)

Steven Gerrard

Steven Gerrard er maður vikunnar og er vel að þeirri útnefningu kominn. Hann var álitinn maður leiksins að öðrum ólöstuðum gegn Porto á fimmtudaginn og gegn Tranmere á sunnudeginum.

Stevie G, eins og Liverpoolbúar eru almennt farnir að kalla hann, var nálægt því að skora draumamark gegn Porto en frábær staðsetning markvarðar Porto varð til þess að leiknum lauk með markalausu jafntefli. Hann hafði greinilega saknað Evrópukeppninnar eftir að hafa misst af báðum leikjunum gegn Roma og leyndist engum að hann væri herforinginn á miðjunni og aðrir skyldu gæta sín! Yfirferðin og krafturinn í drengnum er með ólíkindum. Hann sýndi svo aftur þessa grimmd í bikarnum gegn Tranmere og kom eins og eimreið inn í vítateig Wirralbúa og skallaði í mark og af látbragði hans að dæma þá hafði hann ákveðin skilaboð til handa Tranmereaðdáendum er hann fagnaði og leiddist greinilega ekki þófið. Frammistaða hans í þeim leik var tekin sérstaklega fyrir síðar um kvöldið á SKY og varð manni þá fremur ljóst hversu ötullega þessi strákur vinnur Liverpool til tekna.

TIL BAKA