)

Lucas Leiva

Það virðist alltaf vera einn leikmaður sem stuðningsmenn liða gagnrýna mest. Lucas Leiva hefur mátt þola mikla gagnrýni en hann hefur smá saman, á þessu keppnistímabili, verið að vinna sig í álit. 

Lucas Leiva kom til Liverpool sumarið 2007. Hann hafði þá á afrekaskrá sinni að vera yngstur leikmanna til að vera kosinn efnilegasti leikmaður Brasilíu.

Lucas lék nokkra leiki með Liverpool á fyrsta keppnistímabili sínu en á því síðasta kom hann töluvert við sögu. Eftir að Xabi Alonso yfirgaf Liverpool í sumar hefur Lucas náð að vinna sér fast sæti á miðjunni hjá Liverpool. Segja má með nokkrum rökum að brasilíski strákurinn hafi verið besti miðjumaður Liverpool það sem af er leiktíðar. Reyndar hafa aðrir og reyndari miðjumenn liðsins, svo sem Steven Gerrard og Javier Mascerano, ekki verið að spila vel en Lucas er búinn að standa fyrir sínu. Hann hefur þó mátt þola nokkra gagnrýni. Það sama var uppi á teningnum á síðasta keppnistímabili. Sumir telja gagnrýnina ósanngjarna því Lucas sé venjulega ekki að spila verr en aðrir. Hann sé á hinn bóginn oft gerður að blóraböggli ef illa fer. Vissulega gaf hann höggstað á sér með klaufalegum mistökum en á móti kemur að hann er enn tiltölulega óreyndur.

Á síðasta keppnistímabili létu stuðningsmenn Liverpool Lucas stundum heyra það og sú upplifun reyndist honum erfið. Segja má að Lucas hafi núna náð að vinna stuðningsmenn Liverpool meira á sitt band. Hann hefur líka verið að spila vel. Ýmsum finnst enn að Lucas sé alls ekki nógu góður til að vera í byrjunarliði Liverpool. Hann hefur samt af og til verið valinn í brasilíska landsliðið og spilað nokkra leiki með því liði. Hann er því í áliti í Brasilíu en það kemur ekki í veg fyrir að hann sé gagnrýndur á Englandi. Líklega á hann aldrei eftir að að vinna alla stuðningsmenn Liverpool á sitt band. Tvennt kemur honum líklega illa í þeirri baráttu. Í fyrsta lagi sjá allir að hann hefur ekki náð að fylla það skarð sem Xabi Alsonso skildi eftir. Hitt er að Lucas er líkur leikmaður og Javier Mascherano. Þeir hafa oft spilað saman á miðjunni en hvorugur er nógu sterkur sóknarlega en það er einmitt sá þáttur í miðjuspili Liverpool sem ekki hefur verið í nógu góðu lagi á þessu keppnistímabili.

Rafael Benítez hefur verið ánægður með framfarir þær sem Lucas hefur sýnt. "Hann leggur hart að sé og er alltaf að reyna að bæta sig. Við erum að fylgjast með honum og við sjáum að hann er að spila vel um þessar mundir en við vitum að hann á eftir að verða enn betri þegar fram líða stundir."

Hvað svo sem má segja um Lucas Leiva þá verður ekki annað sagt en að hann sé búinn að standa sig vel á þessu keppnistímabili. Hann skilar sínu jafnan vel en það er ýmislegt sem hann er ekki góður í og getur bætt. Ekki er gott að segja hvort Lucas á eftir að verða fastamaður alla leiktíðina en hann hefur sýnt að það er eitt og annað í hann spunnið.

Sf. Gutt.    

TIL BAKA