)

Emile Heskey

Emile Heskey skoraði fyrsta mark sitt í 18 leikjum fyrir Liverpool og var óumdeilanlega besti leikmaður liðsins gegn Sunderland: "Ég hef aldrei orðið niðurdreginn þrátt fyrir markaleysi mitt. Forráðarmenn Liverpool telja að ég gegni mikilvægu hlutverki í liðinu þrátt fyrir að mörkin fljúgi ekki inn. Það var léttir að sjá boltann í netinu. Danny átti góða fyrirgjöf beint á hausinn á mér. Við börðumst ötullega til að tryggja stigin þrjú og við áttum þau skilið."

Ummæli Heskey má til sanns vegar færa því að þrátt fyrir að hann muni að öllum líkindum ekki skora rúmlega 20 mörk á þessu tímabili eins og á því síðasta þá er hann að leggja mikla og þýðingarmikla vinnu að baki í hverjum leik. Það krefst þess að hann er ekki eins oft í góðri stöðu til að skapa sér marktækifæri. Fowler og Owen gætu varla verið sáttir við sjálfan sig ef mörkin koma ekki en Heskey er ekki sama markamaskínan að upplagi og þeir tveir. Heskey nýtur þess að sjá aðra skora mörk.

Heskey er óþreytandi í að hrella varnarmenn og maður hefur stundum hreinlega kennt í brjósti um hann þegar hann hefur verið einn frammi og þurft að þola ansi harðar tæklingar. Baráttuþrek hans er aðdáunarvert og ef hann er kominn í markagírinn líka þá er bjart framundan. Við látum fylgja með smátexta um hann sem var frumfluttur í Ölveri af æstum Púllurum þegar Evrópuleikurinn gegn Barcelona stóð sem hæst.

Heeeeeeskeeeyyyyy
enginn mótherji þig stöðvar
þú ert ekkert nema vöðvar,
skoraðu maaark!

lag: "Álfheiður Björk" (viðlagið)
texti: höfundur vill ekki láta nafns síns getið.

TIL BAKA