Evrópumeistarar 1977

Tommy Smith, Ian Callaghan og Phil Neal hampa Evrópubikarnum

Liverpool komst loks í úrslit Evrópukeppni meistaraliða tímabilið 1976-77. Liverpool hafði komist í undanúrslit 1965 en var þá slegið út af Inter með mjög vafasömum hætti. Dómarinn dæmdi óbeina aukaspyrnu sem fór í markið án þess að snerta nokkurn mann gott og gilt og annað mark þeirra kom eftir að leikmaður Inter hirti boltann af Tommy Lawrence þegar hann var að taka útspark.

Átta liða úrslit Evrópukeppninnar 1977 bauð upp á að margir telja eftirminnilegasta leik sem fram hefur farið á Anfield. Andstæðingarnir voru frönsku meistararnir St. Etienne sem höfðu borið sigur úr býtum á heimavelli 1-0. Stemmningin var ótrúleg þetta kvöld og leikurinn er oft nefndur þegar leikmenn eða aðdáendur Liverpool eru spurðir um eftirminnilegasta leik sinn. Það varð allt vitlaust á Anfield þegar Keegan skoraði innan tveggja mínútna. Í hálfleik fóru liðin af velli við dynjandi lófatak. En þegar voru aðeins sex mínútur liðnar af seinni hálfleik skoruðu Frakkarnir og nú var á brattann að sækja, Liverpool þurfti að skora tvö mörk til þess að komast í undanúrslit. Ray Kennedy kom Liverpool í 2-1 en það virtist ekki ætla að ganga upp að draga þriðja markið upp úr hattinum. David Fairclough sem hafði viðurnefnið "supersub" vegna þess hve oft hann reddaði málunum sem varamaður, var settur inná að venju. Þegar sjö mínútur voru eftir af leiktímanum átti Ray Kennedy háa sendingu inná vallarhelming Frakkanna upp á von og óvon. Fairclough hafði betur í baráttunni við aftasta varnarmanninn, tók á rás að markinu, hélt andstæðingi sínum í skefjum, skýldi boltanum af fagmennsku og renndi boltanum framhjá markverðinum sem var bjargarlaus. Staðan 3-1 og allt gjörsamlega trylltist á Anfield. Hinn hægláti endurskoðandi Eddie Marks sem hefur vanið komur sínar á Anfield í rúmlega 40 ár minnist þessa augnabliks sem algjörri töfrastund: "Ég hef aldrei vitað annað eins tilfinningaflæði á knattspyrnuvelli. Fólk faðmaði bláókunnuga og sumir föðmuðu kunnuga sem þeir þoldu ekki dags daglega en á þessari stundu skipti það engu máli. Þarna ríkti algjör ringulreið og ósvikin gleði. Hvernig David Fairclough gat verið svo rólegur þegar hann fékk þetta færi get ég ekki skilið. Ég hef aldrei séð boltann afgreiddan af svo miklu öryggi." Liverpool valtaði síðan 6-1 samanlagt yfir FC Zurich frá Sviss í undanúrslitum sem var öruggasti sigur í undanúrslitum keppninnar í 13 ár.

Liverpool - Mönchengladbach 3-1

Jimmy Case og Phil Neal kyssa bikarinn!

Liverpool hafði sett stefnuna á þrennuna 1977, sigur í deild, FA-bikar og Evrópukeppninni en Man Utd bar sigurorð af Liverpool í úrslitaleik bikarkeppninnar aðeins fjórum dögum áður en Liverpool hélt til Rómar til að mæta Borussia Mönchengladbach. John Toshack var ekki í nægilega góðu formi eftir að hafa verið meiddur og David Fairclough var því við hlið Keegan í framlínunni. Þetta var lokaleikur Kevin Keegan áður en hann fór til Hamborgar. Tommy Smith hafði einnig lýst því yfir að þetta væri svanasöngur hans en hætti svo við eftir leikinn. Hann hafði ekki verið fastur maður í liði Liverpool á tímabilinu en meiðsli Phil Thompson urðu til þess að hann fékk sitt tækifæri síðustu tvo mánuðina á tímabilinu og hann greip það fegins hendi og átti heldur betur eftir að setja svip sinn á þennan úrslitaleik í Róm.

