)

Yossi Benayoun

Þeir eru ekki margir leikmennirnir sem eiga það á ferilskrá sinni að hafa skorað sigurmark í Evrópuleik á Santiago Bernabeau leikvanginum í Madríd. Yossi Benayoun afrekaði þetta að kveldi öskudags þegar hann skoraði eina markið í fyrri leik Liverpool og Real Madrid í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Á 82. mínútu fékk Liverpool aukaspyrnu hægra megin við vítateig Real. Fabio Aurelio gaf frábæra sendingu fyrir markið beint á höfuðið á Yossi Benayoun sem skallaði í markið. Yossi og félagar fögnuðu innilega enda ekki amalegt af hafa náð forystu á Santiago Bernabeau. Markið kom flestum í opna skjöldu og ekki síst fyrir þá staðreynd að Yossi skyldi skora með skalla! Leikmenn Real náðu ekki að ógna marki Liverpool og Rauði herinn fagnaði sigri þegar flautað var til leiksloka! Sigurinn var fyrir öllu en persónulega þá gat Yossi fagnað því að vera kominn í hóp fárra leikmanna sem hafa skorað sigurmark í Evrópuleik á hinum magnaða leikvangi Real Madrid. ,,Að sjálfsögðu er ég ánægður með að hafa skorað svona mikilvægt mark. Aðalatriðið var þó að vinna vegna þess að þetta voru frábær úrslit fyrir okkur."

Ísraelsmaðurinn hefur ekki leikið jafn stórt hlutverk hjá Liverpool á þessari leiktíð og þeirri síðustu sem var hans fyrsta hjá Liverpool. Markið í Madríd var þriðja mark hans á leiktíðinni en á síðustu leiktíð skoraði hann ellefu mörk. Lengi framan af leiktíð náði hann ekki að festa sig í sessi í byrjunarliðinu en núna síðustu vikurnar hefur hann verið meira með. Rafael Benítez hefur verið ánægður. "Yossi er snjall leikmaður og hann hefur verið að spila vel. Það er stundum erfitt að finna svæði í leikjum og þá geta hreyfanlegir og snjallir leikmenn skipt sköpum. Hann er búinn að spila mjög vel með okkur í síðustu leikjum."

Yossi er hæfileikaríkur og skapandi leikmaður. Vissulega hefur hann ekki náð að sýna hvað í honum býr lengst af þessarar leiktíðar. En hann eins og fleiri leikmenn þurfa að fá að spila reglulega til að koma sér í gang og sýna stöðugleika. Yossi hefur sýnt að hann getur skipt sköpum í leikjum og hver veit nema hann eigi eftir að gera það oftar en hingað til það sem eftir lifir leiktíðar. Hann mun þó alltaf geta rifjað upp markið í Madríd sem verður hugsanlega eitt mikilvægasta mark Liverpool á þessu keppnistímabili.

Sf. Gutt.

 

 

TIL BAKA