)

Luis Suarez

Á undanförnum árum hafa lesendur Liverpool.is valið Mann ársins í vefkosningu. Nú í janúar var sami háttur hafður á og dómur var upp kveðinn. Dómur lesenda kvað á um að Luis Suarez væri Maður ársins 2013 hjá Liverpool.

Eins og svo oft áður gekk á ýmsu Luis á þessu ári. Hann hóf það með tveimur mörkum á móti Sunderland og hélt þar með áfram markaskorun sem hafði verið drjúg fram að áramótum. Strax á nýja árinu fékk hann Daniel Sturridge í framlínuna með svo og svo kom Philippe Coutinho til liðsins. Þessir tveir og þá sérstaklega Daniel náðu mjög vel saman með Luis og ekki fækkaði mörkunum þegar þessir þrír fóru að herja á varnir mótherja Liverpool. Evrópuvegferðin endaði þrátt fyrir 3:1 sigur á móti Zenit frá Pétursborg og í þeim leik vann Luis það afrek að skora beint úr tveimur aukaspyrnum. Í næsta leik skoraði hann svo þrennu í stórum útisigri á Wigan.

Þegar leið að lokum leiktíðarinnar gat það vel oðrið niðurstaðan að Luis yrði markakóngur leiktíðarinnar en þegar hann jafnaði metin 2:2, á síðustu stundu, á móti Chelsea á Anfield undir lok apríl var komið að lokum þátttöku hans á keppnistímabilinu. Ekki löngu áður í leiknum hafi Luis gert óskiljanlega atlögu að Branislav Ivanovic varnarmanni Chelsea með tennur að vopni. Enska knattspyrnusambandið felldi dóm í kjölfarið sem hljóðaði upp á verðskuldað 10 leikja keppnisbann. Það þýddi að Luis var ekki löglegur með Liverpool á nýjan leik fyrr en á haustdögum. Hann endaði leiktíðina með 30 mörk!

Sumarið fór að mestu í endalausar vangaveltur um hvort Luis myndi yfir höfuð leika aftur með Liverpool. Hann byrjaði á því að tjá sig um að sér og fjölskyldu sinni væri ekki vært á Englandi vegna ósanngjarnar fjölmiðlaumfjöllunar. Svo kom að því að hann sagðist opinberlega vilja komast frá Liverpool í lið sem væri að spila í Meistaradeildinni og væri í titlabaráttu. Forráðamenn Liverpool harðneituðu þó að selja hann og það endaði með því að Brendan Rodgers setti Luis í skammarkrókinn og lét hann æfa einan á báti. Svo fór að Luis bað félag sína og alla viðkomandi afsökunar og sagðist myndu spila fyrir Liverpool þegar leikbannið yrði á enda. 

Í lok september losnaði Luis loksins úr leikbanninu. Hann skoraði ekki í fyrsta leiknum en tvö mörk komu strax í öðrum leik og eftir fimm fyrstu leikina eftir bannið var hann kominn með sex mörk! Hann hélt svo uppteknum hætti út árið. Sérstaklega var ferna hans í 5:1 sigri á Norwich á Anfield eftirminnileg og hvert markið öðru fallegra. Í desember setti hann deildarmet með því að skora 10 mörk en áður hefur sami maður ekki skorað jafn mörg mörk í sama mánuðinum! Þegar árinu lauk var Luis búinn að skora 19 mörk frá því hann kom til leiks eftir leikbannið.

Luis lét sitt sannarlega ekki eftir liggja á árinu 2013. Mörkin komu í stríðum straumum og hann lagði líka fjölda marka upp. Á milli varð hann sér til skammar, hlaut þunga refsingu, vildi komast í burtu frá Liverpool en endaði sem einn vinsælasti leikmaður Liverpool á síðari árum. Sem sagt bara venjulegt ár í lífi þessa hæfileikaríka og óútreiknanlega leikmanns!

Sf. Gutt.

Hér eru niðurstöður í kjöri á Manni ársins fyrir árið 2013.
 
 71% 

Brendan Rodgers 16%

Daniel Sturridge 5%

Steven Gerrard 4%

Philippe Coutinho 2% 

Einhver annar en þeir sem hér eru fyrrnefndir. 1% 

Heildarfjöldi greiddra atkvæða í kjörinu var: 582.

Maður ársins hjá Liverpool 2012
- Luis Suarez.

Maður ársins hjá Liverpool 2011 - Kenny Dalglish.

Maður ársins hjá Liverpool 2010 - Jose Reina.

Maður ársins hjá Liverpool.is 2009 - Jose Reina.

Maður ársins hjá Liverpool.is 2008 - Fernando Torres.

Maður ársins hjá Liverpool.is árið 2007 - Steven Gerrard. 

Maður ársins hjá Liverpool.is árið 2006 - Steven Gerrard.

Maður ársins hjá Liverpool.is árið 2005 - Rafael Benítez.

TIL BAKA