)

Gary McAllister

Gary McAllister kom, sá og sigraði gegn Coventry um helgina. Hann skoraði fyrsta mark leiksins með góðu skoti og lagði síðan upp mark fyrir Gerrard og Heskey. Markið hans McAllister var hans fyrsta í deildinni og var afar viðeigandi að það skyldi koma gegn hans gömlu félögum. Gary er orðinn gamall í hettunni en það leynist engum að það er virkilegur munur á frammistöðu liðsins þegar hans nýtur ekki við. Yfirvegun hans og leikgleði hefur jákvæð áhrif á samherja hans og þeir fyllast sjálfstrausti að hafa þennan reynslubolta með sér í liði. Margur Púllarinn hefur bent á að Liverpoolliðið komst ekki almennilega á skrið fyrr en eftir 3-0 tapið gegn Chelsea þegar Berger og Fowler komu aftur inn í liðið en það má ekki gleyma að þá kom McAllister aftur til starfa eftir að hafa staðið við hlið konu sinnar sem barðist við brjóstakrabbamein. Nú er Berger úr leik og þar með farinn sá leikmaður sem leggur upp allajafna flest mörk Liverpool en áhyggjurnar af fjarveru hans eru ekki eins miklar þegar Gary Mac nýtur við.
TIL BAKA