)

Glen Johnson

Liverpool gekk frá sínum fyrstu kaupum fyrir komandi tímabil fyrir ekki svo löngu þegar félagið staðfesti kaupin á hægri bakverðinum Glen Johnson. Hann hefur mikla reynslu úr ensku Úrvalsdeildinni þar sem hann hefur leikið með West Ham, Chelsea, Portsmouth og svo fljótlega Liverpool.

Glen er fæddur 23. ágúst árið 1984 og fæddist og ólst upp í Lundúnum. Hann hóf ferill sinn hjá West Ham United þar sem hann kom í gegnum unglingastarf félagsins. Þegar hann var sextán ára gerði hann þriggja ára atvinnumannasamning við West Ham og var úthlutað treyju númer 23. Hann byrjaði á að vera lykilmaður í varaliði West Ham og var síðar lánaður til Millwall þar sem hann átti að öðlast reynslu, þar lék hann átta leiki í fyrstu deildinni og var seinna boðaður aftur til West Ham. Hann þeytti frumraun sína fyrir aðallið West Ham og í Úrvalsdeild þegar hann kom inn á sem skiptimaður í tapleik árið 2003. Hann lék fimmtán leiki með aðalliðinu það sem eftir leið tímabils og undir lokin hafði honum tekist að vinna sér inn sæti í liðinu. Í lok tímabilsins féll lið hans niður í fyrstu deildina eftir tap í loka leiknum, það reyndist vera síðasti leikur hans með West Ham.

Honum var greinilega ekki ætlað að spila í fyrstu deild því fljótlega eftir fallið gekk hann til liðs við erkifjendurna í Chelsea á sex milljónir punda sem var þá það mesta sem var borgað fyrir ungan leikmann á þeim tíma en þá var hann átján ára og var hann fyrstu kaup milljarðamæringsins Roman Abramovich sem eiganda Chelsea. Hann þreytti frumraun sína í deildarleik með aðalliði Chelsea í sigurleik gegn Liverpool í ágúst mánuði það ár og skoraði hann fyrsta mark sitt í úrvalsdeild gegn Newcastle í nóvember mánuði 2003.

Ferill hans hjá Chelsea var ekki eins góður og hann hafði vonast eftir en hann var í fjögur ár hjá Chelsea og fékk fá tækifæri en á þessum árum spilaði hann rétt rúma fjörtíu leiki og skoraði þrjú mörk. Glen sagðist hafa átt mjög erfitt uppdráttar hjá Chelsea vegna skorts á tækifærum og að honum hafði ekki gefist tækifæri á að skína og taka þeim framförum sem hann hafði vonast eftir.

Portsmouth kom honum til bjargar þegar hann fór á lánsamningi til félagsins árið 2006 og lék með liðinu út það tímabil þar sem hann lék hátt í þrjátíu leiki á tímabilinu og á lokadegi félagskiptagluggans sumarið eftir ákvað Portsmouth að kaupa hann frá Chelsea og var kaupverðið talið vera í kringum fjórar milljónir punda, sem var ekki mikill peningur ef tekið er mið á því sem hann átti eftir að gera.

Hann lék tvö tímabil með Portsmouth eftir að hann var orðinn leikmaður liðsins og á þeim tíma spilaði hann í kringum sextíu leiki og skoraði fjögur mörk. Þar hafði honum tekist að snúa ferli sínum aftur á rétta braut og tókst að vinna sér inn sæti í enska landsliðinu og situr sem fastast þar þessa stundina.

Glen hefur leikið fimmtán landsleiki fyrir hönd Englands og var hans fyrsti leikur fyrir þjóð sína þegar hann kom inn á sem varamaður í leik gegn Danmörku árið 2003 en átti þar slaka frammistöðu og var hann svolítinn tíma að koma sér aftur í landsliðshópinn en hann lék hvorki undir stjórn Sven Göran Eriksson né Steve McClaren, það var hins vegar Fabio Cappello núverandi landsliðsþjálfari sem valdi hann í leikmannahóp sinn og hefur hann átt fast sæti síðan. Það verður að nefna frammistöðu hans í leik gegn Andorra þegar hann lagði upp fjögur fyrstu mörkin í stórsigri Englendigna.

