)

Fernando Torres

Spánverjinn hefur gengið berserksgang í síðustu leikjum Liverpool. Í tveimur leikjum, í seinni hluta september, skoraði hann fimm mörk. Þar með var hann orðinn markahæsti maður Úrvalsdeildarinnar. Það er því óhætt að segja að Fernando hafi haldið áfram þaðan sem frá var horfið á síðustu tveimur keppnistímabilum.

Það er alltaf að koma betur og betur í ljós hvers konar kjarakaup Rafael Benítez gerði þegar hann keypti Fernando Torres. Hann kostaði rúmlega 20 milljónir sterlingspunda og hafði Liverpool aldrei eytt hærri upphæð í einn leikmann. Það varð þó fljótlega ljóst að Liverpool hafði gert góð kaup. Þeir sem efuðust um hæfileika Fernando hættu því smá saman þegar leið á leiktíðina og í lok hennar sögðu mörkin hans 33 sína sögu. Útlendingur hafði aldrei skorað fleiri mörk á sínu fyrsta keppnistímabili á Englandi. Síðasta keppnistímabil skilaði svo 17 mörkum sem var gott miðað við að hann missti nokkuð úr vegna meiðsla.

Mörgum fannst að Fernando væri dauflegur í fyrstu leikjum þessarar sparktíðar en í lok september var hann samt búinn að skora átta mörk! Mörkin hans tvö gegn West Ham United á Upton Park, þegar Liverpool vann 3:2, vöktu mikla athygli og þá sérstaklega það fyrsta sem var hreint út sagt frábært. Í næsta leik sínum skoraði hann svo þrennu gegn Hull City þegar Liverpool vann 6:1. Líklega eiga varnarmenn Hull eftir að minnast leiksins lengi og þess hvernig Fernando fór með vörnina. Enn sýndi Fernando fjölhæfni sína því þau mörk voru allt öðruvísi en mörkin gegn West Ham.

Fernando Torres fékk mikið hrós eftir þessa tvo leiki og einn þeirra sem hrósuðu honum mest var Rafael Benítez sem er nú reyndar ekki vanur að hrósa mönnum í tíma og ótíma. Rafa telur að Fernando geti orðið enn betri en hann er nú þegar orðinn. Vonandi hefur hann rétt fyrir sér hvað það varðar. 

"Hann getur orðið enn betri. Hann er búinn að spila mjög vel í síðustu þremur leikjum. Einbeitingin, hversu duglegur hann er og hreyfanleiki hans sýna hversu miklum hæfileikum hann býr yfir."

"Ég held samt að hann geti gert betur. Það sem ræður úrslitum um hversu leikmaður getur orðið góður er hvernig hugarfar hans er. Ég hef alltaf sagt það sama um hann. Hann vill læra meira og meira. Það er lykilatriði og vegna þess á hann eftir að verða betri. Hversu mikið hann á eftir að bæta sig er undir honum sjálfum komið."

Sf. Gutt. 


 
TIL BAKA