)

Gary McAllister

Það leikur enginn vafi á að Gary McAllister er maður vikunnar. Dramatískt sigurmark hans af 40 metra færi tryggði Liverpool þrjú mikilvæg stig gegn Everton.

"Gamli kallinn" var frábær í öllum leiknum og nánast eini maðurinn sem reyndi að halda einhverju spili gangandi innan liðsins meðan leikurinn leystist upp í baráttu erkifjendanna á milli. Hreint út sagt stórkostlegt augnablik þegar hann skoraði sigurmarkið og minnti tilfinningin á þegar Liverpool vann Newcastle tvívegis 4-3 með mörkum á lokamínútunni. Gary Mac var líka dálítið lúmskur eins og sýnt var á Sky Sports eftir leik vegna þess að brotið á Vignal átti sér stað aðeins meira miðsvæðis en kallinn læddist til að færa brotið aðeins meira til hliðar. Glæsileg tilþrif!

Gary McAllister var að sjálfsögðu í skýjunum eftir leik: "Eitt stig var okkur einskis nýtt og við þurftum á þrem stigum að halda eftir önnur úrslit dagsins. Ég hef skorað úr nokkrum aukaspyrnum í gegnum árin en þessi hlýtur að vera sú besta. Ég sá að markvörðurinn bjóst við fyrirgjöf svo að ég lét vaða þar sem markið var óvarið og hitti boltann fullkomlega. Skotið byggðist meira á nákvæmni frekar en krafti og hraða.

Þetta var sanngjarn sigur vegna þess að við lékum betri knattspyrnu. Everton stílaði á sínar sterkustu hliðar og gáfu sig alla í leikinn en þegar allt kemur til alls þá áttum við sigurinn fyllilega skilið."

 

TIL BAKA