)

Jamie Carragher

Jamie Carragher er nú orðinn næst leikjahæsti leikmaður í sögu Liverpool. Í vor, gegn Fulham, lék hann sinn 666. leik undir merkjum Liverpool Football Club. Lækurinn sem menn bera í til að hrósa Jamie er löngu flæddur yfir bakka sína og því ekki mikið meira um þennan magnaða kappa að segja en 666 leikir fyrir eitt og sama félagið kalla þó á svolítið hrós til viðbótar. Það gerist nefnilega sjaldan nú til dags að einn og sami maðurinn spili svona marga leiki fyrir eitt og sama félagið.

Jamie er löngu kominn í flokk goðsagna í sögu Liverpool. Sumir telja að knattspyrnumenn komist ekki þangað fyrr en þeir hafi lagt knattspyrnuskó sína á hilluna. Það má vel vera að einhverjir vilji bíða með að flokka Jamie sem goðsögn þar til hann hættir að spila knattspyrnu en það ætlar hann ekki að gera fyrr en í lengstu lög. Hvað sem öllum skilgreiningum líður þá er enginn vafi á því að Jamie fer í goðsagnaflokkinn og í hugum margra er hann nú þegar kominn í hann. Aðeins hann og góðvinur hans Steven Gerrard hafa náð viðlíka vinsældum og ekki síður virðingu hjá stuðningsmönnum Liverpool á þessari öld.  

Jamie sjálfur hefur engar áhyggjur af persónulegum metorðum. Jú, vissulega vill hann vinna titla en fyrst og síðast þá vill hann vinna titla fyrir liðið sitt. Eftir merkisleikinn var hann spurður út í afrekið. ,,Það er skemmtilegt fyrir mig að vinna þetta afrek en þetta er allt betra vegna þess að við unnum." Hvað skyldi hann svo hafa sagt fyrir leikinn? ,,Ég á eftir að vera stoltur í kvöld en mikilvægast er að við náum þremur stigum." Þessar tvær setningar lýsa manninum fullkomlega.

Jamie hefur alltaf farið til leiks með það sama í huga og það er að leggja sig allan fram svo að liðið hans vinni. Þetta gerði hann, á síðustu öld, í sínum fyrsta leik gegn Middlesborough í janúar 1997, í maí 2011 á móti Fulham í þeim 666. og hann á eftir að gera það í hverjum einasta leik sem hann á eftir óleikinn! Hann er aldrei ánægður, þegar flautað er af, nema Liverpool hafi unnið og fyllilega er hann líklega ekki ánægður nema að Liverpool hafi haldið markinu hreinu. Það má því leiða að því líkum að hann hafi ekki verið alveg sáttur eftir 666 því Liverpool vann 5:2!

Ian Callaghan er leikjahæsti leikmaður Liverpool eins og sjá má á meðfylgjandi lista. Þó að Jamie eigi langt í að ná honum skal ekki dregið úr afreki hans því leikjafjöldi Ian er einstakur. En þegar listinn er skoðaður má segja að maður átti sig enn frekar á hversu mikið afrek Jamie Carragher er. Það eru nefnilega ekki neinir aukvisar á honum.

1. Ian Callaghan 857
2. Jamie Carragher 666
3. Ray Clemence 665
4. Emlyn Hughes 665
5. Ian Rush 660
6. Phil Neal 650
7. Tommy Smith 638
8. Bruce Grobbelaar 628
9. Alan Hansen 620
10. Steven Gerrard 556

Sf. Gutt.


TIL BAKA