Ian Callaghan

Ian Callaghan vakti athygli útsendara Liverpool árið 1958 er hann spilaði fyrir drengjalið þar í borg og framganga stráksins var slík að Liverpool beið ekki boðanna og tryggði sér hæfileika hans þegar var á sextánda aldursári. Þegar goðsögnin Billy Liddell var að draga sig í hlé var hann spurður hvort að Liverpool hefði einhvern arftaka sem myndi halda merki hans á lofti og Liddell var ekki í vafa: "Það er 17 ára strákur sem heitir Ian Callaghan sem er fullfær um að taka við af mér". Callaghan spilaði sinn fyrsta leik aðeins sex dögum eftir 18 ára afmælisdag sinn gegn Bristol Rovers í 2. deild árið 1960 eftir að hafa leikið aðeins sex varaliðsleiki. Liverpool vann leikinn 4:0 en það var ekki aðalfréttin að leik loknum. Aðalfréttin var stórleikur Ian á hægri kantinum. Leikmenn Bristol réðu ekkert við Ian og líklega hefur leikmaður aldrei vakið aðra eins athygli í sínum fyrsta leik fyrir Liverpool. Þegar dómarinn flautaði til leiksloka stóðu rúmlega 37.000 áhorfendur á fætur og klöppuðu fyrir Ian. Ekki nóg með það heldur klöppuðu leikmenn beggja liða fyrir honum og dómarinn líka! Hann hafði einungis skrifað undir atvinnumannasamning sex vikum áður en þrátt fyrir að hafa sannað sig undir lok tímabilsins 1959-60 þá vildi Shankly fara varlega í hlutina. Rétt áður en næsta tímabil hófst keypti Shankly hægri kantmanninn Kevin Lewis og hringdi í Callaghan og lét hann vita að hann væri framtíðarmaður í þessari stöðu en hann ætti ekki víst sæti í byrjunarliðinu að svo stöddu. Kevin Lewis fór á kostum og skoraði 22 mörk í 36 leikjum og því varla hægt fyrir strákinn að kvarta. Næsta tímabil er Liverpool varð 2. deildarmeistari fékk hann hins vegar fleiri tækifæri og er Liverpool spilaði sitt fyrsta tímabil í efstu deild var hann orðinn fastamaður í liðinu og hélt þeirri stöðu næstu 15 árin.

Ian lék fyrri hluta ferils síns á hægri kantinum. Á árunum milli 1960 og 1970 lagði hann upp urmul af mörkum af hægri kantinum fyrir þá Roger Hunt og Ian St. John. Eitt það eftirminnilegasta var í úrslitum F.A. bikarsins 1965. Liverpool lék gegn Leeds og fór leikurinn í framlengingu. Roger Hunt kom Liverpool yfir en Billy Bremner jafnaði. Ian lagði upp sigurmarkið fyrir Ian St. John þegar hann lék upp að endamörkum og gaf fyrir á Skotann sem skoraði með glæsilegum flugskalla. Það mark tryggði Liverpool bikarinn í fyrsta skipti. Ian þurfti í aðgerð á hné 1970-71. Brian Hall tók stöðu hans á hægri kantinum og stóð sig vel. Sumir töldu daga Ian talda hjá Liverpool en Shankly hafði hugsað nýtt hlutverk handa honum. Bill setti Ian á miðjuna og þar lék hann til loka ferils síns.

Callaghan var eldfljótur, sterkur, duglegur og mjög hæfileikaríkur leikmaður. Hann æfði alltaf samviskusamlega og missti varla úr leik tímabil eftir tímabil. Hann var aldrei bókaður á ferlinum og var og er sannkallaður heiðursmaður innan vallar sem utan. Árið 1974 varð hann fyrsti leikmaður Liverpool til að vera kosinn knattspyrnumaður ársins og síðar hlaut hann MBE orðuna frá drottningunni. En eins skrítið og það er lék hann einungis 4 landsleiki fyrir Englands hönd. Hann var hluti af leikmannahópi Englands er hampaði heimsmeistaratign árið 1966 en þriðji landsleikur hans leit ekki dagsins ljós fyrr en ellefu árum síðar sem er met í enskri landsliðssögu. Callaghan var orðinn 35 ára gamall og nokkrir leikmanna Liverpool líklegir kandidatar í landsliðshópinn og kom því ekki á óvart er Ron Greenwood landsliðseinvaldur leit í heimsókn á Anfield. "Ég man eftir að ég sagði við Ronnie Moran að hann hefði ekki áhuga á að spjalla við mig þar eð ég hefði verið út úr myndinni svo lengi. En þegar ég var valinn í liðið ásamt sex öðrum leikmönnum Liverpool og hljóp út á völlinn í landsliðspeysunni fór sannarlega undarleg tilfinning um líkamann". Callaghan vann sinn fyrsta deildarmeistaratitill árið 1964 og vann síðan bikarinn og deildina á næstu tveimur árum.

Cally eins og hann var kallaður var kannski ekki eins leiftrandi leikmaður og Peter Thompson á vinstri kantinum en ekkert lið í England gat státað að sterkara kantpari í ensku deildinni. Hann vann þrjá meistaratitla til viðbótar, Evrópukeppni félagsliða tvisvar og fleiri aðra titla en hápunktinum var náð þegar hann varð Evrópumeistari er Liverpool lagði Mönchengladbach að velli í úrslitum Evrópukeppni meistaraliða í Rómarborg. Callaghan var þá eini leikmaðurinn í því sigurliði er hafði tekið þátt í fyrsta Evrópuleik í sögu félagsins gegn K.R. árið 1964. Ferli hans á Anfield lauk svo ári seinna en hann lagði skóna á endanlega á hilluna sem leikmaður Crewe Alexandra aðeins mánuði fyrir fertugsafmælið. Bob Paisley á varla orð til þess að lýsa hrifningu sinni í hans garð: "Ef allir leikmenn væru eins og Ian Callaghan þyrfti ekki að hafa framkvæmdastjóra yfir liðunum. Hann var frábær atvinnumaður en umfram allt framúrskarandi manneskja".

Látum Cally eins og hann var kallaður eiga lokaorðið: "Ég naut hverrar einustu mínútu á ferli mínum. Ég saknaði ekki bara kappleikjanna þegar ég hætti, heldur einnig ferðalagana og félagsskaparins. Þetta var frábært líf".

TIL BAKA