)

Steven Gerrard

Steven Gerrard var besti leikmaður Liverpool á síðustu leiktíð. Þetta er staðreynd sem ekki þarf að rökræða um. Þetta fékkst staðfest með afgerandi hætti í vali lesenda Liverpool.is nú í lok leiktíðar. Steven fékk 57 % atkvæða í kosningu um besta leikmann leiktíðarinnar og segir sú tala sína sögu um framgöngu fyrirliðans á leiktíðinni. Ef fólki finnst þessi könnun ekki vera næg sönnun þá má benda á að Steven var kjörinn Knattspyrnumaður ársins 2009 af enskum blaðamönnum.

Þessi leiktíð var á margan hátt söguleg og viðburðarík fyrir Steven Gerrard. Í lok nóvember á síðasta ári voru tíu ár liðin frá því hann lék fyrst í aðalliði Liverpool. Á liðnu hausti voru fimm ár liðin frá því hann var gerður að fyrirliða Liverpool. 

Á haustdögum skoraði hann svo í hundraðasta sinn fyrir Liverpool. Í vor þegar allt var talið kom í ljós að Steven hafði skorað 24 mörk fyrir Liverpool og er sá markafjöldi persónulegt met hjá honum á einu keppnistímabili. Hann skoraði 16 af mörkunum í deildinni og aðeins tveir leikmenn skoruðu fleiri deildarmörk. Steven ákvað svo að framlengja samning sinn við Liverpool.  

Ferð á skemmtistað undir lok liðins árs dró dilk á eftir sér og mátti Steven sæta ákæru eftir að uppþot varð á skemmtistaðnum. Nú í sumar var hann svo sýknaður af ákærunni. Það má því með sanni segja að síðasta keppnistímabil hafi verið viðburðaríkt hjá fyrirliða Liverpool. 

Steven Gerrard fór fyrir Liverpool á leiktíðinni og líkt og síðustu árin þá lék hann lykilhlutverk í liðinu. Sem fyrr segir þá skoraði hann metfjölda marka og hann átti líka þátt í mörgum öðrum. Það skiptir ekki máli hvort það eru aðdáendur Liverpool sem mæra hann eða einhverjir aðrir. Það sjá allir að Steven býr yfir einstökum hæfileikum og það má færa rök fyrir því að enginn leikmaður í heimi sé jafn góður í því sem Steven gerir best.

Síðasti leikmaður Liverpool til að vera kjörinn Knattspyrnumaður ársins var John Barnes en hann hlaut þennan heiður árið 1990. Hann hafði þetta að segja um Steven þegar kjör hans var kynnt. "Þeir sem vinna þessi verðlaun spila oftast með liðum sem vinna deildina. Það segir því sína sögu um hversu Steven hefur spilað vel á leiktíðinni að hann skuli hafa orðið fyrir valinu. Þetta er líka staðfesting á því hversu vel félagar hans í Liverpool hafa staðið sig. Það er langt um liðið frá því gamla félagið mitt hefur komist svona nærri því að vinna titilinn og þessi viðurkenning er eitt af merkjum þess að liðið er farið að nálgast að gera það. Liverpool hefur bætt sig geigvænlega mikið í deildinni á þessari leiktíð og Steven hefur átt stóran þátt í þeirri bætingu. Hann á því skildar hamingjuóskir því framganga hans hefur verið þess eðlis að hún á viðurkenningu skilda. Steven spilar fyrir liðið og er leiðtogi, í þess orðs fyllstu merkingu, með öllum mörkunum sínum og þeirri óeigingjörnu vinnu sem hann leggur á sig fyrir liðið."

Sjálfur sagði Steven Gerrard meðal annars þetta þegar hann hafði verið krýndur Knattspyrnumaður ársins. "Ég hef alltaf fengið mikla og góða hjálp hjá öllum hjá þessu knattspyrnufélagi. Fjölskylda mín og vinir koma líka alltaf að horfa á mig þegar ég spila og þetta fólk á stóran þátt í því sem ég hef afrekað í knattspyrnunni því það hefur ætíð verið til taks fyrir mig allan sólarhringinn og alla sjö daga vikunnar. Stærstu þakkirnar á þó framkvæmdastjórinn, þjálfararnir og liðsfélagar mínir. Það er mjög gaman að vinna einstaklingsverðlaun en það er ekki hægt að vinna þau nema vegna mikillar hjálpar frá öllu þessu fólki." Eru þetta bara ekki góð lokaorð?

Sf. Gutt.
 
TIL BAKA