)

Gerard Houllier

157 dagar liðu frá því Gerard Houllier hvarf af vettvangi þar til hann settist aftur í stjórasætið á eftirminnilegu kvöldi á Anfield. Það ætlaði allt af göflunum að ganga þegar meistarinn birtist í Musterinu. Phil Thompson greindi fjölmiðlum frá aðdragenda þess að Houllier ákvað að setjast aftur í stjórasætið í leiknum á móti Roma: "Þetta kom fyrst til tals seinnipartinn í gær. Gerard var búinn að ljúka hvatningarræðu sinni fyrir strákana á hótelinu þegar hann settist hjá mér og sagði: "Mig langar til að mæta á leikinn í kvöld. Tíminn er kominn." Ég var alveg sammála honum. Hann kom í búningsherbergið og lagði á ráðin með strákunum fyrir leikinn. Það var ágætt að fá frí frá því! Nærvera hans var okkur í senn léttir og innblástur. Endurkoma hans var stuðningsmönnum okkar líka mikil lyftistöng. Ef eitthvað kvöld var vel til þess fallið fyrir Gerard að snúa aftur þá var það þetta. Gerard var hrærður eftir leikinn og skyldi engan undra. Ég var það líka. Hann hefur sérstök tengsl við félagið og stuðningsmenn okkar."

Thompson var vitanlega stoltur af lærisveinum Frakkans: "Gerard hefur ávallt sagt að ef þessir leikmenn þrá eitthvað nógu heitt þá ná þeir takmarki sínu."

Gerard Houllier fór beinustu leið til góðvinar síns Fabio Capello og heilsaði honum er hann birtist öllum að óvörum á Anfield. Það var orðrómur í gangi um að Houllier gæti ákveðið að mæta aftur gegn Roma en flestir reiknuðu með leiknum gegn Chelsea. Fabio Capello, þjálfari Roma var hrifinn af liði Houllier og Thompson og viðurkenndi að Liverpool kom Roma í opna skjöldu: "Liverpool er með sterkt lið en ég hef aldrei séð þá leika svona eins og þeir gerðu gegn okkur. Ef þeir halda uppteknum hætti þá eiga þeir góða möguleika á Evrópumeistaratitlinum. Heskey var lykilmaður Liverpool og eftir að þeir náðu forystunni þá áttum við aldrei möguleika."

Houllier er kominn aftur og takmark hans að sigra deildina og Evrópubikarinn er enn í sjónmáli.

Það hafa ef til vill verið glæstari kvöld í sögu Liverpool en þetta fer í þjóðsagnasafn þeirra allra glæstustu.

ALLEZ LES ROUGES!!

TIL BAKA