)

Stephane Henchoz

Bobby Robson hrósaði varnarvinnu Liverpool eftir leikinn gegn Newcastle og þeir sem á horfðu og sáu einnig leik Liverpool gegn Kiev í miðri viku sjá svart á hvítu hversu sterkur varnarmaður Stephane Henchoz er orðinn. Gefum Robson aftur orðið: "Liverpool er með frábæran leikmannahóp, sýna agaðan leik, eru sterkir varnarlega og munu ekki fá á sig mörg mörk á þessu tímabili. Þeir gáfu okkur ekki séns á marktækifærum. Vörnin þeirra var eins og fjögur eikartré. Við gátum ekki komið boltanum framhjá þeim. Ég notaði öll vopn mín á hana en það sá ekkert á vörninni."

Stephane er ekki fyrir það að blása í herlúðra og beina óþarfa athygli að sér. En það er ekki lengur orða bundist. "Stephane, þú ert frábær varnarmaður." Henchoz var órjúfanlegur hluti varnar Liverpool gegn Newcastle en stóð upp úr í leiknum gegn Kiev. Hann tætir boltann af framlínumönnunum enda fáir betri að lesa leikinn en einmitt hann. Hann er móður og másandi frá fyrstu mínútu en þegar líða tekur að leikslokum er enginn ferskari en hann. Stephane berst fyrir liðið 100% og í ófá skipti hefur maður séð hann fórna sér í skot andstæðingsins og blokkað þau með tilþrifum með öllum hlutum líkamans. Hann er einnig farinn að færa sig á stundum framar á völlinn og taka meiri þátt en ella í spilinu og er það vel ekki síst þar sem hann virðist vel fær um það "en Stephane minn, ekki ganga samt of langt! Þú hefur jú ekki skorað síðan þú komst til Englands nema eitt sjálfsmark.... "

TIL BAKA