Lið Liverpool var skipað: 1. Ray Clemence, 2. Phil Neal, 3. Joey Jones, 4. Tommy Smith, 6. Emlyn Hughes - 5. Ray Kennedy, 8. Jimmy Case, 10. Ian Callaghan, 11. Terry McDermott - 7. Kevin Keegan, 9. David Fairclough.

Gladbach var með firnasterkt lið og með leikmenn innanborðs eins og danska landsliðsmanninn Allan Simonsen og þýsku stjörnurnar Berti Vogts, Uli Stielike, Rainer Bonhof og Jupp Heynckes. Ray Clemence man glöggt eftir þessari stóru stund í sögu Liverpool: "Ég minnist þess sérstaklega þegar við skoðuðum völlinn klukkutíma fyrir leik og við höfðum búist um 9.000 Liverpoolaðdáendum en þá blasti við okkur rauðir og hvítir fánar sem þöktu hálfan leikvanginn. Það hafði mjög uppörvandi áhrif á leikmennina og það var engin leið að við myndum tapa þessum leik". Frægasti fáninn sem var án efa sá er vísaði í afrek bakvarðarins Joey Jones sem var kannski ekki sá hæfileikaríkasti en Kop tók ástfóstri við hann vegna þess að Joey var einn af þeim, Kopite af lífi og sál frá blautu barnsbeini: "Joey ate the Frog's legs, made the Swiss roll, now he's munching Gladbach."

Tommy Smith skorar annað mark LiverpoolHvorki meira né minna en 30.000 Púllarar fylgdu Rauða Hernum til Rómar. Þeir tjölduðu öllu til sem þeir áttu og sungu þeir svo hátt og dátt að engu var líkara en Liverpool væri að leika á Anfield.

We're on our way to Roma,
On the 25th of May,
All The Kopites will be singing,
Vatican bells they will be ringing,
Liverpool boys, they will be drinking -
When we win the European Cup.

Leikmenn Liverpool gengu á lagið og sérstaklega Keegan sem var óumdeilanlega besti maður vallarins. Liverpool reiddi fyrst til höggs á 27. mínútu. Heighway átti fullkomna sendingu á McDermott og hann skaut föstu skoti í mark utan úr teignum. Liverpool virtist hafa fullkomna stjórn á leiknum en þá urðu Case á slæm mistök er hann sendi boltann beint á Allan Simonsen sem þakkaði fyrir sig og skoraði með glæsilegu skoti rétt utan vítateigs. Fimm mínútum síðar var Stielike næstum því búinn að bæta öðru marki við en Clemence varði glæsilega og þá blés Liverpool til sóknar. Heighway tók hornspyrnu, glæsilegur bolti inn í teig þar sem enginn annar en miðvörðurinn Tommy Smith skallaði með þvílíkum þrumuskalla í markið að markvörðurinn stóð bara frosinn á línunni og sá greinilega ekki boltann fyrr en hann sigldi framhjá honum í netmöskvana. Sjö mínútum fyrir leikslok tók Keegan á rás, rauk framhjá einum Þjóðverja og sigldi inn í teiginn þar sem Vogts sá sér ekki annars úrkosti en að brjóta á honum. Víti var niðurstaðan sem Neal skoraði örugglega úr. Glæsilegur sigur var í höfn!

Sigursælasti framkvæmdastjóri Liverpool Bob Paisley og leikjahæsti maður í sögu Liverpool, Ian Callaghan fallast í faðma í leikslok

Veislan sem fylgdi í kjölfar sigursins í Rómarborg. gleymist seint. Aðdáendur Liverpool komust að því hvar leikmennirnir fögnuðu sigrinum í Róm og forráðarmenn félagsins sáu enga ástæðu til að vísa þeim í burtu. Þúsundir aðdáenda þustu inn í sigurveislu Liverpool og leikmenn og aðdáendur fögnuðu sigri saman langt frameftir nóttu.

Það var allt á tjá og tundri en einn maður sat í horninu hinn rólegasti og smakkaði ekki dropa. "Ég vildi drekka í mig andrúmsloftið og njóta hverrar einustu mínútu. Þetta var besta augnablik lífs míns.", sagði Paisley síðar.

TIL BAKA