)

Luis Suarez

Á undanförnum árum hafa lesendur Liverpool.is valið Mann ársins í vefkosningu. Nú í janúar var sami háttur hafður á og dómur var upp kveðinn. Dómur lesenda kvað á um að Luis Suarez væri Maður ársins 2012 hjá Liverpool.
 
Það gekk þó sannarlega á ýmsu hjá Luis á árinu. Hann hóf það í leikbanni eftir að hafa verið fundinn sekur með réttu eða röngu fyrir að nota óviðeigandi orðbragð í garð Patrice Evra. Það mál var allt með ólíkindum og hvað svo sem hverjum fannst eða fannst ekki þá sat Luis í súpunni. Bannið var langt en það tjáði ekki að fást um það. Málið dró alls konar dilka á eftir sér lengi á eftir og skaðaði Luis og félag hans og setti hina og þess í erfiða aðstöðu. Ekki síst Kenny Dalglish og sá átti það ekki skilið fyrir að sýna Luis fullan en kannski of mikinn stuðning

Þegar Luis hafði afplánað það mætti hann harðskeyttur til leiks. Það var þó ekki allt búið enn hvað Patrice Evra varðaði. Þegar Liverpool og Manchester United mættust á Old Trafford fór allt í handaskolum í orðsins fyllstu merkingu. Luis og Patrice tókust ekki í hendur og sýndist sitt hverjum var að kenna. Hver stóð með sínum en Luis var hart dæmdur með réttu eða röngu. Mér fannst Luis að nokkru bregðast Kenny Dalglish, félögum sínum og félaginu. Hafi hann ekki hugsað sér að heilsa Frakkanum átti hann að greina frá því fyrirfram en ekki segjast ætla að að heilsa honum eins og hann gerði. Það var svo annað mál hvers vegna knattspyrnuyfirvöld létu mennina tvo þurfa að heilsast þegar öðrum hefur verið sleppt við það!

Það mátti öllum ljóst vera að allra augu voru á Luis í framhaldi af öllu þessu og öllu snúið gegn honum. Hann gat þó glaðst með félögum sínum á Wembley þegar Liverpool vann Deildarbikarinn eftir að hafa unnið sigur í vítaspyrnukeppni á móti harðsnúnu liði Cardiff. Flestir leikmenn Liverpool unnu sinn fyrsta titil og Luis var einn þeirra. 

Til vors skoraði Luis níu mörk og þrenna hans á móti Norwich var eftirminnileg og þá helst síðasta markið sem hann skoraði af löngu færi. Hann skoraði mikilvæg mörk á leið Liverpool til Wembley í F.A. bikarnum og magnað mark gegn Everton í undanúrslitum sneri leiknum Liverpool í vil. Hann náði sér þó ekki á strik í úrslitaleiknum á móti Chelsea frekar en flestir félagar hans. Alls skoraði Luis 17 mörk á leiktíðinni.  

Luis dró ekki af sér í sumar og lék með Olympíulandsliði Úrúgvæ sem ætlaði sér gull en það gekk ekki eftir. Kappinn lék ekkert sérstaklega á leikunum en þegar hann kom aftur til leiks til Liverpool var hann kominn í mikinn ham. Það var líka eins gott að hann var í ham því snemma í haust varð ljóst að hann yrði eini sóknarmaður Liverpool með einhverja reynslu fram á nýja árið.

Luis lék sem aldrei fyrr. Hvert markið rak annað og aftur skoraði hann þrennu á Carrow Road gegn Norwich. Aldrei hafði leikmaður í sögu Liverpool skorað þrennu á útivelli gegn sama liðinu tvær leiktíðir í röð. Eftir tvö mörk í 3:0 heimasigri á Wigan um miðjan nóvember var Luis orðinn markahæsti maður deildarinnar!

Hann var þó sem fyrr á milli tanna á andstæðingum innan vallar sem utan. Sjálfur bætti hann ekki orðspor sitt til að byrja með og skammarlegt fall inn í vítateig í markalausum leik við Stoke á Anfield varð heldur með umræðuefni. Honum var líka refsað ef svo mætti segja af dómurum í fjölmörgum leikjum þegar hann fékk varla dæmda aukaspyrnu hvað þá víti hvaða brögðum sem andstæðingar beittu! En Luis bætti ráð sitt, hélt sínu striki og á næst síðasta degi árins endaði hann erfitt ár með tveimur góðum mörkum í 0:3 sigri. Þar með var hann kominn með 16 mörk á leiktíðinni og aðeins einu færra en alla þá síðustu!    

Það er ekki loginu fyrir að fara þar sem Luis fer. Það verður ekki tekið af honum að hann var frábær á árinu þó svo að hann hafi brugðist sér og sínum í stóra handabandsmálinu. Hvað sem hverjum finnst um Úrúgvæjann þá verður ekki annað sagt en að hann sé leikmaður í heimsklassa og slíkir menn eru ekki á hverju strái!

Sf. Gutt.

Hér eru niðurstöður í kjöri á Manni ársins fyrir árið 2012.
 
Luis Suarez 67%

Kenny Dalglish 16%

Steven Gerrard 7%

Brendan Rodgers 4%

Martin Skrtel 4%

Einhver annar en þeir sem hér eru fyrrnefndir. 2% 

Heildarfjöldi greiddra atkvæða í kjörinu var: 895.

Maður ársins hjá Liverpool 2011
- Kenny Dalglish.

Maður ársins hjá Liverpool 2010 - Jose Reina.

Maður ársins hjá Liverpool.is 2009 - Jose Reina.

Maður ársins hjá Liverpool.is 2008 - Fernando Torres.

Maður ársins hjá Liverpool.is árið 2007 - Steven Gerrard. 

Maður ársins hjá Liverpool.is árið 2006 - Steven Gerrard.

Maður ársins hjá Liverpool.is árið 2005 - Rafael Benítez.



TIL BAKA