)

Sami Hyypia

Finnski meistarinn Sami Hyypia hefur yfirgefið Musterið eftir að hafa staðið vaktina í áratug. Á þeim tíma ávann hann sér það sem alla leikmenn dreymir um frá stuðningsmönnum þess félags sem þeir spila með. Sami ávann sér ómælda virðingu stuðningsmanna Liverpool. Hann öðlaðist ekki bara virðinguna fyrir að spila eins og herforingi í vörn Liverpool. Virðinguna hlaut hann líka fyrir að vera góð fyrirmynd og fulltrúi Liverpool F.C. innan vallar sem sem utan.

Það voru ekki margir sem vissu hver þessi Finni var þegar tilkynnt var um kaup Liverpool á Sami Hyypia sumarið 1999. Hann sýndi þó strax frá byrjun að það var rétt ákvörðun  hjá Gerard Houllier að kaupa hann. Alla tíð frá fyrsta leik hefur Sami staðið sig frábærlega. Hann varð strax kjölfesta í hjarta varnar Liverpool og samvinna hans og Stephane Henchoz bætti varnarleik Liverpool til mikilla muna. Nú tíu árum seinna hefur Sami ákveðið að söðla um og ganga til liðs við Bayer Leverkusen í Þýskalandi.

Kveðjustundin var á Anfield Road þegar Liverpool tók á móti Tottenham Hotspur í síðasta leik keppnistímabilsins. Áður en leikurinn hófst sýndi The Kop myndverk sem myndaði nafn Sami á grunni finnska þjóðfánans. Sami var varamaður en nafn hans var kyrjað reglulega frá upphafi leiks. Þegar leið á leikinn fóru stuðningsmenn Liverpool að biðja Rafael Benítez að setja Sami inn á. Sú beiðni fékk hljómgrunn og Sami lék síðustu mínútur leiksins. Þegar flautað var til leiksloka tóku tilfinningarnar völdin og Sami brast í grát. Stuðningsmennirnir hylltu leikmann sem er nú talinn meðal goðsagna þessa merka félags. Félagar hans hylltu Sami líka og hann var borinn á gullstól. Fáir leikmenn hafa verið kvaddir eins innilega á seinni árum.

Það má skrifa margt um Sami Hyypia en nú við leiðarlok er rétt að láta hann sjálfan eiga síðustu orðin. Þetta viðtal birtist á Liverpoolfc.tv. þegar Sami var búinn að ákveða að yfirgefa Liverpool.

Sami, til að byrja með þá eru margir stuðningsmenn félagsins um allan heim sorgmæddir vegna þess þú ert að fara frá Liverpool. Hvers vegna ákvaðst þú að fara til Bayer Leverkusen?

Aðalástæðan er sú að mér finnst ég enn nógu ungur til að spila knattspyrnu og ég mat það svo að ég myndi ekki fá að spila mikið hérna. Ég ræddi þetta við framkvæmdastjórann og ég vildi ekki að hann myndi gefa mér einhver loforð um að ég fengi að spila einhvern ákveðinn fjölda leikja. Þessi leiktíð hefur verið andlega erfið fyrir mig því ég hef ekki spilað mikið en það finnst mér skemmtilegast. Ég veit að ég get ekki spilað nógu mikið hérna svo ég verði ánægður. Þess vegna ákvað ég að horfa í kringum mig og ég fékk kost á að fara úr landi og semja við Bayer Leverkusen. Það sem þeir buðu mér hentaði mér vel. Þeir ætla mér stórt hlutverk og ég vona að ég geti stuðlað að velgengni félagsins.
 
Þetta eru sem sagt ástæðurnar fyrir brottför þinni. Var samt erfitt fyrir þig að taka þessa ákvörðun?

