)

Luis Suarez

Á undanförnum árum hafa lesendur Liverpool.is valið Mann ársins í vefkosningu. Nú í janúar var sami háttur hafður á og dómur var upp kveðinn. Dómur lesenda kvað á um að Luis Suarez væri Maður ársins 2014 hjá Liverpool. Segja má að þessi niðurstaða sé söguleg. Luis er fyrstur, frá því þetta kjör hófst á Liverpool.is til að verða kjörinn Maður ársins þrjú ár í röð. Steven Gerrard og Jose Reina unnu þetta kjör tvö ár í röð en nú hefur Luis skákað þeim. Að auki er Luis fyrstur til að vera kjörinn Maður árins þó hann fari frá félaginu það sama ár. 


Luis hóf árið 2014 með því að skora beint úr aukaspyrnu í 2:0 sigri á Hull City á fyrsta degi árins. Hann var auðvitað í banni framan af leiktíð en hafði skorað mikið fyrir áramótin og sett Úrvalsmarkamet í desember þegar hann skoraði 10 mörk. Segja má að hann hafi þó farið almennilega í gang þegar Daniel Sturridge kom aftur inn í liðið eftir meiðsli gegn Stoke á útivelli. Liverpool vann 3:5 og Luis skoraði tvö. Þeir félagar hófu nú mikla markaskorun saman sem stóð til vors.


Leifturatlaga Liverpool að Englandsmeistaratitlinum hófst þegar Liverpool burstaði Arsenal 5:1 snemma í febrúar. Luis skoraði reyndar ekki í þeim leik og segja má sem gagnrýni á þennan stórkostlega leikmann að hann lét ekki alltaf nógu mikið að sér kveða í leikjum gegn allra bestu liðunum. Hann skoraði þó eitt í glæsilegum 0:3 útisigri á Manchester United og í næsta leik skoraði hann þrennu í ótrúlegum markaleik í Cardiff þegar Liverpool vann 3:6! Sigurinn var sá sjöundi í röð tólf sigra sem komu Liverpool í harða baráttu við Manchester City og Chelsea um Englandsmeistaratitilinn. Luis skoraði sjö mörk í þessari miklu sigurgöngu og gaf sig allan í hvern einasta leik líkt og félagar hans. Hann var þegar hér var komið við sögu orðinn lang markahæstur í deildinni.  

Sigur á móti Chelsea í lok apríl hefði fært Liverpool fast að titlinum sem hefur ekki unnist frá því 1990. Luis náði sér ekki á strik eins og oft gegn þeim allra bestu og Liverpool tapaði 0:2. Liverpool lék alls ekki nógu vel í leiknum og aðrir en Luis náðu sér ekki á strik en þarna hefði Luis getað skipt sköpum. Hann skoraði ekkert gegn fjórum efstu liðunum á leiktíðinni. Það er þeim þremur liðum sem skipuðu fjögur efstu sætin með Liverpool.  


Manchester City var nú komið með frumkvæðið og lét ekki happ úr hendi sleppa. Luis skoraði í 3:3 jafntefli í London við Crystal Palace og var óhuggandi eftir leikinn. Sigur í þeim leik hefði ekki dugað nema að City myndi misstíga sig þar sem þeir voru með betra markahlutfall. Hér eftir varð Liverpool að treysta á að City myndi missa stig í tveimur síðustu heimaleikjum sínum. Það gerðist því miður ekki því City vann Aston Villa og svo West Ham United í síðustu umferðinni. Liverpool vann Newcastle United 2:1 í leik sem reyndist sá síðasti hjá Luis í rauða búningnum þó það væri ekki vitað þá. Hann skoraði ekki löglega en dómarinn dæmdi á furðulegan hátt mark af honum þegar hann skoraði beint úr aukaspyrnu lengst utan af kanti. Það mark hefði fært Luis nýtt markamet í 38 leikja deild. Hann skoraði 31 mark og jafnaði markamet sem þeir Alan Shearer og Cristiano Ronaldo áttu áður saman.     


