)

Kenny Dalglish

Á undanförnum árum hafa lesendur Liverpool.is valið Mann ársins í vefkosningu. Nú í janúar var sami háttur hafður á og dómur var upp kveðinn. Dómur lesenda kvað á um að Kenny Dalglish væri Maður ársins 2011 hjá Liverpool.

Sú niðurstaða kom ekkert á óvart enda endurkoma Kóngsins með magnaði atburðum í allri sögu Liverpool. En atburðarás árins hjá Kenny var eins og í ævintýri og við skulum láta hann sjálfan eiga að mestu orðið frá þessu ótrúlega ári í lífi hans.
 
Á nýársdag 2011 mætti Liverpool Bolton Wanderes. Roy Hodgson stjórnaði Liverpool til sigurs 2:1 en það var samt þungt yfir enda hafði honum gengið illa að ná þeim Rauðu á flug frá því hann tók við hálfu ári áður. Fyrr um daginn birtist á vefsíðu Liverpool, Liverpoolfc.tv, viðtal við Kenny Dalglish sendiherra Liverpool. Þar hvatti hann til samstöðu hjá félaginu. ,,Allir hvort sem það eru leikmenn, stuðningsmenn, starfslið eða hver sem er verða að leggjast á eitt og ná í þessi þrjú stig sem liðið svo nauðsynlega þarfnast í leiknum gegn Bolton í dag. Ef allir standa saman þá eigum við betri möguleika á að ná sigri. Ef allir vinna sitt starf af bestu getu, ef allir standa saman, ef leikmennirnir gera stuðningsmennina spennta og stuðningsmennirnir styðja leikmennina og allir stefna í sömu áttina þá ætti sigur að nást í dag. En ef enginn er á sömu blaðsíðu þá verður þetta erfiðara."

Viku seinna var tilkynnt að Kenny Dalgish hefði verið ráðinn framkvæmdastjóri Liverpool! ,,Ég er geysilega heppinn að hafa verið beðinn að gera þetta. Það eina sem ég get sagt er að ég mun reyna það sem í mínu valdi stendur til að hjálpa félaginu. En það verða allir að róa í sömu átt og nú dugar ekki nein óeining. Ef menn stefna í ólíkar áttir mun okkur ekki miða neitt. Ég hlakka virkilega til að hefja störf og það verður mér sönn ánægja að koma aftur í búningsherbergið og vera á varamannabekknum.“

Stuðningsmenn Liverpool trúðu varla sínum eigin augum þegar þeir sáu Kenny Dalglish, sem sagði starfi sínu sem framkvæmdastjóri Liverpool lausu í febrúar 1991, aftur við varamannabekk Liverpool. Liðið rétti úr sér undir stjórn hans og allt annað yfirbragð var á öllu innan vallar sem utan. Víst hefur ekki allt gengið jafn vel og vonir stóðu til og til dæmis náði Liverpool ekki Evrópusæti síðasta vor. Eins var gengi liðsins í deildinni óstöðugt í haust og ekki nógu gott til að balanda sér í baráttu um Englandsmeistaratitilinn. En líklega eru stuðningsmenn Liverpool almennt sáttir með að hafa Kenny við stjórn á nýjan leik. Hann hafði þetta að segja um áramótin.

,,Um þetta leyti fyrir ári voru ég og Marina um borð í skemmtiferðaskipi. Mér datt aldrei í hug að nokkrum dögum seinna myndi ég aftur verða orðinn framkvæmdastjóri hjá þessu kanttspyrnufélagi. Það hvarflaði einfaldlega aldrei að mér. Ég vonaðist aldrei til eða vildi að Roy Hodgson myndi fara. Maður vill aldrei að neinn í knattspyrnuheiminum missi starfið sitt. Þetta gerðist þó og það gladdi mig að geta hjálpað til. Ég var lánsamur að vera beðinn um að koma aftur þótt það kæmi ekki til af góðu. Þetta þýddi að við urðum að stytta siglinguna um einn dag en það var nú kannski ekki sem verst. Þó er ég ekki viss um að Marina hafi verið ánægð með að þurfa að enda fríið fyrr en til stóð!“

,,Það hefur margt gerst frá því þetta allt átti sér stað. Ég er mjög ánægður með að hafa tekið tilboði John Henry í janúar. Árið hefur verið viðburðaríkt og í senn annasamt og ánægjulegt. Þetta snýst þó ekki um mig heldur allt fólkið sem starfar hjá félaginu. Fólkið á bak við tjöldin, þjálfarana og leikmennina. Leikmennirnir eru þó þeir sem öðrum fremur halda öllu gangandi. Við erum að vinna að verkefni sem hefur gengið býsna vel og við munum öll halda áfram að reyna okkar allra besta við að þoka öllu i rétta átt.“

Sf. Gutt.


Hér eru niðurstöður í kjöri á Manni ársins.
 
Kenny Dalglish 37%

Lucas Leiva 27%

Luis Suarez 14%

John W Henry 13%

Jose Reina 6%

Einhver annar en þeir sem hér eru fyrrnefndir. 3% 

Heildarfjöldi greiddra atkvæða í kjörinu var: 1141.

Maður ársins hjá Liverpool 2010
- Kenny Dalglish.

Maður ársins hjá Liverpool.is 2009 - Jose Reina.

Maður ársins hjá Liverpool.is 2008 - Fernando Torres.

Maður ársins hjá Liverpool.is árið 2007 - Steven Gerrard. 

Maður ársins hjá Liverpool.is árið 2006 - Steven Gerrard.

Maður ársins hjá Liverpool.is árið 2005 - Rafael Benítez.

TIL BAKA