Það var mjög erfitt því mér hefur verið tekið svo vel frá fyrsta degi mínum hérna. Ég hef átt góð samskipti við félagið, starfsfólk þess og alla leikmennina sem ég hef spilað með síðustu tíu árin. Það verður erfitt að yfirgefa félagið en ástæðurnar fyrir því að ég er að fara eru allar faglegs eðlis. Ég vil einfaldlega spila knattspyrnu áfram. Tíu ár eru langur tími fyrir leikmann að vera hjá sama félaginu. Fjölskyldan mín er orðin heimavön hér og ég veit að það fylgir því álag að flytja í nýtt hús í nýju landi. En þessi ákvörðun snerist um knattspyrnu. Þetta verður ný áskorun fyrir mig og ég mun leggja mig allan fram svo dvöl mín í Þýskalandi verði árangursrík.

Hvað sagði framkvæmdastjórinn í viðræðum ykkar?

Hann óskaði mér góðs gengis. Við ræddum nokkrum sinnum saman og það var nefnt að ég færi að þjálfa hérna. Mér fannst þó að ég væri ekki tilbúinn í það ennþá sem komið er. Mér fannst að ég gæti spilað nokkur ár í viðbót.

Núna ert þú búinn að vera hérna í einn áratug. Þú hlýtur að eiga margar góðar minningar frá þeim tíma hjá félaginu.

Jú, það hefur gengið upp og ofan á meðan ég var hérna en ég á svo margar góðar minningar héðan. Liverpool verður alla tíð félagið mitt á Englandi.

Hver var hápunkturinn á ferli þínum hjá félaginu?

Það var auðvitað alveg ótrúlegt að vinna Meistaradeildina. Ég mun aldrei gleyma því afreki að hafa unnið eftir að hafa lent 3:0 undir. En ef ég á að nefna eitthvað sem tengist mér sérstaklega þá myndi ég nefna fyrsta leikinn minn sem var á útivelli gegn Sheffield Wednesday. Svo gæti ég nefnt fyrsta leikinn minn á Anfield og fyrsta markið sem ég skoraði fyrir Liverpool. Þessu öllu gleymi ég aldrei.



Samband þitt við stuðningsmenn Liverpool hefur verið frábært í gegnum árin. Heldur þú að þú eigir eftir að sakna þeirra?


Auðvitað á ég eftir að sakna þeirra mikið og mig langar að nota þetta tækifæri til að þakka þeim öllum. Þeir syngja ennþá nafnið mitt þegar ég er að hita upp eða þá þegar ég spila. Það er alltaf gott að heyra í þeim. Það á eftir að fylgja því söknuður að fara en ég mun koma aftur til að horfa á leiki og þá fæ ég kannski tækifæri til að sjá stuðningsmennina aftur.

Ertu að vonast til að fá tækifæri til að kveðja stuðningsmennina á síðasta leikdegi gegn Tottenham?
Framkvæmdastjórinn mun taka þá ákvörðun. En þó að ég muni ekki spila þá ætla ég að lauma mér inn á völlinn þegar leiknum lýkur. Þó svo að vallarstjórinn reyni að stoppa mig þá ætla ég að stinga hann af! En ég er viss um að ég fæ tækifæri til að kveðja.

Þú sagðir að þú teldir þig ekki tilbúinn að fara að þjálfa. Dreymir þig um að þjálfa í framtíðinni og er möguleiki á að þú snúir aftur til Liverpool sem þjálfari einn góðan veðurdag?

Já, vonandi. Ég hef alltaf haft áhuga á þjálfun en ég þarf að taka þjálfarapróf fyrst. Ég ætla að læra til þjálfara þegar ég hætti að spila. Svo sé ég bara til en ég myndi gjarnan vilja koma til baka hingað og þjálfa.

Verður þetta félag þér ekki alltaf hjartfólgið?

Já, þetta félag verður alltaf í hjarta mínu.

Sami Hyypia lék síðasta leik sinn með Liverpool í 3:1 sigri á Tottenham Hotspur í síðustu umferð deildarinnar. Sami lék 464 leiki með Liverpool frá 1999 til 2009 og skoraði 35 mörk.

Sf. Gutt.

TIL BAKA