)

Jerzy Dudek

Líkt og Bruce Grobbelaar árið 1984 þá varð Jerzy Dudek hetja Liverpool í Evrópuúrslitaleik. Báðir dönsuðu á marklínunni með góðum árangri. Bruce komst í sögubækurnar fyrir dansspor sín á marlínunni í vítaspyrnukeppni í Róm vorið 1984. Liverpool og Roma skildu þá jöfn 1:1 eftir framlengdan leik. Í vítaspyrnukeppninni héldu leikmenn Liverpool ró sinni, þrátt fyrir að Steve Nicol tækist ekki að skora úr fyrstu spyrnu liðsins, á meðan Bruce virtist setja Ítalina út af laginu. Liverpool vann vítaspyrnukeppnina 4:2. Þeir Phil Neal, Graeme Souness, Ian Rush og Alan Kennedy skoruðu fyrir Liverpool. Bruce fékk mikið hrós eftir leikinn. En samt varði hann hvoruga af þeim tveimur vítaspyrnum sem Roma misnotaði! En dansspor hans virtust taka spyrnumenn Roma á taugum og þau urðu að einni af þjóðsögunum í annálum Liverpool.

Það var því ef til vill ekki að undra að Jamie Carragher skyldi minna Jerzy Dudek á það sem Bruce gerði í Róm þegar Pólverjinn bjó sig undir vítaspyrnukeppnina í Miklagarði í vor. Verkefni hans var að reyna að stöðva skot sparkvissra leikmanna AC Milan.  Jerzy sagði síðar svo frá. "Áður en vítaspyrnukeppnin hófst kom Carra til mín. Það var eins og hann væri klikkaður. Hann er nú reyndar venjulega svoleiðis! Hann sagði, Jerzy, Jerzy, mundu eftir því sem Bruce gerði. Hann gerði klikkaða hluti til að koma þeim úr jafnvægi. Þú verður að gera það sama." Jamie sagðist svo frá því sama. "Ég minntist á Bruce Grobbelaar við Jerzy. Ég sagði honum að hann ætti að gera það sama og hann gerði. Hann skildi örugglega ekkert hvað ég var að tala um en hann sagðist hafa skilið það." Hvernig svo sem þeir Jerzy og Jamie skildu hvorn annan þá varð pólski markvöðrurinn hetja Liverpool í vítaspyrnukeppninni. Jerzy dansaði eftir marklínunni þegar það átti við. Líkt og hjá Bruce tuttugu og einu ári fyrr þá virtist Jerzy ná að setja leikmenn AC Milan út af laginu. Fyrsta spyrna AC Milan fór yfir. Jerzy gerði svo gott betur en Bruce, sem varði enga spyrnu, og varði tvær af vítaspyrnum ítalska liðsins! Þeir Dietmar Hamann, Djibril Cissé og Vladimir Smicer skiluðu sínum spyrnum í mark. Liverpool vann vítaspyrnukeppnina 3:2 og vann Evrópubikarinn í fimmta sinn. Jerzy varð hetja liðsins og Bruce Grobbelaar var ánægður með eftirmann sinn. "Hann stóð sig miklu betur en ég. Mér fannst hann líta út eins og krossfiskur með fætur úr hlaupi. En það virkaði.”  

Jerzy var svo sem búinn að vera hetja liðsins áður en til vítaspyrukeppninnar kom. Í upphafi síðari hálfleiks varð, að margra mati, vendipunktur í leiknum, þá varði Jerzy mjög vel fasta aukaspyrnu frá Úkraínumanninum snjalla Andreiy Schevchenko. Liverpool var þá 3:0 undir og markvarslan gerði endurkomu Liverpool mögulega og leiknum lauk 3:3. Hafi sú markvarsla verið góð þá gekk tvöföld markvarsla hans frá Úkraínumanninum, undir lok framlengingarinnar, kraftaverki næst. Já, það hafa fáir náð að skilja hvernig Pólverjinn fór að því að verja fyrst skalla og svo skot frá Andreiy úr algeru dauðafæri. Að minnsta kosti vissi Andreiy ekki hvað var í gangi. "Ég hitti boltann svo vel, í færinu undir lokin, að mér datt ekki í hug að nokkur maður myndi verja þetta. Ég trúi því ekki enn að boltinn skyldi ekki fara í markið. Ég er búinn að fara yfir þetta atvik aftur og aftur í huganum frá því þetta gerðist. Þetta var ótrúleg markvarsla." Ekki vissi Jerzy frekar hvernig hann hefði farið að því að verja. "Bróðir minn hringdi í mig morguninn eftir leikinn og spurði mig hvort ég hefði séð leikinn aftur? Ég svaraði því neitandi. Hann sagði þá að ég yrði að sjá hann því markvarslan því frá Andreiy Schevchenko var gerð með hendi Guðs. Ég sagði honum að ég vissi ekki hvernig ég hefði farið að því að verja." Jerzy var ekki enn búinn að segja sitt síðasta orð gegn hinum frábæra Andreiy Schevchenko því hann varði síðustu spyrnu AC Milan frá honum. Andriy er því líklega búinn að fá nóg af Jerzy Dudek fyrir lífstíð!

Jerzy Dudek varð á allra vörum eftir leikinn. Honum var hrósað mikið eftir leikinn og hann átti það allt svo sannarlega skilið. En þessi hægláti Pólverji hefur ekki staðið í marki Liverpool frá því hann stóð andspænis Andreiy Schevchenko á Ataturk leikvanginum í vor! Það sem meira er það er óvíst hvort hann kemur til með að spila með Liverpool aftur.  Spánverjinn Jose Reina var keyptur til Liverpool í sumar. Þau kaup voru lengi búin að vera í burðarliðnum og hetjuleg framganga Jerzy Dudek í Istanbúl breyttu engu um þau. Þegar leiktíðin hófst á miðju sumri þá var Jose valinn til að standa í markinu. Þótti mörgum stuðningsmönnum Liverpool Jerzy hart leikinn að fá ekki að hefja leiktíðina.

Jerzy hefur alltaf tekið öllum mótbyr með jafnaðargeði. Vindurinn hefur oft staðið í fang honum frá því hann kom til Liverpool í lok ágúst 2001. Hann er vanur jafnt hrósi og hrakyrðum. Ekki bætti svo úr skák fyrir nokkrum vikum að Jerzy fór úr olnbogalið á æfingu! Ólánið var algert því þetta gerðsit undir lok æfingar í litlum átökum. En Jerzy kippti sjálfum sér í liðinn áður en farið var með hann á sjúkrahús! Hann er á batavegi og hann ætlar að halda áfram að æfa og leggja hart að sér. Það á eftir að koma í ljós hvað framtíðin ber í skauti sér fyrir Jerzy Dudek. En það er sama hvað úr verður. Afrek hans á Ataturk leikvanginum í vor verða aldrei tekin frá honum. Þar sköpuðu þau honum ódauðlegan sess í annálum Liverpool Football Club! Orð Jamie Carragher staðfesta þetta. "Hann verður goðsögn núna. Ekki bara út af vítaspyrnunum heldur líka út af markvörslunum frá Andriy Shevchenko í leiknum sjálfum." Jerzy Dudek verður goðsögn og það mun ekki breytast þótt hann standi aldrei í marki Liverpool aftur!

 

 

TIL BAKA