)

Fernando Torres

"Strákurinn" hefur sannarlega staðið undir væntingum stuðningsmanna Liverpool það sem af er ferli hans hjá Liverpool. Voru þó væntingarnar miklar! Margir töldu að Fernando myndi eiga á brattann að sækja hjá Liverpool. Þar væri allt sem nýtt fyrir Spánverja sem aldrei hafði leikið nema á Spáni og það með sama liðinu þar.

Nú heyrast engar efasemdaraddir lengur. Það er frekar að knattspyrnuáhugamenn telji að Liverpool hafi gert kjarakaup. Nú undir áramót er Fernando Torres búinn að skora fimmtán mörk fyrir Liverpool og það í aðeins tuttugu og tveimur leikjum. Níu markanna eru deildarmörk og miðað við framgöngu þessa snjalla Spánverja má ímynda sér að hann geti farið nærri því að skora tuttugu deildarmörk. Það er alltof langt um liðið frá því sóknarmaður Liverpool náði að skora svo mörg deildarmörk.

Það þarf því ekki að undra að stuðningsmenn Liverpool hafi Fernando Torres í hávegum. Hann hefur sýnt að hann er leikmaður í hæsta gæðaflokki. Nokkur marka hans hafa verið snilldarleg og það er ekki að undra að The Kop kalli nafn hans á sama hátt og Ian St John, Kenny Dalglish og Robbie Fowler. Það á eftir að koma í ljós hvort Fernando Torres nær að leika einhver af helstu afrekum þeirra eftir. En "Strákurinn" lofar góðu og það mjög góðu!

Sf. Gutt.

 

 

TIL BAKA