)

Harry Kewell

Það voru eiginlega allir búnir að afskrifa Harry Kewell en nú hefur hann náð sér á strik og verið fastamður í liði Liverpool sem hefur leikið frábærlega að undanförnu. Fáir leikmenn heilluðu stuðningsmenn annarra liða meira en Ástralinn Harry Kewell þegar hann var upp á sitt besta hjá Leeds United. Þessum kraftmikla strák virtist ekki ómögulegt. Stuðningsmenn Liverpool báru því miklar væntingar til Harry þegar hann kom til Liverpool sumarið 2003. Ekki dró það úr væntingunum að Harry fékk hina heilugu tölu 7 á bakið. Fyrsta leiktíð hans gekk nokkuð vel. Að minnsta kosti til að byrja með. Gerard Houllier festi hann þó ekki í neinni ákveðinni stöðu. Harry lék ýmist á vinstri kanti eða þeim hægri. Fyrstu mánuðirnir lofuðu sannarlega góðu og Harry skoraði nokkur falleg og mikilvæg mörk. Undir jól 2003 lenti hann í meiðslum og þá má segja að fall hans hafi hafist.

Þó fór málið fyrst að versna á fyrstu stjórnartíð Rafael Benítez. Það var þó ekki þannig að Spánverjinn hefði ekki trú á Harry. Það var einfaldlega þannig að Harry náði sér bara alls ekki á strik. Hann var reyndar mikið frá vegna meiðsla og þau voru honum fjötur um fót. Nokkrum sinnum virtist allt líta út fyrir að meiðslin væru að baki en þá tóku þau sig upp aftur. Þessi meiðslamál Ástralans voru farin að vera óskiljanleg og stuðningsmenn Liverpool botnuðu ekki neitt í neinu. Rafael setti Harry nokkuð óvænt í byrjunarliðið í úrslitaleik Deildarbikarsins gegn Chelsea. Þar fékk Harry gott tækifæri til að láta ljós sitt skína. En hann fór meiddur af leikvelli í upphafi síðari hálfleiks. Liverpool tapaði leiknum 3:2 eftir framlengingu og Harry var einn leikmanna Liverpool sem var gagnrýndur eftir leikinn. Aftur sýndi Rafael Harry mikið traust þegar hann valdi liðið sem skyldi spila úrslitaleikinn um Evrópubikarinn gegn AC Milan í Miklagarði. Harry var valinn í byrjunarliðið og kom val hans mjög á óvart. Ekki gekk þessi úrslitaleikur betur fyrir Harry en sá gegn Chelsea í Deildarbikarnum. Strax á fyrstu mínútunum meiddist Harry og á 23. mínútu skipti hann við Vladimir Smicer. Stuðningsmönnum Liverpool var ekki skemmt. Margir gerðu Harry að blóraböggli þegar flautað var til hálfleiks og leikurinn virtist tapaður. Þeim fannst Harry einfaldlega hafa brugðist. Allir vita hvaða þátt Vladimir Smicer átti í Kraftaverkinu í Istanbúl. Harry fagnaði honum ótrúlega sigri Liverpool með félögum sínum eftir leikinn en hann sagði síðar að þessi kvöldstund hefði í senn verið sú besta og versta á ferli sínum.

Þegar komið var að byrjun þessarar leiktíðar var staðan einfaldlega orðin þannig að allir voru búnir að afskrifa Harry. Þó leyndist einn maður sem hafði trú á Ástralanum og hann stóð þétt við bakið á honum. Þetta var Rafael Benítez. Hann sagði að Harry væri það góður að hann myndi gera allt til að koma honum af stað á nýjan leik. Harry tók sér góðan tíma til að reyna að losa sig við meiðslin sem hann varð fyrir í Istanbúl. Harry sagðist vera búinn að fá nóg af meiðslum og sagðist ekki ætla að koma aftur of snemma til leiks. Hann lék ekki sinn fyrsta leik fyrr en í seinni hluta október þegar Liverpool vann Anderlecht 1:0 í Brussel. Leikjunum fór smá saman fjölgandi fram til jóla. Stuðningsmenn Liverpool höfðu enn efasemdir en Rafael hafði enn trú á Ástralanum. ,,Ég er ekki einn af þeim stjórum sem segir. Ég hef sýnt þér traust, nú skalt þú sýna mér eitthvað. Harry er atvinnumaður og hann veit að hann verður að gera sitt besta fyrir stuðningsmennina. En það mikilvægasta er hann geri það sem er best fyrir hann sjálfan."

Sjálfstraust Harry virtist aukast mikið við að ná að hjálpa Áströlum við að komast í úrslitakeppni heimsmeistarakeppninnar í Þýskalandi. En endurkoma hans með Liverpool virtist hefjast í þriðja úrslitaleiknum sem Rafael valdi hann til að byrja í. Harry var besti maður Liverpool þegar liðið mátti þola ósanngjarnt tap 1:0 gegn Sao Paulo í úrslitaleik Heimsmeistarakeppni félagsliða í Japan. Allt frá þessum leik hefur Harry verið fastamaður í liði Liverpool. Hann hefur leikið æ betur og skorað þrjú falleg mörk. Tvö þeirra, gegn Tottenham og Manchester City, hafa verið sigurmörk. Harry er því farinn að njóta lífsins á nýjan leik. ,,Mér finnst frábært að vera farinn að spila aftur reglulega svo að ég geti einbeitt mér bara að boltanum. Ég nýt þess á ný að leika fótbolta. Ég stend í þakkarskuld við framkvæmdastjórann fyrir að styðja mig á meðan aðrir létu mig fá það óþvegið. Ég vil gjarnan endurgjalda greiðann. Aðdáendur Liverpool hafa örugglega átt erfitt með að umbera mig og ég vil líka standa mig fyrir þá. Það er frábært að heyra þá styðja nú við bakið á mér. Það er ennfremur frábært að geta leikið án þess að finna til sársauka."

Trúmennska Rafael Benítez hefur nú skilað sér og Spánverjinn er ánægður. ,,Harry æfir af miklum krafti á hverjum degi og það skilar sér í leikjunum. Meiðslin eru ekki að hrjá hann lengur og hann er nú farinn að spila eins og hann gerði áður en þau dundu yfir.“ Stuðningsmenn Liverpool eru smá saman að taka Harry í sátt og hann er nú farinn að leika eins og væntingar stuðningsmanna Liverpool stóðu til. Vissulega getur Harry leikið betur en hann er samt búinn að vera einn af bestu leikmönnum Liverpool síðustu vikurnar.

Sf. Gutt.

TIL BAKA