)

Jari Litmanen

Það kom eilítið á óvart að Jari Litmanen tók vítaspyrnuna gegn Sunderland en ekki gömlu vítaskytturnar Owen og Fowler en þeir voru reyndar orðnir mistækir í því hlutverki. Litmanen hefur örugglega tekið nokkur víti á ferli sínum og Sörensen átti ekki möguleika að þessu sinni. Það er vissulega mikilvægur áfangi fyrir Litmanen að vera kominn með sitt fyrsta mark í treyju Liverpool þó að það hafi verið af vítapunktinum. Síðan Litmanen fór á kostum í 5-0 sigrinum á Palace, hefur hann leikið gegn Middlesbrough, Manchester City og Sunderland en lék ekki gegn Leeds og West Ham. Jan Molby, fyrrum miðjusnillingur Liverpool velti þessu fyrir sér fyrir Sunderland-leikinn: "Houllier veit hvað hann er að gera og ég er viss um að þetta hefur verið áætlað löngu áður. Í enska boltanum eru 3-4 fyrstu leikirnir nokkuð auðveldir en síðan rekstu á vegg vegna þess hve hraðinn er mikill. Houllier tók Litmanen því út til þess að koma honum í betra form. Hann hefur eftir allt saman ekki leikið einn einasta leik fyrir Barcelona á þessari leiktíð. Þegar hann snýr aftur í liðið mun hann verða betri leikmaður en sá sem við sáum í fyrstu leikjunum."
TIL BAKA