)

Gerard Houllier

Það má með sanni segja að Gerard Houllier hafi fengið uppreisn æru eftir slakt gengi liðsins í síðustu leikjum. Eftir töpin gegn Newcastle, Tottenham og Ipswich fóru efasemdarraddir að heyrast um að Houllier væri rétti maðurinn í að leiða liðið til sigurs en þær hafa margar hverjar þagnað eftir síðustu tvo sigurleiki gegn Fulham og Man. Utd. Taktíkinn gegn Man. Utd. svínvirkaði, þeir fengu sárafá færi þó að þeir væru meira með boltann og vörn okkar manna átti stjörnuleik.
Leikurinn gegn Man. Utd. var merkilegur fyrir margra hluta sakir. Þetta var 100. leikurinn þar sem Houllier stjórnaði liðinu einn og 50. sigurleikur hans á sama tímabili. Liverpool sigraði þarna Man. Utd. í fyrsta skiptið síðan í desember 1995 og í fyrsta skiptið á Old Trafford síðan árið 1990. Þetta var þar að auki fyrsta tap Man. Utd. á heimavelli í deildinni síðan í desember 1998. Þessi árangur markar því tímamót í ýmsum skilningi.
Houllier sagði að hugur hans eftir leikinn hefði fyrst og fremst verið hjá aðdáendum liðsins. "Við komum hingað á mínu fyrsta tímabili í janúar 1999 í leik í bikarkeppninni, vorum þá að vinna 1-0 en töpuðum eftir venjulegan leiktíma. Aðdáendurnir voru svo vonsviknir eftir þann leik en nú höfum við hefnt þeirra ófara. Við höfum unnið besta lið Evrópu. Við lögðum upp með stífa taktíska áætlun sem gekk upp. Ég segi ekki hver hún er því við gætum notað hana aftur á næsta tímabili. Þeir fengu ekki mörg færi. Kannski áttu þeir ekki góðan dag en við lékum mjög vel."
TIL BAKA