Fyrir utan að vera markakóngur völdu bæði leikmenn og blaðamenn Luis sem Leikmann ársins. Hann var líka kjörinn besti leikmaðurinn af Ensku úrvalsdeildinni í lok leiktíðar. Þetta var Luis mikil uppreisn æru því það var búið að rakka hann niður eftir stóra bitmálið og bannið sem hann fékk þá. Þessar viðurkenningar sýndu að hæfileikar hans voru metnir að verðleikum á Englandi. Hann vildi þó meina að þar í landi væri sér flest i móti nema þá Liverpool F.C. og stuðningsmenn félagsins. Markametið hefði hann reyndar slegið ef hann hefði ekki bitið frá sér en í kjölfarið missti hann af fyrstu sex leikjum leiktíðarinnar og kannski kostaði banið Liverpool enska meistaratitilinn! Hver veit? Luis er nefnilega gallaður snillingur eins og margir af bestu leikmönnum sögunnar hafa verið.


Sem fyrr segir lauk ferli Luis með Liverpool í síðustu umferð deildarinnar. Þegar leiktíðinni lauk lét hann að því liggja að hann hyggðist vera áfram hjá Liverpool en hann ætlaði sér í burtu eins og kom á daginn! Líkt og sumarið áður hófst sumarrugl í fjölmiðlum í Úrúgvæ, um leið og hann var kominn úr landi, sem miðaði að því að hann kæmist í burtu frá Liverpool. Hann meiddist lítillega fyrir Heimsmeistarakeppnina og missti af fyrsta leiknum en kom svo inn á móti Englandi og gekk frá þeim leik með tveimur stórkostlegum mörkum í 2:1 sigri. Hann beit svo aftur frá sér í leik gegn Ítalíu, fékk langt leikbann en komst til Barcelona eins og hann ætlaði sér allan tímann.

Sú leikflétta verður ekki rakin hér en er Luis og hans ráðgjöfum til skammar. Að mínu áliti miðuðu bitin, rugl í fjölmiðlum og annað að því að komast frá Liverpool. Hann ætlaði sér það sama sumarið áður en það tókst ekki þá. Nú komst hann í burtu. Reyndar eftir að hafa næstum því gert nóg til að Liverpool yrði enskur meistari. Hann gat bent á að hafa orðið markakóngur deildarinnar, fengið fjölda viðurkenninga og átt stóran þátt í að Liverpool komast í Meistaradeildina. En eftir stóð að leikbannið fyrir fyrra bitið kostaði sitt fyrir Liverpool innan vallar sem utan.

Það verður þó ekki horft framhjá því að Luis Suarez átti sannarlega magnaðan feril hjá Liverpool og 82 mörk í 133 leikjum segir sína sögu. Hann bætti sig gríðarlega frá því hann kom til Liverpool í janúar 2011 og þegar hann fór var hann kominn í hóp fimm bestu knattspyrnumanna í heimi. Hann varð Deildarbikarmeistari með Liverpool 2012 en hefði hann hagað sér betur og verið lengur hjá félaginu hefðu titlarnir orðið fleiri og stærri!


Sf. Gutt.


Hér eru niðurstöður í kjöri á Manni ársins fyrir árið 2014.

 
Luis Suarez 54% 


Raheem Sterling 16% 


Steven Gerrard 15% 


Brendan Rodgers 7% 


Daniel Sturridge 4% 


Einhver annar en þeir sem hér eru fyrrnefndir. 1% 


Heildarfjöldi greiddra atkvæða í kjörinu var: 344.

Maður ársins hjá Liverpool 2013 - Luis Suarez.

Maður ársins hjá Liverpool 2012 - Luis Suarez.

Maður ársins hjá Liverpool 2011 - Kenny Dalglish.

Maður ársins hjá Liverpool 2010 - Jose Reina.

Maður ársins hjá Liverpool.is 2009 - Jose Reina.

Maður ársins hjá Liverpool.is 2008 - Fernando Torres.

Maður ársins hjá Liverpool.is árið 2007 - Steven Gerrard. 

Maður ársins hjá Liverpool.is árið 2006 - Steven Gerrard.

Maður ársins hjá Liverpool.is árið 2005 - Rafael Benítez.TIL BAKA