)

Robbie Fowler

Það voru skýr skilaboð sem Robbie Fowler fékk frá Gerard Houllier fyrir leikinn gegn Crystal Palace á miðvikudaginn. Nú fékk hann tækifæri og þá var það bara hann sjálfur sem gat þaggað niður í gagnrýnisröddum þeim sem hafa verið ansi háværar uppá síðkastið. Það þarf ekki að spá neitt meira í þeim hlutum, hann svaraði þessu fullum hálsi með því að leggja upp tvö mörk og setja eitt sjálfur. Þrátt fyrir stórgóðan leik þá var ennþá talað um að þessi frammistaða hafi ekki sannað neitt því þessi leikur hafi verið gegn slöku 1. deildar liði. Crystal Palace hafði engu að síður slegið út úrvalsdeildarlið og hefur gengið mjög vel í bikarkeppnunum á þessu tímabili, og fyrir utan það að undanúrslit eru alltaf undanúrslit og þeir leikir eru alltaf uppá líf og dauða, sér í lagi þar sem Liverpool tapaði fyrri leiknum. Fowler sýndi það svo í leiknum gegn Leeds í enska bikarnum að hann er fullfær um að sýna þetta á móti virkilega sterkum liðum eins og heimamenn voru í þessu tilviki. Hann fékk ekki úr miklu að moða, en engu að síður var hann að dreifa spilinu vel og var maðurinn á bak við bæði mörk Liverpool í leiknum. Oft á tíðum sýndi hann gamla Fowler takta sem undirritaður og fleiri hafa beðið alllengi eftir. Spretturinn sem hann tók upp allan völlinn í seinna markinu var hrein snilld og unun á að horfa. Vonandi er þetta bara byrjunin á endurkomu þessa vinsæla leikmanns Liverpool, og eins að mörkin fari nú að hrannast inn eins og vaninn var fyrir nokkrum árum.

TIL BAKA