)

Michael Owen

Það er áhugaverð frétt um markamaskínuna Michael Owen á heimasíðu Real Madrid enda hefur framganga hans með Real vakið verðskuldaða athygli.

Það ber að taka fram strax að fréttaritari heimasíðu Real beinir hér eingöngu sjónum sínum að frammistöðu Owen í deildinni og að fréttin birtist ekki hér nákvæmlega eins og hún er skrifuð, heldur er hún endurbætt.-

Tölfræðin segir að Owen hafi leikið 22 deildarleiki og skorað 8 mörk. Mark í þriðja hverjum leik er ekki stórbrotinn árangur en hvað býr að baki þessum tölum? Ef nánar er að gáð er ekki til skilvirkari markaskorari en Michael Owen í spænska boltanum um þessar mundir.

Owen hefur skorað 8 deildarmörk en leikið aðeins 907 mínútur í deildinni. Owen hefur átt 24 skot að marki og skorar því í þriðja hverju skoti. 33% árangur. Betra verður það ekki.

Deildarmörk Owen:

8. umferð gegn Valencia 1-0 sigur
9. umferð gegn Getafe 2-0 sigur
10. umferð gegn Malaga 2-0 sigur
11. umferð gegn Albacete 6-1 sigur
13. umferð gegn Levante 5-0 sigur
16. umferð gegn Racing Santander 3-2 sigur
19. umferð gegn Real Zaragoza 3-1 sigur
23. umferð gegn Osasuna 2-1 sigur

Þetta leiðir ennfremur í ljós að þegar Owen skorar, sigrar Real.

"Hlutverk mitt er að skora mörk", sagði Owen í viðtali við Marca. "Ég nýti marktækifærin. Það er ekki auðvelt fyrir mig að halda sæti mínu í byrjunarliðinu. Ég reyni bara mitt besta. Ég sóa ekki tíma mínum í það að vera reiður. Við verðum allir að standa saman."

Það kveður við kunnuglegan tón þegar fréttaritari Real Madrid síðunnar segir að Owen sé hinn fullkomni atvinnumaður. Maður hefur heyrt það einhvern tímann áður. Vonandi gengur honum sem allra best að fóta sig í stjörnumprýddu liði Real Madrid. Hann er ekki síðri stjarna en liðsfélagar hans enda flestir þeirra ekki leikið höndum gullknött Evrópu.

Arngrímur Baldursson
TIL BAKA