Í janúar mánuði þessa árs reyndi Liverpool að klófesta Glen en það mistókst og skrifaði hann undir fimm ára samning við félagið. Þá virtist sem að möguleikar Liverpool á að fá hann í sínar raðir væru ekki miklir en annað hefur komið á daginn.

Síðasta tímabil hans hjá Portsmouth var einkar glæsilegt en ásamt því að vinna sér inn fast sæti í enska landsliðinu þá var hann valinn í lið ársins og var hann gífurlega eftirsóttur af Liverpool, Chelsea og Manchester City. Hann sagði að Liverpool væri eini staðurinn sem hann myndi vilja enda á því ferill hans eyðilagðist næstum hjá Chelsea og Manchester City geta ekki boðið honum upp á bókaða titilbaráttu eða sæti í Evrópukeppni, einnig sem hann hefði líklega fengið meiri pening í hendurnar hefði hann samið við annað hvort Chelsea eða Manchester City en það er greinilegt að hann virðist hafa hjartað á réttum stað með því að velja Liverpool.

En þetta eru engin smá kaup sem Liverpool er að gera, kaupverðið á honum er talið nema sautján og hálfri milljón punda allt í allt sem verður að teljast gífurlega mikið fé fyrir bakvörð og Liverpool ekki lengi verið þekkt fyrir að eyða hárri upphæð í leikmann og hvað þá varnarmann. Hann mun þá koma til með að vera langdýrasti varnarmaður Liverpool, einn af fimm dýrustu leikmönnum Liverpool frá upphafi og þriðji dýrasti bakvörður í heiminum á eftir Dani Alves og Lilian Thuram.

Þarna er Liverpool að fjárfesta í líklega besta bakverði Englendinga og líklega besta hægri bakverði deildarinnar ef tekið er mark á árangri hans síðasta tímabil. Hann er gífurlega fljótur, ákveðinn og sterkur leikmaður sem býr yfir tækni, góðum fyrirgjöfum og að hann er alveg óhræddur við að taka sénsa á því að skora. Hann var lengi gagnrýndur fyrir að vera ekki nægilega öflugur varnarlega en hann hefur heldur betur tekið sig á í þeim málum og er orðinn hinn fínasti varnarmaður sem einnig getur sótt eins og hinn besti kantmaður.

Þetta eru einnig mjög mikilvæg kaup fyrir Liverpool því svo virðist sem að UEFA sé að herða á þeirri reglu að lið eigi að hafa fleiri heimamenn í liðum sínum og verður Liverpool að fá fleiri sterka Englendinga í sínar raðir til að geta staðið undir þeim reglum.

Þetta gætu án nokkurs vafa orðið frábær kaup hjá Liverpool en það er ljóst að liðið er að fá frábæran leikmann á besta aldri og getur hann líklega eingöngu orðið betri í sterku liði eins og Liverpool. Hann er ekki enn kominn með treyjunúmer hjá Liverpool enda ekki gjaldgengur fyrr en í opnun félagsskiptagluggans í júlí. En það var greinilega mjög líklegt að kaupin myndu ganga í gegn nokkrum dögum áður en greint var frá því að Liverpool hefði náð samkomulagi við leikmanninn því tekið var eftir því að hægt var að panta sér nafn Johnson aftan á nýja varabúning liðsins.

Glen er boðinn velkominn til félagsins og vonandi mun ferill hans hjá Liverpool vera einkar glæstur. Við vonumst til að hann geti hjálpað Liverpool í að vinna langþráðan Englandsmeistaratitil á næstu árum.

Ólafur Haukur Tómasson
 
TIL BAKA