Liverpool að leika lokaleikinn gegn WBA á útivelli og vinna til að innbyrða meistaratignina. Liverpool byrjaði af miklum krafti og hafði 4:1 forystu í hálfleik. Þannig lauk leiknum og titillinn var í höfn. Stuðningurinn við Liverpool var sem fyrr magnaður og meðaltal á Anfield var rúmlega 37.000 á deildarleikjum liðsins.

Á næstu leiktíð hélt Liverpool uppteknum hætti. Sérstaklega skemmtu aðdáendur liðsins sér í október. Metáhorfendafjöldi á Anfield Road 54.368 sá Liverpool leika gegn Everton. Þeir Bláu voru 1:0 yfir í hálfleik. En í þeim seinni skoraði Chambers þrennu og þeir McNab og Bromilow gulltryggðu stórsigur. Viku síðar komu 52.000 áhorfendur á Goodison Park og þeir sáu Dick Johnson tryggja þeim Rauðu sigur með eina marki leiksins. En þá gerðist nokkuð sem varla á sér hliðstæðu í knattspyrnusögunni. Í febrúar 1923 þegar Liverpool stefndi hraðbyri að titli annað árið í röð tók David Ashworth framkvæmdastjóri þá undarlegu ákvörðun að snúa aftur til gamla félags síns Oldham sem var á botni deildarinnar. Ashworth þurfti síðan að horfa upp á fall Oldham um vorið undir stjórn hans. Ashworth dvaldi aðeins eitt ár hjá Oldham uns hann fór til Man City en dvaldi ekki lengi þar við. Það kunni enginn viðhlítandi skýringu á hvers vegna hann yfirgaf Liverpool  og enn í dag er þetta öllum hulin ráðgáta.

TIL BAKA