)

John Arne Riise

John Arne Riise náði þeim merka áfanga á dögunum, þegar Liverpool lék gegn Wigan, að leika sinn þrjúhundraðasta leik með Liverpool. Það er nokkuð mikið afrek að ná þessum leikjafjölda og sem dæmi um það þá hafa aðeins fimmtíu og fimm leikmenn Liverpool spilað þetta marga leiki. Norðmaðurinn er því sannarlega búinn að standa fyrir sínu hjá Liverpool.

Norðmaðurinn kraftmikli kom óþekktur til Liverpool sumarið 2001 frá Monaco í Frakklandi. Kaupverðið voru fjórar milljónir sterlingspunda. Koma hans til Englands var ekki slétt og felld. Hann var á leið til Fulham en snerist hugur þegar þrefaldir bikarmeistarar Liverpool blönduðu sér í málið. Gerard Houllier og aðrir forráðamenn Liverpool töluðu John Arne og mömmu hans, sem þá var líka umboðsmaður hans, til og sá norski samdi við Liverpool. Segja má að alla tíð síðan hafi John Arne verið fastamaður í liði Liverpool. Hann hefur kannski ekki fengið mikla samkeppni í stöðu vinstri bakvarðar frá því hann kom til félagsins. Reyndar myndu sumir segja að hann hefði þurft að fá meiri samkeppni en þeir leikmenn sem hafa getað leikið þá stöðu hafa ekki náð að ryðja honum úr vegi.

Rafael Benítez hefur álit á John Arne og í janúar fyrir ári gerði John Arne samning við Liverpool til ársins 2009. Rafael sagði þá þetta. "Ég er hæstánægður með að John sé búinn að gera nýjan samning við okkur. Hann er einbeittur leikmaður, mikill fagmaður og hefur mikinn skapstyrk. Hugarfar hans er eins og best verður á kosið. Hann er duglegur að æfa sig og leggur hart að sér á hverjum degi. Hann hefur alltaf staðið sig vel hjá Liverpool hvort heldur sem hann hefur leikið sem vinstri bakvörður eða vinstra megin á miðjunni."

John Arne Riise gat ekki byrjað feril sinn hjá Liverpool. Eftir aðeins þrjá leiki var hann búinn að vinna sér inn tvo verðlaunapeninga! Hann varð Skjaldarhafi í sínum fyrsta leik þegar Liverpool vann Manchester United 2:1 í Cardiff í ágúst 2001. Síðar í mánuðinum varð hann Stórbikarmeistari þegar Liverpool vann Bayern Munchen 3:2 í Mókakó. Í þeim leik skoraði John Arne fyrsta mark sitt með Liverpool og það var vel við hæfi að það skyldi koma á gamla heimavellinum hans. Síðan hefur John Arne unnið fimm titla með Liverpool. Hann varð Deildarbikarmeistari 2003, Evrópumeistari 2005 og svo vann hann Stórbikarinn í annað sinn það sama ár. Á síðasta ári vann hann F.A. bikarinn. Hann skoraði þá eitt marka Liverpool í vítaspyrnukeppninni gegn West Ham United. Hann varð svo Skjaldarhafi í annað sinn í ágúst á liðinu sumri. John Arne skoraði þá fyrra mark Liverpool eftir frábæran einleik þegar Liverpool vann Chelsea 2:1.

Sem fyrr segir hefur John Arne nú leikið 300 leiki fyrir hönd Liverpool. Hann er nú fjórði leikjahæsti af núverandi leikmönnum Liverpool. Í þessum 300 leikjum hefur hann skorað 31 mark. Mörg markanna hafa verið eftirminnileg enda skorar John Arne eiginlega aldrei mörk nema með þrumuskotum og þá helst utan vítateigs. Það á vel við hann að segja að hann sé þekktur fyrir sín þrumuskot. Aðeins tveir núverandi leikmenn Liverpool hafa skorað fleiri mörk fyrir félagið. John Arne hefur líka verið verðugur fulltrúi þjóðar sinnar og hefur leikið 60 landsleiki fyrir Norðmenn. Í þeim hefur hann skorað fimm mörk. John Arne hefur verið mjög vinsæll í Álasundi þar sem hann hóf sinn feril. Fyrir utan heimavöll Álasunds er sögð vera stytta af kappanum. Ekki hef ég þó séð hana á mynd en hún mun vera til!

John Arne Riise hefur stundum verið svolítið umdeildur meðal hluta stuðningsmanna Liverpool. Þessir stuðningsmenn telja hann einfaldlega ekki vera nógu góðan leikmann fyrir Liverpool. Vissulega á hann oft misjafna leiki en eftir stendur þó að John Arne hefur verið fastamaður í liði Liverpool í sex leiktíðir. Það segir líka sína sögu að aðeins fjórir útlendingar hafa leikið fleiri leiki fyrir Liverpool í sögu félagsins!

Sf. Gutt.


TIL BAKA