)

Gary Mac

Það hafa fáir leikmenn stimplað sig inn í hug og hjörtu stuðningsmanna Liverpool á eins skömmum tíma og Gary McAllister gerði. Þeir voru ekki margir sem höfðu trú á því að hann hefði eitthvað erindi í lið Liverpool og skyldu ekkert hvað Houllier var að hugsa þegar hann fékk þennan reynslumikla Skota til liðs við félagið. En söguna þekkja allir og framlag Gary Mac var stórkostlegt seinni hluta síðustu leiktíðar. Heldur minna fór fyrir honum á nýliðinni leiktíð en hann var þó alltaf traustur þegar liðið þurfti á honum að halda.

Hann tók þátt í stórsigrinum gegn Ipswich á laugardag þegar hann kom inn á sem varamaður á 82. mínútu. Það má með sanni segja að áhorfendur hafi fagnað honum vel og grínið var á sínum stað þegar Kop söng “farðu aftur til Coventry” og “þvílík peningasóun”.

Hann tjáði sig um móttökurnar að leik loknum:“Það var mjög áhrifamikið að fá þessar móttökur hjá áhorfendum og ég var mjög hissa á þessum viðbrögðum þeirra. Svona kveðjur fá venjulega aðeins goðsagnir félagsins. Kannski hafði ég meiri áhrif hér en ég gerði mér grein fyrir”.

Gary Mac hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Liverpool og er nýráðinn knattspyrnustjóri Coventry. Við óskum honum góðs gengis og þökkum honum fyrir frábæra frammistöðu hjá klúbbnum.

 

TIL BAKA