)

Djimi Traore

Djimi hefur unnið hug og hjörtu aðdáenda Liverpool síðastliðnar vikur. Ferill hans hjá Liverpool hefur verið líkust rússíbanaferð ekki ósvipað ferli Danny Murphy. Fyrst lá leiðin upp á við en svo hratt niður á við en nú er uppsveiflan í fullum gangi.

Djimi kom til Liverpool 18. febrúar 1999 frá Laval fyrir 550.000 pund. Frumraun hans með aðalliðinu var 14. sept. 1999 gegn Hull er hann var 19 ára og hálfu ári betur. Stóra tækifærið kom í upphafi 2000-2001 tímabilsins þegar meiðsli gerðu það að verkum að hann fékk tækifæri til að festa sig í sessi í aðalliðinu sem vinstri bakvörður þó að hann sé miðvörður að upplagi. Til að gera langa sögu stutta virtist hann afar taugaóstyrkur og gerði veigamikil mistök sem leiddu til þess að Liverpool tapaði dýrmætum stigum. Hann datt út úr myndinni og önnur félög eins og Nottingham Forest og Blackburn voru að sniffa í kringum hann. Á síðasta ári yfirgaf Patric Bergues þjálfarastöðu sína hjá Liverpool og gerðist formaður knattspyrnudeildar hjá Lens í Frakklandi. Hann bað Houllier um að fá Traore lánaðan í eitt tímabil. Traore fór til Frakklands og stóð sig með miklum sóma með aðalliði Lens og var hársbreidd frá því að að vinna titillinn. Hann kom aftur til Liverpool en hugur hans stefndi ekki á lengri dvöl á Anfield. Hann greindi frá eftirsjá sinni að Liverpool hefði ekki þekkst tilboð Blackburn og var engu líkara en að hann væri að biðla til Souness að banka aftur á dyr Houllier.

Houllier sá hins vegar að drengur hafði þroskast í Frakklandi og gaf honum tækifæri á ný. Meiðsli Stephane Henchoz hafa svo gert það að verkum að hann er kominn allrækilega í myndina á Anfield á ný og hann nýtur hvers augnabliks.

Sjálfstraustið virðist ekki plaga hann því að nú er hann farinn að sýna alls kyns boltakúnstir í öftustu varnarlínu sem einungis þeir bestu myndu þora að sýna. Rifjum upp frásögn Alan Hansen af ferli sínum sem birtist í fréttablaði klúbbsins á síðasta tímabili: "Ég man eftir að þegar nýir leikmenn komu til Liverpool, sérstaklega varnarmenn þá benti Ronnie Moran á mig og sagði: "Ekki reyna að spila eins og Stóri Al. Það er vonlaust að reyna það því að hann er einstakur." Ég var hins vegar duglegur að fjölga gráu hárunum á forráðarmönnum Liverpool því að ég var hrifinn af því að sýna andstæðingnum boltann innan vítateigs og draga hann svo tilbaka á síðustu stundu er mótherjinn lét sig vaða."

Ronnie Moran er ekki lengur til staðar til að banna leikmönnum að herma eftir stóra Al og Djimi virðist nýta sér það til hins ítrasta til að sýna leikni sína með boltann þó að hann eigi vissulega þátt í því að fjölga gráu hárunum á stuðningsmönnum Liverpool þegar hann sýnir sóknarmönnum boltann en snýr sér við á síðustu stundu og blekkir viðkomandi.

Stjörnuleikur hans gegn Tottenham og Valencia er svo sannarlega næg ástæða til að útnefna hann leikmann vikunnar. Hann er í essinu sínu í uppáhaldsstöðu sinni, í hjarta varnarinnar.

TIL BAKA