)

Sami Hyypia

Hyypia sló rækilega í gegn á fyrsta tímabili sínu með Liverpool og hefur heldur betur fylgt þeim árangri eftir. Stórkostlega frammistaða hans í leiknum gegn Barcelona hefur verið rómuð hvarvetna enda á hann það fyllilega skilið og vil ég taka svo stórt upp í mig (eins og Jamie Carragher hefur reyndar þegar gert) að hann sé að verða einn besti varnarmaður Evrópu. Stakkaskiptin sem hafa orðið á vörninni eftir að hann og Stephane Henchoz tóku við miðvarðarstöðunum eru ótrúleg og það hefði örugglega enginn trúað því fyrir tveimur árum að liðið ætti á þessum tímapunkti eftir að halda hreinu tvisvar gegn Barcelona.

Gerard Houllier hefur skemmtilega sögu að segja af því hvernig til kom að hann keypti finnska snillinginn. "Það var auðveld ákvörðun að kaupa hann, en það skrítna er að ég gerði upp hug minn eftir að hafa séð hann í leik þar sem hann var alls ekki að spila sem varnarmaður! Hann lék þá sem varnartengiliður þar sem hann þurfti að senda boltann meira og sá leikur sýndi að hann kunni leikinn. Sami er gríðarlega sterkur í loftinu og verður sífellt stærri og sterkari. Stephane Henchoz er gríðarlega mikilvægur fyrir liðið líka. Ég er hrifinn af báðum miðvörðum mínum og þeir eru frábærir saman."

 

TIL BAKA