)

Peter Crouch

Peter Crouch er sannarlega búinn að vera betri en enginn í síðustu leikjum. Risinn er búinn að skora fimm mörk í síðustu fjórum leikjum og nálgast nú tuttugu marka múrinn. Sem stendur er Peter búinn að skora átján mörk á þessari leiktíð og hann er lang markahæastur leikmanna Liverpool. Mörkin hans hafa ekki bara verið mikilvæg heldur líka falleg. Hver man ekki eftir bakfallsspyrnum hans gegn Galatasaray og Bolton?

Nú heyrast varla nokkrar gagnrýnisraddir um þennan seiga strák. Framan af ferli sínum með Liverpool lá hann undir ámæli. Það var svo sem ekkert skrýtið því hann náði jú ekki að skora fyrr en komið var fram í desember. Nú er öldin önnur.

Ef allt er skoðað þá verður ekki annað sagt en að Peter Crouch hafi fyllilega staðið undir þeim væntingum sem til hans voru gerðar þegar hann gekk til liðs við Liverpool. Reyndar mætti segja að menn hafi kannski ekki haft mjög háar væntingar til hans því margir stuðningsmenn Liverpool voru nú ekkert yfir sig hrifnir af því að fá þennan leikmann til liðsins. Eftir erfiða byrjun svaraði hann fyrir sig með þrettán mörkum og gullverðlaunapeningi fyrir sigur í F.A. bikarkeppninni.

Peter hóf svo þessa leiktíð með því að tryggja Liverpool Skjöldinn með sigurmarki gegn Chelsea. Hann hefur verið markahæsti leikmaður Liverpool alla leiktíðina en nú í kringum páskana hefur hann farið á kostum. Fyrsti skoraði hann fullkomna þrennu gegn Arsenal í 4:1 sigri. Risinn bætti við einu marki þegar Liverpool vann 3:0 útisigur á PSV Eindhoven í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Enn bætti hann við þegar hann skoraði þriðja mark sitt á leiktíðinni gegn PSV þegar Liverpool gulltryggði sæti sitt í undanúrslitum Meistaradeildarinnar með 1:0 sigri á hollensku meisturunum í seinni leik liðanna. Ekki nóg með það heldur lagði Peter upp mark fyrir Álvaro Arleboa þegar Liverpool vann Reading 2:1 laugardaginn fyrir páska. Peter sýndi þá að hann hefur mjög gott auga fyrir samspili þegar hann gaf frábæra sendingu á Spánverjann. Það er nefnilega mikið spunnið í Peter Crouch sem knattspyrnumann. Hann skorar ekki bara mörk og leggur þau upp. Peter býr yfir góðri boltatækni og leikskilningur hans er í besta lagi. Af og til er rætt um að Peter Crouch sé til sölu. En miðað við framgöngu hans á þessari leiktíð kæmi það mjög á óvart ef Peter myndi klæðast einhverjum öðrum búningi en Liverpool þegar næsta leiktíð hefst.

Það er því ekki að undra að Peter sé ánægður hjá Liverpool. "Ég vil alls ekki fara frá Liverpool. Leiðin liggur bara niður á við ef maður fer frá Liverpool. Ég nýt þess að vera hérna hjá liði sem er eitt af fjórum sterkustu liðunum, á möguleika að spila í Meistaradeildinni á hverju ári og heldur áfram að berjast um titla. Ég held líka að hér sé að mótast frábært lið sem með hjálp nýju eigendanna geti virkilega gert atlögu að enska meistaratitlinum á næstu árum. Ég vil vera hluti af því liði."

Sf. Gutt.

 

 

TIL BAKA